Fræðsla og leiðbeining


Umræðu- og fræðsluhlutverk Samkeppniseftirlitsins

Útgáfa fræðslumyndbanda er í takti við þann vilja löggjafans að efla hlutverk Samkeppniseftirlitsins sem málsvara fyrir samkeppnislögin og öfluga samkeppni. Eru þessar áherslur einnig í samræmi við markmið sem sett hafa verið fram í fjármálaáætlun á málefnasviði eftirlitsins. Í tengslum við breytingar á samkeppnislögum árið 2020 kom eftirfarandi meðal annars fram í frumvarpinu:

Til að ábati virkrar samkeppni skili sér að fullu út í samfélagið er mikilvægt að koma fyrir fram í veg fyrir samkeppnislagabrot með aukinni fræðslu um samkeppnismál samfara því að sinna eftirliti með háttsemi fyrirtækja á markaði eftir á (ex-post).

Þá var það áréttað að eitt af hlutverkum Samkeppniseftirlitsins sé að stuðla að umræðu og fræðslu um samkeppnismál og ábata virkrar samkeppni fyrir atvinnulíf og neytendur. Í því samhengi var eftirfarandi tekið fram:

Rétt þykir að þetta mikilvæga hlutverk stofnunarinnar fái aukið vægi, líkt og Samkeppniseftirlitið hefur lagt áherslu á undanfarin ár, enda er það til þess fallið að efla faglega umræðu um samkeppnismál hér á landi.

Við undirbúning á fræðslu Samkeppniseftirlitsins eru meðal annars hafðar til hliðsjónar niðurstöður úr könnunum sem Samkeppniseftirlitið lét framkvæma árin 2019 og 2020. Niðurstöður þeirra voru kynntar í skýrslunum Þekking og viðhorf stjórnenda íslenskra fyrirtækja til samkeppnismála og Viðhorf almennings til samkeppnismála.

Niðurstöðurnar sýndu meðal annars að 30% stjórnenda íslenskra fyrirtækja töldu sig þekkja bannreglur samkeppnislaga illa eða alls ekkert. Þá sýndu kannanir einnig að þrátt fyrir að almenningur hér á landi sé meðvitaður um þýðingu samkeppnislaga fyrir hagsmuni sína sé full ástæða til að efla þekkingu almennings á samkeppnisreglum, ekki síst yngri hópa.

Það er von Samkeppniseftirlitsins að fólk á öllum aldri geti haft gagn og gaman af myndböndunum. Auk þess að vera aðgengileg hér á vefsíðunni verða þau einnig á Facebook og YouTube síðum Samkeppniseftirlitsins.