Forgangsröðun verkefna
Samkeppniseftirlitinu er heimilt að raða verkefnum sínum í forgangsröð eftir alvarleika og mikilvægi mála. Lagt er mat á þau erindi sem berast og hvort þau gefi næga ástæðu til frekari rannsókna og þeim raðað niður í forgangsröð. Í ljósi fjölda þeirra erinda sem berast Samkeppniseftirlitinu er brýnt og eðlilegt að stofnunin geti forgangsraðað verkefnum svo störf hennar verði markvissari og hnitmiðuð. Þeir sem beina erindum til eftirlitsins eiga því ekki sjálfkrafa rétt á því að mál þeirra verði tekin til meðferðar eða að þeir eigi aðild að slíku máli. Í forgangsröðun verkefna getur falist að mál sé tekið umsvifalaust til skoðunar eða jafnvel sett í bið.
Áherslur Samkeppniseftirlitsins eru leiðbeinandi við ákvarðanatöku um forgangsröðun verkefna og aðgerða í starfi stofnunarinnar. Samkeppniseftirlitið setur sér á hverju ári áherslur til næstu þriggja ára, þar sem fjallað eru um efnahagsaðstæður, áskoranir framundan og til hvaða verkefna eftirlitið muni sérstaklega líta. Þær eru birtar í ársskýrslu.
Við forgangsröðun og mat á því hvort taka eigi mál til rannsóknar er horft til 9. gr. reglna nr. 880/2005 um málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins. Eftirfarandi atriði geta m.a. skipt máli:
- að meint brot eða samkeppnishömlur virðist vera alvarlegar,
- að meint brot eða samkeppnishömlur varði ekki aðeins viðskiptahagsmuni kvartanda heldur geti haft víðtækari skaðleg áhrif á samkeppni,
- að fyrirtæki sem kvartað er yfir hafi ekki látið af þeirri hegðun sinni sem var tilefni kvörtunar,
- að kvartandi geti ekki gætt viðkomandi hagsmuna sinna fyrir dómstólum.