Mat Samkeppniseftirlitsins á tilefni mála
Ef erindi til Samkeppniseftirlitsins uppfyllir kröfur sem gerðar eru samkvæmt málsmeðferðarreglum tekur Samkeppniseftirlitið ákvörðun um hvort það gefi nægt tilefni til þess að hefja rannsókn og málsmeðferð.
Við mat á því hvort erindi gefi tilefni til rannsóknar hefur Samkeppniseftirlitið hliðsjón af málefnalegum sjónarmiðum sem þykja skipta máli í hverju tilviki fyrir sig. Eftirfarandi atriði geta m.a. skipt máli við mat Samkeppniseftirlitsins á því hvort hefja beri rannsókn:
- Að meint brot eða samkeppnishömlur virðist vera alvarlegar. Umrætt tilvik getur verið alvarlegt frá sjónarhóli þess sem kvartar, en Samkeppniseftirlitið leggur heildstætt mat á alvarleikann frá sjónarhóli almannahagsmuna.
- Að meint brot eða samkeppnishömlur varði ekki aðeins viðskiptahagsmuni kvartanda heldur geti haft víðtækari skaðleg áhrif á samkeppni. Hér er m.a. metið hvort almannahagsmunir séu í húfi.
- Að fyrirtæki sem kvartað er yfir hafi ekki látið af þeirri hegðun sinni sem var tilefni kvörtunar. Þannig er þýðing hugsanlegrar rannsóknar metin.
- Að kvartandi geti ekki gætt viðkomandi hagsmuna sinna fyrir dómstólum. Ekki þarf að bera öll mál sem varða samkeppnislög undir Samkeppniseftirlitið. Kvartandi kann að hafa nægar upplýsingar og gögn undir höndum til að höfða mál fyrir héraðsdómi.
Við mat á því hvort erindi gefi tilefni til rannsóknar er Samkeppniseftirlitinu heimilt að leita umsagnar. Þannig getur Samkeppniseftirlitið leitað upplýsinga og sjónarmiða í því skyni að meta hvort taka þurfi málið upp.