Markaðs­rannsóknir


Markaðsrannsóknir

Með lögum nr. 14/2011 voru gerðar breytingar á samkeppnislögum í því skyni að styrkja lögin og efla samkeppni. Í þessu fólst m.a. að nýr stafliður bættist við 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga (c-liður) sem heimilar Samkeppniseftirlitinu að grípa til aðgerða gegn aðstæðum eða háttsemi sem kemur í veg fyrir, takmarkar eða raskar samkeppni. Með þessari lagabreytingu var Samkeppniseftirlitinu veitt heimild til að afstýra eða vinna gegn samkeppnishömlum sem ekki stafa af brotum fyrirtækja á samkeppnislögum heldur leiða af markaðsbrestum sem hindra að almenningur og atvinnulífið njóti ábata af virkri samkeppni á viðkomandi markaði. Er um að ræða lagaheimild sem leyfir rannsóknir og aðgerðir þar sem áherslan er ekki á að uppræta brot í fortíðinni heldur stuðla betri virkni markaða til frambúðar.


Í kjölfar gildistöku laga nr. 14/2011 hóf Samkeppniseftirlitið skoðun á því með hvaða hætti væri heppilegast að tryggja góða stjórnsýsluhætti og –málsmeðferð við beitingu á hinni nýju heimild í c. lið 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga. Horft var til þeirra sjónarmið sem fram höfðu komið á Alþingi um nauðsyn þess að málsmeðferð og rannsóknir í málum af þessum toga væru vandaðar. Fyrirmynd af þeirri heimild sem hér um ræðir var ekki síst sótt til Bretlands, sbr. umfjöllun í frumvarpi sem varð að lögum nr. 14/2011. Þar í landi hafa samkeppnisyfirvöld áratuga reynslu af beitingu samskonar heimildar.
Sem lið í þessum undirbúningi birti Samkeppniseftirlitið í febrúar 2012 umræðuskjalið „Markaðsrannsóknir Samkeppniseftirlitsins – Umræðuskjal um íhlutun í samkeppnishindranir þegar ekki er um brot á samkeppnislögum að ræða.“


Að fengnum umsögnum setti Samkeppniseftirlitið reglur nr. 490/2013 um markaðsrannsóknir, sbr. 2. mgr. 8. gr. samkeppnislaga. Megin tilgangur reglnanna er að móta skýran ramma um markaðsrannsóknir Samkeppniseftirlitsins þar sem framkvæmd þeirra er eðli máls samkvæmt frábrugðin meðferð á hefðbundnum brotamálum eða samrunaeftirliti. Í þessum reglum er kveðið á um gildissvið og markmið markaðsrannsókna, undirbúning og upphaf þeirra, málsmeðferð og lok rannsókna. Um markaðsrannsóknir, málsmeðferð og ákvarðanatöku, gilda að öðru leyti reglur nr. 880/2005, um málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins, og starfsreglur stjórnar Samkeppniseftirlitsins nr. 902/2011, sbr. 3. mgr. áðurnefndrar 10. gr. reglna nr. 490/2013.
Samkeppniseftirlitið hóf markaðsrannsókn á eldsneytismarkaði árið 2013, sjá nánar hér.


Markaðsrannsókn byggir fyrst og fremst á hagfræðilegri skoðun og greiningu á samkeppnisumhverfi á hlutaðeigandi skilgreindum markaði. Rannsóknin lýtur að markaði í heild sinni fremur en afmörkuðum hluta hans og er því gott tæki til að fá heildar yfirsýn yfir samkeppnislegar aðstæður á hlutaðeigandi markaði.
Í hnotskurn felur markaðsrannsókn í sér athugun Samkeppniseftirlitsins á því hvort grípa þurfi til aðgerða gegn aðstæðum eða háttsemi sem raska samkeppni almenningi til tjóns. Með aðstæðum er m.a. átt við atriði sem tengjast eiginleikum viðkomandi markaðar, þ.m.t. skipulag eða uppbyggingu fyrirtækja sem á honum starfa. Með háttsemi er átt við hvers konar atferli, þ.m.t. athafnaleysi, sem á einhvern hátt hefur skaðleg áhrif á samkeppni á markaði þrátt fyrir að ekki sé brotið gegn bannákvæðum laganna.


Marmið markaðsrannsókna er þannig að greina mögulegar samkeppnishömlur og bæta samkeppnisumhverfi á mörkuðum þar sem ástæða er til að ætla að aðstæður eða háttsemi séu fyrir hendi sem koma í veg fyrir, takmarka eða hafa skaðleg áhrif á samkeppni almenningi til tjóns. Til slíkra aðstæðna eða háttsemi sem draga úr skilvirkni markaða geta t.d. talist mikil samþjöppun á viðkomandi markaði, miklar hindranir á því að nýir keppinautar geti hafið atvinnustarfsemi eða minni keppinautar eflt stöðu sína. Einnig falla hér undir aðgerðir eða aðgerðaleysi fyrirtækja eða opinberra aðila sem draga úr skilvirkni markaða.

 
Að undangenginni markaðsrannsókn getur Samkeppniseftirlitið metið hvort tilefni sé til að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að bregðast við aðstæðum eða háttsemi sem koma í veg fyrir, takmarka eða hafa skaðleg áhrif á samkeppni almenningi til tjóns.


Tengt efni