Markaðs­rannsóknir


Til hvaða ráðstafana getur stofnunin gripið í kjölfar markaðsrannsókna

Ef markaðsrannsókn Samkeppniseftirlitsins leiðir til þess að talið er nauðsynlegt að grípa til íhlutunar á hlutaðeigandi markaði getur hún, skv. 2. mgr. 16. gr. samkeppnislaga, falið í sér hverjar þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að efla samkeppni, stöðva brot eða bregðast við athöfnum opinberra aðila sem kunna að hafa skaðleg áhrif á samkeppni. Samkeppniseftirlitið getur beitt nauðsynlegum úrræðum bæði til breytingar á atferli og skipulagi, í réttu hlutfalli við brot sem framið hefur verið eða þær aðstæður eða háttsemi sem um ræðir.

Samkeppniseftirlitið hefur þannig skv. framangreindu heimild til íhlutunar þrátt fyrir að fyrirtæki hafi ekki brotið bannreglur samkeppnislega eða um sé að ræða samkeppnishamlandi samruna.

Telji Samkeppniseftirlitið að íþyngjandi ákvörðun kunni að verða tekin í kjölfar markaðsrannsóknar, þ.m.t. úrræði til breytinga á atferli og skipulagi fyrirtækja, skal gefa út andmælaskjal í tengslum við áðurnefnda frummatsskýrslu, sbr. 8. gr. reglna nr. 490/2013. Fer um andmælaskjal að öðru leyti skv. 17. gr. reglna nr. 880/2005 um málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins.

Rannsókn, eða hluta hennar, sem leiðir til bindandi íhlutunar, er lokið með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins samkvæmt IV. kafla reglna nr. 880/2005 um málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins, sbr. 2. mgr. áðurnefndrar 10. gr. reglna nr. 490/2013.

Samkvæmt 1. mgr. áðurnefndrar 10. gr. reglna nr. 490/2013 fjallar stjórn Samkeppniseftirlitsins um niðurstöður markaðsrannsókna og undir hana eru bornar, til samþykktar eða synjunar, ákvarðanir á grunni rannsóknarinnar sem fela í sér íhlutun samkvæmt c-lið 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga eða öðrum ákvæðum laganna.

Ákvarðanir um íhlutun Samkeppniseftirlitsins skv. áðurnefndri 2. mgr. 16. samkeppnislaga, eru kæranlegar til áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sbr. 9. gr. samkeppnislaga.

Samkvæmt c-lið 1. mgr. 8. gr. samkeppnislaga hefur Samkeppniseftirlitið það hlutverk að gæta þess að aðgerðir opinberra aðila takmarki ekki samkeppni og benda stjórnvöldum á leiðir til að gera samkeppni virkari og auðvelda aðgang nýrra keppinauta að mörkuðum. Séu niðurstöður markaðsrannsóknar þær að regluverk eða framkvæmd stjórnvalda feli í sér samkeppnishömlur í skilningi c-liðar 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga getur Samkeppniseftirlitið gefið út álit eða tilmæli til viðkomandi stjórnvalda, sbr. d-lið 9. gr. reglna nr. 490/2013, sbr. 18. gr. samkeppnislaga og 24. gr. málsmeðferðarreglna nr. 880/2005.

Má geta þess í þessu samhengi að þann 4. apríl 2017 birti Samkeppniseftirlitið fjögur álit og tilmæli til stjórnvalda vegna niðurstöðu gagnvart stjórnvöldum í markaðsrannsókn á eldsneytismarkaði, sbr. eftirfarandi álit Samkeppniseftirlitsins nr.:

·         1/2017 samkeppnishömlur á eldsneytismarkaði álit til umhverfis og auðlindaráðherra ,

·         2/2017 samkeppnishömlur á eldsneytismarkaði álit til Reykjavíkurborgar,

·         3/2017 samkeppnishömlur á eldsneytismarkaði Álit til samgöngu og sveitastjórnarráðherra og

·         4/2017, samkeppnishömlur á eldsneytismarkaði álit til Flutningsjöfnunarsjóðs.


Tengt efni