Markaðs­rannsóknir


Markmið markaðsrannsókna

Samkeppniseftirlitið framkvæmir markaðsrannsóknir að eigin frumkvæði en rökstudd erindi, ábendingar og sjónarmið hagsmunaaðila og almennings geta legið til grundvallar markaðsrannsókn.
Vísbendingar um hvers konar aðstæður eða háttsemi geta gefið tilefni til markaðsrannsóknar geta verið eftirfarandi, sbr. 2. mgr. 2. gr. reglna nr. 490/2013 um markaðsrannsóknir Samkeppniseftirlitsins:
a) Aðgerðir eða skipulag á fákeppnismarkaði sem virðist auðvelda skaðlega samhæfða hegðun fyrirtækja .
b) Verð, þjónusta, gæði og aðrir samkeppnisþættir sem gefa vísbendingu um takmarkaða virkni markaðar.
c) Uppbygging og skipulag fyrirtækis með mjög sterka stöðu á markaði sem kann að takmarka með verulegum hætti það samkeppnislega aðhald sem keppinautar geta veitt.
d) Röskun á samkeppni sem virðist stafa af eigna- og stjórnunartengslum fyrirtækja.
e) Samkeppnishamlandi mismunun opinberra aðila gagnvart keppinautum.
f) Gjöld og annar kostnaður sem kann að takmarka möguleika viðskiptavina á því að færa viðskipti sín frá einu fyrirtæki til annars.
g) Skortur á upplýsingum eða óskýrir skilmálar sem vinna mögulega gegn því að viðskiptavinir færi viðskipti sín frá einu fyrirtæki til annars.
h) Ófullnægjandi aðgangur fyrirtækja að aðstöðu sem er nauðsynleg til þess að geta keppt með skilvirkum hætti á viðkomandi markaði.
Þegar Samkeppniseftirlitið metur hvort hefja skuli markaðsrannsókn er m.a. horft til eftirfarandi atriða, sbr. 3. gr. reglna nr. 490/2013:
a. Hvort rökstuddur grunur sé um að aðstæður eða háttsemi á viðkomandi markaði komi í veg fyrir, takmarki eða hafi skaðleg áhrif á samkeppni almenningi til tjóns,
b. mikilvægis viðkomandi markaðar fyrir neytendur og atvinnulífið,
c. vísbendinga og fyrri mála er snúa að samkeppnishömlum á markaði,
d. líklegra beinna og óbeinna áhrifa samkeppnishamla á neytendur,
e. áætlaðs kostnaðar rannsóknar,
f. forgangsröðunar Samkeppniseftirlitsins,
g. fjárveitinga sem ætlaðar eru í markaðsrannsóknir.


Málsmeðferð markaðsrannsókna

Um málsmeðferð markaðsrannsókna gilda reglur nr. 490/2013, um markaðsrannsóknir Samkeppniseftirlitsins, sbr. 2. mgr. 8. gr. samkeppnislaga. Í þessum reglum er kveðið á um gildissvið og markmið markaðsrannsókna, undirbúning og upphaf þeirra, málsmeðferð og lok rannsókna. Um markaðsrannsóknir, málsmeðferð og ákvarðanatöku, gilda að öðru leyti reglur nr. 880/2005, um málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins, og starfsreglur stjórnar Samkeppniseftirlitsins nr. 902/2011, sbr. 3. mgr. áðurnefndrar 10. gr. reglna nr. 490/2013.

Telji Samkeppniseftirlitið ástæðu til þess að ráðast í markaðsrannsókn skal það útbúa rannsóknaráætlun um tilhögun rannsóknarinnar. Fjallar stjórn Samkeppniseftirlitsins um hana en staðfesting stjórnar á áætluninni markar upphaf markaðsrannsóknarinnar.

Að fenginni tillögu forstjóra Samkeppniseftirlitsins er stjórn eftirlitsins heimilt að skipa ráðgjafahóp vegna hverrar markaðsrannsóknar fyrir sig.

Hafi stjórnin samþykkt rannsóknaráætlunina eru helstu áfangar í rannsókninni eftirfarandi:

1)    Tilkynnt um upphaf markaðsrannsóknar til aðila.

2)    Upplýsingaöflun og mat á gögnum.

3)    Frummat Samkeppniseftirlitsins birt í skýrslu.

4)    Almenningi og hagsmunaaðilum gefst færi á að tjá sig um frummatið.

5)    Opinn fundur haldinn  þar sem hagsmunaaðilum og öðrum gefst færi á að koma sjónarmiðum sínum um frummatskýrsluna á framfæri.

6)    Ákvörðun tekin um með hvaða hætti skuli ljúka markaðsrannsókn sem getur falist í einni eða fleiri af eftirfarandi úrlausnum:

a)    heimildum 16. gr. gr. til breytinga á háttsemi og/eða skipulagi fyrirtækja er beitt.

b)    heimildum 16. gr. beitt gagnvart samkeppnishamlandi athöfnum opinberra aðila.

c)    Sérstök rannsókn hafin á mögulegu broti á bannreglum samkeppnislaga eða fyrirmælum í ákvörðunum samkeppnisyfirvalda.

d)    Álit og/eða tilmæli.

e)    Ef niðurstöður rannsóknar leiða ekki til bindandi íhlutunar eru þær settar fram í skýrslu sem birt er opinberlega.


Tengt efni