Málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins
Málshraði
Samkeppniseftirlitið keppir að því að taka vel rökstuddar ákvarðanir innan eðlilegra tímamarka. Eftirfarandi atriði ráða oft á tíðum mestu um það hversu langan tíma mál eru í meðferð hjá Samkeppniseftirlitinu:
- Umfang máls: Mál hjá Samkeppniseftirlitinu eru misjafnlega umfangsmikil og flókin. Ákvarðanir samkeppnisyfirvalda sem birtar eru á heimasíðunni spanna allt frá tveimur blaðsíðum til tæplega eitt þúsund blaðsíðna.
- Málsaðild: Því fleiri málsaðilar og aðilar sem afla þarf gagna frá eða sjónarmiða hjá, því lengri tíma getur málið tekið. Oft gleymist að bið eftir gögnum og sjónarmiðum aðilanna er verulegur hluti þess tíma sem mál getur tekur.
- Kröfur um vandaða málsmeðferð: Stjórnsýslulög setja Samkeppniseftirlitinu og öðrum stjórnsýslustofnunum strangar reglur um rannsókn mála, andmælarétt o.fl. Augljóslega væri oft hægt að flýta málum á kostnað vandaðrar málsmeðferðar.
- Forgangsröðun: Brýn mál sem til meðferðar eru tefja oft meðferð annarra mála. Sem dæmi má nefna að ákvörðun um íhlutun eða ógildingu samruna þarf samkvæmt lögum að taka innan fjögurra mánaða frá því að fullbúin gögn bárust eftirlitinu. Samrunamál eru því tekin fram fyrir mál sem ekki lúta lögbundnum tímafrestum.
- Mannafli og rekstrarsvigrúm: Sérfræðingar Samkeppniseftirlitsins eru að jafnaði undir talsverðu vinnuálagi. Það sem og rekstrarsvigrúm stofnunarinnar hefur að sjálfsögðu áhrif á málshraðann.
Stefna Samkeppniseftirlitsins og markmið um árangursstjórnun miða m.a. að því að flýta afgreiðslu mála. Af fyrrgreindum ástæðum er hins vegar ekki hægt að útiloka óæskilegar tafir á meðferð mála. Tafir eiga þó ekki að verða nema gildar ástæður séu fyrir þeim.
Mál eru annaðhvort tekin til meðferðar að frumkvæði Samkeppniseftirlitsins eða á grundvelli kvartana sem stofnuninni berast.
Ákvörðun um að taka mál upp að eigin frumkvæði er tekin með hliðsjón af áherslum Samkeppniseftirlitsins hverju sinni. Samkeppniseftirlitið beitir ýmsum aðferðum til að hafa yfirsýn yfir ástand samkeppnismarkaða og mótar áherslur á grundvelli þeirrar yfirsýnar.
Allir geta beint ábendingum til Samkeppniseftirlitsins, m.a. í gegnum “Senda ábendingar um samkeppnislagabrot” á heimasíðunni, undir nafni eða nafnlaust. Slíkar ábendingar eru nýttar til að bæta yfirsýn yfir markaði og kunna að leiða til athugana ef næg ástæða og eðlileg forgangsröðun verkefna gefur tilefni til.
Einnig er hægt að beina formlegum kvörtunum til Samkeppniseftirlitsins. Sjá kvartanir og erindi.
Samkeppniseftirlitið tekur ákvörðun um rannsóknir
Samkeppniseftirlitið tekur ákvörðun um hvaða mál eru tekin til meðferðar, m.a. með hliðsjón af áherslum á starfseminni hverju sinni. Samkeppniseftirlitið hefur á hverju ári úr fyrirfram ákveðnum fjármunum að spila. Eðli málsins samkvæmt á það ekki kost á því að taka til athugunar öll mál sem mikilvæg eru frá sjónarhóli þess sem kvartar eða setur fram ábendingu.
Þeir sem beina erindum sínum til eftirlitsins eiga því ekki sjálfkrafa rétt á því að mál þeirra verði tekin til meðferðar eða að þeir eigi aðild að slíku máli. Bæði eru gerðar kröfur til innsendra erinda, auk þess sem Samkeppniseftirlitið metur sérstaklega hvort erindi gefi nægt tilefni til þess að hefja rannsókn og málsmeðferð. Uppfylli erindið ekki framangreind skilyrði um form og tilefni er það engu að síður móttekið og skráð sem ábending, sem síðar kann e.a. að leiða til rannsóknar.
Reglur um málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins
Nánar er kveðið á um málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins í reglum nr. 880/2005, auk þess sem ítarlegar upplýsingar um kvartanir og erindi er að finna á heimasíðunni.