Jafnréttisstefna Samkeppniseftirlitsins
Samkeppniseftirlitið hefur markað sér stefnu í jafnréttismálum sem ætlað er að tryggja jafnræði allra kynja í starfsemi og rekstri stofnunarinnar og stuðla að því að starfsfólk njóti virðingar innan stofnunarinnar og fái notið sín í starfi án tillits til kynferðis í samræmi við ákvæði og markmið jafnréttislaga.
Í jafnréttisáætlun Samkeppniseftirlitsins er kveðið á um að jafnræðis skuli gætt við mannaráðningar, í ákvörðunum um laun og einnig að tekið skuli tillit til fjölskyldu- og einkalífs starfsfólks m.a. með sveigjanlegum vinnutíma. Jafnframt því að unnið skuli að kynjasamþættingu í allri stefnumótun Samkeppniseftirlitsins.
Skýrlega kemur fram í jafnréttisáætlun Samkeppniseftirlitsins að hvorki kynbundin áreitni né kynferðisleg áreitni verði liðin innan stofnunarinnar, sjá nánar í Jafnréttisáætlun Samkeppniseftirlitsins frá september 2022.
Jafnlaunastefna Samkeppniseftirlitsins
Samkeppniseftirlitið hefur það að markmiði að tryggja öllu starfsfólki sínu jöfn laun og jöfn kjör fyrir sömu eða jafnverðmæt störf í samræmi við 19. grein jafnréttislaga nr. 150/2020. Samkeppniseftirlitið greiðir laun í samræmi við umfang og kröfur hvers starfs óháð kyni þess sem innir þau af hendi þannig að enginn ómálefnalegur launamunur sé til staðar.
Til þess að fylgja jafnlaunastefnu Samkeppniseftirlitsins skuldbindur stofnunin sig til að:
- Innleiða, skjalfesta og viðhalda jafnlaunastjórnunarkerfi í samræmi við kröfur staðalsins ÍST 85:2012 og öðlast vottun í samræmi við lög 56/2017 um jafnlaunavottun.
- Framkvæma launagreiningu þar sem borin eru saman jafnverðmæt störf og athugað hvort mælist munur á launum eftir kyni. Niðurstöður eru kynntar fyrir starfsfólki annað hvert ár.
- Bregðast við frávikum, þ.e. ef kröfur staðalsins eru ekki uppfylltar og óútskýrður kynbundinn launamunur finnst, með stöðugum umbótum og eftirliti.
- Framkvæma árlega rýni stjórnenda þar sem jafnlaunamarkmið eru sett fram og rýnd.
- Fylgja þeim lögum, reglum og kjarasamningum sem í gildi eru á hverjum tíma í hvívetna og staðfesta árlega að þeim sé hlítt.
- Tryggja að jafnlaunastefna þessi sé aðgengileg á ytri vef Samkeppniseftirlitsins.
Jafnlaunastefna er órjúfanlegur hluti af jafnréttisstefnu og jafnréttisáætlun Samkeppniseftirlitsins.
Allar ábendingar varðandi jafnlaunavottun má senda á mannaudsmal@samkeppni.is undir heitinu „Jafnlaunavottun“.