Stjórn og stjórnsýsla
Samkeppniseftirlitið er sjálfstæð stofnun. Með yfirstjórn þess fer stjórn, sem sækir umboð sitt til ráðherra og ber ábyrgð gagnvart honum. Hlutverk stjórnar er að móta áherslur í starfi og fylgjast með starfsemi og rekstri Samkeppniseftirlitsins. Stjórnin ræður forstjóra sem annast daglega stjórn stofnunarinnar. Meiri háttar efnislegar ákvarðanir eru bornar undir stjórn til samþykktar eða synjunar. Stjórnin hefur sett sér starfsreglur, nr. 380/2023 þar sem m.a. er kveðið á um hvað teljist til meiri háttar ákvarðana.
Stjórn Samkeppniseftirlitsins er þannig skipuð til 8. september 2025:
- Sveinn Agnarsson, formaður stjórnar
- Sigríður Logadóttir
- Hafsteinn Þór Hauksson
Varamenn í stjórn Samkeppniseftirlitsins eru þessir:
- Ragnhildur Jónsdóttir
- Helga Reynisdóttir
Forstjóri Samkeppniseftirlitsins annast daglega stjórnun á starfsemi og rekstri stofnunarinnar. Stjórn stofnunarinnar ákveður starfskjör forstjóra og setur honum starfslýsingu. Forstjóri ræður starfsmenn stofnunarinnar.
Forstjóri Samkeppniseftirlitsins er Páll Gunnar Pálsson.
Aðstoðarforstjóri er Ásgeir Einarsson.
Aðalhagfræðingur er Valur Þráinsson.
Sameiginleg yfirlýsing atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og Samkeppniseftirlitsins
Í gildi er sameiginleg yfirlýsing atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og Samkeppniseftirlitsins sem þjónar sem vegvísir um framkvæmd samkeppnismála og stefnumótunar í málaflokknum og um hlutverk ráðuneytisins annars vegar og Samkeppniseftirlitsins hins vegar á vettvangi samkeppnismála. Yfirlýsingin er liður í framkvæmd stefnumótunar og árangursmats sem liggur til grundvallar fjármálastefnu og fjármálaáætlunar samkvæmt lögum um opinber fjármál. Þá þjónar yfirlýsingin einnig þeim tilgangi að tryggja sjálfstæði og ábyrgð Samkeppniseftirlitsins á framkvæmd verkefna sinna.
Samkeppniseftirlitið er A-hluta stofnun og er rekstur hennar greiddur af ríkissjóði.