Ákvarðanir
Kvörtun Félags ungra lækna yfir samningi Tryggingastofnunar og Læknafélags Reykjavíkur
- Sækja skjal
- Málsnúmer: 2/1997
- Dagsetning: 27/1/1997
-
Fyrirtæki:
- Félag ungra lækna
-
Atvinnuvegir:
- Heilbrigðis- og félagsmál
- Þjónusta sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna
-
Málefni:
- Samkeppni og hið opinbera
-
Reifun
Samkeppnishömlur fælust að mati félagsins í því að Tryggingastofnun ríkisins, sem keypti stærstan hluta af allri útseldri þjónustu lækna, hefði gert samning við tiltekna aðila (Læknafélag Reykjavíkur og félagsmenn þess) og þannig bæði takmarkað atvinnufrelsi starfandi lækna og hindrað aðgang nýrra lækna að markaðnum.
I. „Með hliðsjón af markaðsráðandi stöðu Tryggingastofnunar ríkisins sem kaupanda á sérfræðilæknisþjónustu telur samkeppnisráð að þær aðgangstakmarkanir, sem felast í 1. gr. samnings Tryggingastofnunar og Læknafélags Reykjavíkur um sérfræðilæknishjálp frá 7. mars 1996, hafi skaðleg áhrif á samkeppni í skilningi 17. gr. samkeppnislaga og brjóti gegn markmiði laganna, sbr. 1. gr. þeirra. Að mati samkeppnisráðs felast aðgangstakmarkanirnar annars vegar í einkarétti félaga Læknafélags Reykjavíkur að samningnum og hins vegar í því hlutverki samráðsnefndar, sem í sitja fulltrúar Læknafélags Reykjavíkur og Tryggingastofnunar ríkisins, að meta þörfina fyrir þjónustu í viðkomandi sérgrein og fá til þess upplýsingar um umfang væntanlegs reksturs og rekstraráætlun. Að mati samkeppnisráðs getur það ekki samrýmst samkeppnislögum að byggja synjun um aðgang að samningi við Tryggingastofnun um sérfræðilæknishjálp, á mati stofnunarinnar á þörfinni fyrir þjónustu í viðkomandi sérgrein. Með vísan til 17. gr. samkeppnislaga beinir samkeppnisráð þeim fyrirmælum til Tryggingastofnunar ríkisins og Læknafélags Reykjavíkur að breyta 1. gr. samnings um sérfræðilæknishjálp á þá leið að einkaréttur félaga Læknafélags Reykjavíkur að samningnum verði afnuminn og framangreint hlutverk samráðsnefndar fellt niður.
II. Samkeppnisráð telur gjaldskrá Læknafélags Reykjavíkur frá 1991 með samþykktum breytingum, svo og 3. og 4. gr. samnings Tryggingastofnunar og Læknafélags Reykjavíkur um sérfræðilæknishjálp frá 1996 fela í sér ólögmætt verðsamráð sem brýtur í bága við ákvæði 12. sbr. 10. gr. samkeppnislaga.
Með vísan til c-liðar 1. mgr. 16. gr. veitir samkeppnisráð umræddri gjaldskrá og samningsákvæðum undanþágu frá 12. gr. sbr. 10. gr. samkeppnislaga. Samkeppnisráð mun fyrir árslok 1999 taka til athugunar hvort rétt sé að endurskoða þessa ákvörðun.
III. Ákvæði 18. gr. laga Læknafélags Reykjavíkur, sem mælir fyrir um að félagsmönnum sé óheimilt að taka að sér læknisstörf fyrir minna endurgjald en ákveðið sé í gjaldskrá félagsins og samþykktum, brýtur að mati samkeppnisráðs gegn ákvæði 12., sbr. 10. gr. samkeppnislaga. Ákvæði 18. gr. laga Læknafélags Reykjavíkur er því ógilt skv. 49. gr. samkeppnislaga. Gjaldskrá sú sem veitt er undanþága fyrir í 2. mgr. í lið II. hér að framan er því hámarksgjaldskrá.“