Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Kaup Pressunnar ehf. á tólf blöðum sem Fótspor ehf. gaf út

  • Sækja skjal
  • Málsnúmer: 33/2015
  • Dagsetning: 23/12/2015
  • Fyrirtæki:
    • Pressan ehf.
    • Fótspor ehf.
  • Atvinnuvegir:
    • Fjarskipti, upplýsingatækni og fjölmiðlun
    • Prentmiðlar
    • Aðrir fjölmiðlar
  • Málefni:
    • Samrunamál
  • Reifun

    Samkeppniseftirlitið hefur haft til umfjöllunar samruna vegna kaupa Pressunnar ehf. á tólf blöðum sem Fótspor ehf. gaf út. Báðir samrunaaðilar starfa á fjölmiðlamarkaði. Fótspor hefur eingöngu starfað á markaði fyrir útgáfu blaða en starfsemi Pressunnar nær einnig til markaðar fyrir fjölmiðlun á netinu. Báðir aðilar starfa á markaði fyrir sölu auglýsinga í fjölmiðlum.

    Um er að ræða kaup Pressunnar á útgáfurétti að tólf blöðum sem útgáfufélagið Fótspor hefur haft með höndum undanfarin ár. Þau blöð sem um ræðir eru: Reykjavík vikublað, Akureyri vikublað, Reykjanes, Selfoss, Austurland, Vesturland, Vestfirðir, Hafnarfjörður, Kópavogur, Aldan, Birta og Sleggjan. Um er að ræða láréttan samruna þar sem samrunaaðilar starfa báðir á sömu mörkuðum. Samruninn fellur bæði undir samrunaákvæði samkeppnislaga nr. 44/2005 og samrunareglur fjölmiðlalaga nr. 38/2011.

    Að undangenginni rannsókn og með hliðsjón af gögnum málsins er það mat Samkeppniseftirlitsins að samruninn hindri ekki virka samkeppni á mörkuðum málsins og leiði ekki til myndunar eða styrkingar á markaðsráðandi stöðu. Þá leiðir samruninn ekki til þess að samkeppni á markaði raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti. Því eru ekki forsendur til að aðhafast vegna samrunans á grundvelli 17. gr. c samkeppnislaga. Samkeppniseftirlitið tekur hins vegar að fullu undir varnaðarorð fjölmiðlanefndar og beinir þeim tilmælum til samrunaaðila að hafa hliðsjón af þeim.