Ákvarðanir
Kaup Regins hf. á fasteignafélögunum Ósvör ehf. og CFV 1 ehf.
- Sækja skjal
- Málsnúmer: 5/2016
- Dagsetning: 9/2/2016
-
Fyrirtæki:
- Ósvör ehf.
- CFV 1 ehf.
- Reginn hf.
-
Atvinnuvegir:
- Sérfræðiþjónusta og önnur þjónusta
- Fasteignasala
-
Málefni:
- Samrunamál
-
Reifun
Samkeppniseftirlitið hefur haft til umfjöllunar yfirtöku Regins hf. á fasteignafélögunum Ósvör ehf. og CFV 1 ehf. Fyrirtækin annast rekstur og útleigu á atvinnuhúsnæði.
Um er að ræða láréttan samruna sem leiðir til stækkunar á eignasafni Regins í um 330.000 fermetra af atvinnuhúsnæði. Fyrirtækið er annar stærsti aðilinn á markaði fyrir útleigu á atvinnuhúsnæði til ótengdra aðila. Stærstu eignir þess eru Smáralind og Egilshöll en auk þess á fyrirtækið dreift safn af verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Samruninn er framhald á þeirri þróun sem átt hefur sér stað undangengin ár, þ.e. að þrjú stærstu fasteignafélögin fjárfesta í minni fasteignafélögum. Eignarhald á þessum fasteignafélögum er einsleitt, stærstu eigendur allra þeirra eru lífeyrissjóðir, fjármálafyrirtæki og aðrir fagfjárfestar. Nokkuð er um að sami hluthafinn eigi eignarhluti í fleiri en einu fyrirtæki á markaðnum en slíkt eignarhald getur valdið röngum hvötum í samkeppni á milli þessara félaga. Eignarhald fyrirtækjanna og meðferð eignarhlutanna kann að verða tilefni til sérstakrar rannsóknar af hálfu eftirlitsins.
Samkeppniseftirlitið hefur skilgreint markað þessa máls sem leigu á atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu til ótengdra aðila. Að undangenginni rannsókn og með hliðsjón af gögnum málsins er það mat Samkeppniseftirlitsins að samruninn hindri ekki virka samkeppni og leiði ekki til myndunar markaðsráðandi stöðu. Þá leiðir hann ekki til þess að samkeppni á markaði raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti. Því eru ekki forsendur til að aðhafast vegna samrunans á grundvelli 17. gr. c. samkeppnislaga nr. 44/2005.