Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Beiðni Eimskipafélags Íslands hf. og Royal Arctic Line A/S um undanþágu vegna samnings um samnýtingu á plássi í áætlunarskipum.

  • Sækja skjal
  • Málsnúmer: 13/2019
  • Dagsetning: 17/4/2019
  • Fyrirtæki:
    • Eimskipafélag Íslands hf.
    • Royal Arctic Line A/S
  • Atvinnuvegir:
    • Samgöngur og ferðamál
    • Sjóflutningur
  • Málefni:
    • Undanþágur
  • Reifun

    Samkeppniseftirlitið hefur haft til meðferðar beiðni Eimskipafélags Íslands hf. og Royal Arctic Line A/S um undanþágu skv. 15. gr. samkeppnislaga vegna samnings um samnýtingu á plássi í áætlunarskipum. Í erindi málsaðila er óskað eftir undanþágu til þess að koma á fót samstarfi um nýtingu gámaskipa með svonefndum VSA-samningi. Samandregið felur hið fyrirhugaða samstarf í sér að þrjú gámaskip sigla á fyrirfram ákveðinni leið, þar sem RAL á og rekur eitt skip, og Eimskip á og rekur tvö skip. Félögin skipta síðan á milli sín raunflutningsgetu skipanna í samræmi við ákvæði VSA-samningsins. Að mati Samkeppniseftirlitsins er til hagsbóta fyrir íslenska neytendur að fleiri aðilar geti boðið upp á reglubundna sjóflutninga á milli Íslands og Norður-Evrópu en með VSA-samningnum er RAL m.a. gert kleift að bjóða upp á vikulegar áætlunarsiglingar. Einnig er það mat Samkeppniseftirlitsins að samstarfið muni m.a. ekki fela í sér fækkun keppinauta eða minnkun á samkeppnislegum þrýstingi milli keppinauta. Með samstarfinu og þeirri hagkvæmni sem í því felst getur RAL aukið þjónustu við sína viðskiptavini sem fyrirtækinu væri annars óframkvæmanlegt. Telur Samkeppniseftirlitið að samningurinn hafi jákvæð áhrif á samkeppni á markaðnum sem sé í samræmi við markmið samkeppnislaga. Nánar er fjallað um áhrif samstarfsins í kafla 4. í ákvörðuninni.

    Í málinu telur Samkeppniseftirlitið nauðsynlegt að setja skilyrði í því skyni að tryggja að frumskilyrðin fjögur sem fram koma í 1. mgr. 15. gr. samkeppnislaga séu öll uppfyllt. Hafa Eimskip og RAL með gerð sáttar við Samkeppniseftirlitið fallist á skilyrðin. Með heimild í 15. gr. samkeppnislaga veitir Samkeppniseftirlitið samningnum undanþágu frá 10. gr. samkeppnislaga. Nánar er gert grein fyrir sáttinni í ákvörðuninni. 

    Ákvörðun uppfærð 2. maí 2019 

    (Hér má nálgast úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála, 1/2019, frá september 2019.)