Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Kaup Prentmets ehf. á hluta af rekstri og eignum Odda prentunar og umbúða ehf

  • Sækja skjal
  • Málsnúmer: 35/2019
  • Dagsetning: 28/10/2019
  • Fyrirtæki:
    • Prentsmiðjan Oddi hf
    • Prentmet ehf.
  • Atvinnuvegir:
    • Prentþjónusta
  • Málefni:
    • Samrunamál
  • Reifun

    Samkeppniseftirlitið hefur haft til meðferðar samruna vegna kaupa Prentmets ehf. á hluta af rekstri og eignum Odda prentunar og umbúða ehf. Samkeppniseftirlitinu barst fullnægjandi tilkynning um samrunann hinn 20. júní 2019. 

    Samkvæmt samrunaskrá starfrækir Prentmet prentsmiðju og umbúðaframleiðslu að Lynghálsi 1 í Reykjavík. Tilgangur félagsins samkvæmt samþykktum er m.a. prentun, prentmyndagerð, fjölritun, auglýsingagerð og sala og innflutningur á vörum sem því tengist. Prentmet býður upp á heildarlausnir í prentun og sérhæfir sig í almennri prentun, prentun bóka, límmiða og umbúða. Prentmet er í eigu Fyrirhyggju ehf., en fyrirtækjasamstæðan á jafnframt helmingshlut í félaginu Umbúðir og ráðgjöf ehf.

    Prentsmiðjan Oddi var stofnuð um prentverk en hefur jafnframt framleitt og flutt inn umbúðir undanfarin ár. Tilgangur Odda samkvæmt samþykktum félagsins er m.a. framleiðsla, vinnsla og sala á umbúðum, rekstur á prentsmiðju, þjónusta við prent- og umbúðaiðnað og tengd starfsemi. Oddi er samkvæmt samrunaskrá í meirihlutaeigu Kristins ehf., dótturfélags Fram ehf.

    Samkvæmt samrunaskrá kaupir Prentmet prentsmiðjurekstur og öskjuframleiðslu Odda. Eftir samrunann mun Oddi hins vegar starfa áfram undir nafni Kassagerðar Reykjavíkur við innflutning og sölu á umbúðum, m.a. öskjum.

    Samkeppniseftirlitið skilgreindi vörumarkaði málsins sem markaði fyrir einfalt prentverk, sérhæft prentverk, og fyrir umbúðir úr öskjuefni. Landfræðilegur markaður var Ísland. Samkeppniseftirlitið taldi markaðsráðandi stöðu ekki myndast eða styrkjast með samrunanum, m.a. í ljósi markaðshlutdeildar, alþjóðlegrar samkeppni og erlends samkeppnislegs aðhalds, kaupendastyrks, og þar sem Oddi yrði áfram keppinautur á umbúðamarkaði. Samkeppniseftirlitið gerði athugasemdir við viðskiptaleg tengsl milli samrunaaðila eftir samrunann og umfang samkeppnisbanns, en aðilar brugðust við með viðbótum og breytingum á undirliggjandi gögnum samrunans. Með hliðsjón af öllu framangreindu heimilaði Samkeppniseftirlitið samrunann án íhlutunar. Sjónarmið samrunaaðila um fyrirtæki á fallanda fæti komu ekki til skoðunar.


     

Tengt efni