Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Kaup Arctic Adventures hf. á eignarhlutum í Raufarhól ehf.

  • Sækja skjal
  • Málsnúmer: 5/2020
  • Dagsetning: 21/2/2020
  • Fyrirtæki:
    • Arctic Adventures hf.
    • Raufarhóll
  • Atvinnuvegir:
    • Samgöngur og ferðamál
    • Ferðaþjónusta
  • Málefni:
    • Samrunamál
  • Reifun

    Samkeppniseftirlitið hefur haft til umfjöllunar kaup Arctic Adventures hf. á eignarhlutum í Raufarhól ehf. Fram kemur í samrunaskrá að Arctic Adventures sé hlutafélag sem stofnað var í þeim tilgangi að leysa Straumhvarf hf. af sem móðurfélag samstæðu. Fyrir samruna þennan fór Arctic Adventures með 36,54% eignarhlut í Raufarhóli ehf. en mun það eftir kaupin fara með 90,38% hlut í fyrirtækinu. Fram kemur í samrunaskrá að báðir samrunaaðilar starfi við sölu og framkvæmd skipulagðra ferða og afþreyingar, beint að ferðamönnum, í heildsölu og smásölu. Þá framkvæmi einnig samrunaaðilar eigin ferðir að stærstum hluta sjálfir.

    Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að mögulegt væri að skipta mörkuðum niður í undirmarkaði eftir því hvers eðlis ferðin væri. Þó taldi eftirlitið að ekki væri ástæða til að skilgreina markaðinn frekar en dagsferðir og styttri ferðir fyrir ferðamenn á Íslandi. Jafnframt var tekið fram að samrunaaðilar voru færir um að veita víðtæka þjónustu og aðlaga sig neytendum hverju sinni, sem þótti benda til þess að skilgreina bæri markaðinn heldur víðari en þrengri. Að mati Samkeppniseftirlitsins eru vísbendingar um að landfræðilegur markaður málsins sé Ísland en í ljósi þess að það hefur ekki áhrif á niðurstöðu málsins er ekki þörf á því að taka endanlega afstöðu til afmörkun landfræðilegs markaðar málsins.

    Með vísan til umfjöllunar í ákvörðun er það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að viðkomandi samruni leiði ekki til þess að markaðsráðandi staða verði til eða styrkist eða að samruninn leiði til þess að samkeppni raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti, sbr. 17. gr. c. Samkeppnislaga, nr. 44/2005.