Ákvarðanir
Beiðni Sýnar hf., Ríkisútvarpsins ohf. og Neyðarlínunnar ohf. um undanþágu á grundvelli 15. gr. samkeppnislaga varðandi samstarf um uppbyggingu og rekstur fjarskiptaaðstöðu á Úlfarsfelli í Reykjavík
- Sækja skjal
- Málsnúmer: 7/2020
- Dagsetning: 4/3/2020
-
Fyrirtæki:
- Neyðarlínan
- Sýn hf.
- Ríkisútvarpið ohf.
-
Atvinnuvegir:
- Fjarskipti, upplýsingatækni og fjölmiðlun
- Önnur tengd fjarskiptaþjónusta
-
Málefni:
- Undanþágur
-
Reifun
Samkeppiseftirlitið hefur haft til umfjöllunar undanþágu skv. 15. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 frá Sýn hf. (Sýn), Ríkisútvarpinu ohf. (RÚV) og Neyðarlínunni ohf. (Neyðarlínan) vegna fyrirhugaðs samstarfs um uppbyggingu á fjarskiptamastri á Úlfarsfelli í Reykjavík. Með undanþágubeiðninni fylgdi samningur um verkefnið sem undirritaður var með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.
Sýn er heiti á sameinuðu félagi Vodafone og sameinaðrar fjölmiðlastarfsemi sem innifeli m.a. Stöð 2, Stöð 2 Sport, Vísi, Bylgjuna, FM957 og X977. Fyrirtækið veiti alhliða fjarskiptaþjónustu, s.s. talsíma-, farsíma-, gagnaflutnings-, sjónvarps- og Intemetþjónustu, samhliða fjölmiðlastarfseminni. Tilgangur félagsins er samkvæmt erindinu fjarskipta-, fjölmiðla- og upplýsingatæknistarfsemi og önnur skyld starfsemi.
RÚV er sjálfstætt hlutafélag í eigu ríkisins og starfar á grundvelli laga nr. 23/2013, um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Hlutverk RÚV sé rekstur hvers konar útvarpsþjónustu í almannaþágu, svo sem hljóðvarps og sjónvarps, en í því felist m.a. að flutt sé vandað og fjölbreytt dagskrárefni sem nái til allra landsmanna, lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi séu virt, lögð sé rækt við þjóðleg gildi, efnisval sé miðað við þarfir sem flestra þjóðfélagshópa, gætt sé óhlutdrægni, stutt sé við ýmiss konar menningarstarfsemi og að haldið sé uppi nauðsynlegri öryggisþjónustu. RÚV rekur fjölmiðlastarfsemi undir merkjum RÚV, RÚV2, Rás 1, Rás 2, Rondó og RÚV.is.
Neyðarlínan er leiðandi þjónustufyrirtæki á sviði neyðar- og öryggisþjónustu. Tilgangur þess er rekstur neyðarvaktstöðvar vegna samræmda neyðarnúmersins 112, almenn svörun neyðarboða, vöktun öryggiskerfa og skyldur rekstur. Neyðarlínan samræmir viðbrögð og boðar björgunar- og neyðarsveitir á öllu landinu og er tengiliður milli landsmanna og viðbragðsaðila. Neyðarlínan rekur fullkomnustu vaktstöð á landinu
sem nýtir það nýjasta á sviði upplýsinga- og fjarskiptatækni.