Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Ferðaskrifstofur fá undanþágu til samstarfs við að koma viðskiptavinum sínum til sín heima vegna COVID-19

  • Sækja skjal
  • Málsnúmer: 12/2020
  • Dagsetning: 14/3/2020
  • Fyrirtæki:
    • Heimsferðir ehf
    • Feria ehf. ( VITA )
  • Atvinnuvegir:
    • Samgöngur og ferðamál
    • Flugþjónusta
  • Málefni:
    • Undanþágur
  • Reifun

    Samkeppniseftirlitið hefur í dag heimilað samstarf ferðaskrifstofa með starfsleyfi frá Ferðamálastofu, sem miðar að því að tryggja að viðskiptavinir þeirra komist til síns heima og takmarka sem mest það tjón sem hljótast mun af því fordæmalausa ástandi sem nú ríkir.

    Samstarfið er bundið þeim skilyrðum að Ferðamálastofa meti samstarfið nauðsynlegt hverju sinni og að stofnunin sé þátttakandi eða sé gefinn kostur á að vera þátttakandi í öllum þeim samskiptum sem lúta að samstarfinu. Tilgangur þessa er að tryggja að samstarf þessara keppinauta eigi sér aðeins stað að því marki sem Ferðamálastofa telur óhjákvæmilegt til að verja þá hagsmuni sem í húfi eru. Um leið er tryggt að Ferðamálastofa öðlist yfirsýn yfir þær aðgerðir sem keppinautar á markaðnum grípa til að þessu leyti.

    Þá er Ferðamálastofu heimilt að kalla saman aðra ferðaþjónustuaðila til þess að meta hvernig brugðist skuli að öðru leyti við áhrifum heimsfaraldurs COVID-19 veirunnar á ferðaþjónustuna, neytendamarkaðinn og efnahagslífið almennt. Reynist þörf á frekari undanþágu frá banni við samstarfi þessara aðila, verður tekin afstaða til þess í sérstöku máli.

    Við útfærslu samstarfs á grundvelli þessarar heimildar skal þess gætt að ekki komi til samræmingar á verði eða þjónustu umfram það sem óhjákvæmilegt er til þess að verja hagsmuni ferðamanna. Þannig verði þess m.a. gætt að samstarf keppinauta leiði ekki til þess að hægja á uppbyggingu ferðaþjónustu þegar um hægist, vegna skertrar samkeppni sem af samstarfinu gæti annars hlotist.