Ákvarðanir
Sennileg misnotkun Pennans ehf. á markaðsráðandi stöðu
- Sækja skjal
- Málsnúmer: 01/2020
- Dagsetning: 16/7/2020
-
Fyrirtæki:
- Penninn ehf.
- Ugla útgáfa ehf
-
Atvinnuvegir:
- Neysluvörur, rekstrarvörur o.fl.
- Bókaútgáfa og sala
-
Málefni:
- Markaðsyfirráð
-
Reifun
Samkeppniseftirlitið hefur í dag tekið ákvörðun til bráðabirgða í tilefni af þeirri ráðstöfun Pennans ehf. (Penninn) að taka úr sölu bækur Uglu útgáfu ehf. (Ugla) í verslunum sínum. Telur eftirlitið sennilegt að með því að senda til baka m.a. söluhæstu bækur Uglu í maí sl. og í framhaldi synja um viðskipti við útgáfuna hafi Penninn misnotað markaðsráðandi stöðu sína á smásölumarkaði fyrir bækur.
Í bráðabirgðaákvörðuninni er þeim fyrirmælum beint til Pennans að taka bækur Uglu aftur til sölu í verslunum sínum og hafa þær aðgengilegar í sölukerfum og á vefsíðu. Þá er mælt fyrir um að hvers konar ákvarðanir Pennans um að synja bókaútgefendum um viðskipti skuli byggja á málefnalegum forsendum sem skráðar séu í verklagsreglum og aðgengilegar viðkomandi bókaútgefendum og Samkeppniseftirlitinu.
Penninn hefur lengi verið langstærsti aðili í bóksölu hér á landi. Á það sérstaklega við á þeim árstíma sem er utan við hina árstíðabundnu jólabókasölu í nóvember og desember þegar bækur eru einnig boðnar í stórmörkuðum. Hefur það grundvallarþýðingu fyrir bókaútgefendur að bækur þeirra séu seldar í verslunum Pennans allt árið um kring.
Samkeppniseftirlitið telur að umrædd sölusynjun hafi ekki stuðst við málefnalegar forsendur, en m.a. var að ræða nýjar og nýlegar bækur Uglu sem seldust vel í verslunum Pennans. Telur Samkeppniseftirlitið nægilega í ljós leitt að útgáfa Uglu á bókum í hljóðbókarformi hafi verið veigamikil ástæða þeirrar ákvörðunar Pennans að hætta að selja bækur Uglu.
Að mati Samkeppniseftirlitsins getur þessi háttsemi Pennans m.a. fælt íslensk bókaforlög frá því að leita nýjunga við sölu á bókum sínum. Sölusynjun af þessu tagi getur því haft alvarlegar afleiðingar fyrir bókaútgefendur, rithöfunda og neytendur, jafnvel þótt bækur Uglu séu teknar aftur til sölu að hluta eða öllu leyti. Mikilvægt er því að bregðast við umræddri synjun strax, enda er undirbúningur að útgáfu bóka fyrir næstu jól framundan.
Bráðabirgðaákvörðunin gildir til 31. desember 2020. Hún er aðgengileg í meðfylgjandi skjali.
Með bréfi dags. 22. desember 2020, taldi Samkeppniseftirlitið nauðsynlegt að framlengja gildistíma bráðabirgðaákvörðunarinnar til 1. maí 2021. Hér er bréfið
Um bráðabirgðaákvarðanir:
Samkvæmt 3. mgr. 16. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 er Samkeppniseftirlitinu heimilt að taka ákvarðanir til bráðabirgða um einstök mál ef sennilegt þykir að sú háttsemi eða þær aðstæður sem til athugunar eru fari gegn ákvæðum samkeppnislaga eða ákvörðunum teknum á grundvelli þeirra. Skilyrði er að málið þoli ekki bið. Í slíkum ákvörðunum er því ekki lagt endanlegt mat á hvort um ólögmætar aðgerðir sé að ræða.