Ákvarðanir
Bættar samkeppnisaðstæður við sölu á flugvéla- og þotueldsneyti á flugvöllum innanlands
- Sækja skjal
- Málsnúmer: 39/2020
- Dagsetning: 18/12/2020
-
Fyrirtæki:
- Skeljungur hf.
- Festi hf.
-
Atvinnuvegir:
- Neysluvörur, rekstrarvörur o.fl.
- Olíuvörur og gas
-
Málefni:
- Annað
-
Reifun
Með ákvörðun þessari er gerð grein fyrir sátt sem Skeljungur hf. (hér eftir „Skeljungur“) hefur gert við Samkeppniseftirlitið til að auka og jafna aðgengi keppinauta að mikilvægri aðstöðu Skeljungs til birgðahalds og afgreiðslu eldsneytis á flugvöllum. Með sáttinni er stjórnsýslumáli vegna kvörtunar N1 í garð Skeljungs vegna aðgangs að aðstöðu á flugvöllum lokið, sem og hlut Skeljungs í þeim samkeppnishömlum við birgðahald sem markaðsrannsókn á eldsneytismarkaði leiddi í ljós . Með sáttinni hefur Skeljungur skuldbundið sig til þess að tryggja með nánar tilgreindum aðgerðum að aðgengi annarra seljenda eldsneytis að aðstöðu félagsins á flugvöllunum verði greiðara, m.a. með jöfnum og hlutlægum aðgangi slíkra aðila að birgðarými í eigu félagsins og allri tengdri þjónustu. Með því er skapaður tryggari jarðvegur fyrir virka samkeppni í eldsneytissölu fyrir flugvélar.
Skilyrði þessi taka mið af þeim skilyrðum sem nú gilda í starfsemi Olíudreifingar Íslands (ODR), en þau skilyrði voru sett í tengslum við samruna annars vegar Haga og Olíuverzlunar Íslands og hins vegar N1 og Festi, sbr. ákvarðanir nr. 8 og 9/2019. Skilyrðin taka ennfremur mið af frummati Samkeppniseftirlitsins vegna markaðsrannsóknar á eldsneytismarkaði, sbr. skýrslu eftirlitsins nr. 2/2015.
Tildrög máls þessa má rekja til kvörtunar N1 hf. (nú Festi hf.) frá 7. október 2015 sem snéri að meintri synjun Skeljungs á aðgangi að birgðaaðstöðu félagsins á flugvöllum innanlands sem og kröfu um að Samkeppniseftirlitið tæki bráðabirgðaákvörðun sem kvæði á um aðgang að aðstöðu félagsins á grundvelli 3. mgr. 16. gr. samkeppnislaga. Með bréfum til N1 og Skeljungs, dags. 27. október 2015, upplýsti Samkeppniseftirlitið að það teldi tilefni til að skoða nánar hvort taka skyldi til rannsóknar meinta háttsemi Skeljungs á umræddum flugvöllum, sbr. 9. gr. reglna um málsmeðferð eftirlitsins. Ekki væri þó brýnt að taka ákvörðun til bráðabirgða á grundvelli 3. mgr. 16. gr. samkeppnislaga. Þá var frummatsskýrsla Samkeppniseftirlitsins í markaðsrannsókn á eldsneytismarkaðnum birt í nóvember 2015 og í framhaldinu tekin til umfjöllunar og leitað sjónarmiða, en frummat eftirlitsins varðaði ekki síst aðgengi að birgðaaðstöðu. Með hliðsjón af þessu var rannsókn á grundvelli kvörtunar N1 vegna Skeljungs lögð til hliðar að sinni og tafðist í framhaldinu vegna rannsókna eftirlitsins á samrunum á eldsneytis- og dagvörumörkuðum, þar sem aðgengi að birgðahaldi eldsneytis var einnig til umfjöllunar.