Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Samruni Rapyd og Valitors

  • Sækja skjal
  • Málsnúmer: 13/2022
  • Dagsetning: 23/5/2022
  • Fyrirtæki:
    • Valitor hf.
    • Rapyd
  • Atvinnuvegir:
    • Fjármálaþjónusta
    • Greiðslukortastarfsemi
  • Málefni:
    • Samrunamál
  • Reifun

    Samkeppniseftirlitið hefur lokið rannsókn sinni á kaupum Rapyd Financial Network (2016) Ltd. („Rapyd“) á öllu hlutafé í Valitor hf. („Valitor“). Dótturfélag Rapyd er Rapyd Europe hf., sem áður hét Korta hf., en félagið stundar greiðsluþjónustustarfsemi m.a. hér á landi, líkt og Valitor. Með viðskiptunum hyggst Rapyd sameina rekstur Valitors og Rapyd Europe hf.

    Samruninn hefur fyrst og fremst áhrif á mörkuðum fyrir færsluhirðingu hjá íslenskum söluaðilum, þ.e. vegna viðskipta á sölustað á Íslandi (óháð uppgjörsmynt) og vegna netviðskipta með uppgjöri í íslenskum krónum.

    Sáttaviðræður um mótaðgerðir til að eyða skaðlegum áhrifum samrunans hafa leitt til þess að Rapyd gerði sátt við Samkeppniseftirlitið um tilteknar aðgerðir. Í aðgerðunum felst m.a. að Rapyd skuldbindur sig til þess að selja frá sér fjölbreytt safn færsluhirðingarsamninga til hæfs kaupanda sem samsvarar hærri markaðshlutdeild á meginmarkaði málsins en markaðshlutdeild Rapyd Europe hf. Í sáttinni við Rapyd er að finna ítarleg skilyrði sem tryggja eiga að það safn samninga sem selt er sé fjölbreytt, m.a. hvað stærðar- og atvinnugreinadreifingu söluaðila varðar. Um leið er skilyrðunum ætlað að koma í veg fyrir óhagræði fyrir viðskiptavini í færsluhirðingu (söluaðila), en eðli máls samkvæmt verður ekki gengið á rétt þeirra til að velja sér þjónustuaðila í færsluhirðingu, að teknu tilliti til gildandi samninga.

    Kaupandi samninganna er Kvika banki hf. („Kvika“) sem haslar sér með kaupunum völl á færsluhirðingarmarkaði. Í tengslum við tímabundna þjónustu sem sameinað félag veitir Kviku, einkum á sviði tæknilegrar framkvæmdar og uppgjörs gagnvart alþjóðlegu kortafélögunum, hefur Rapyd skuldbundið sig til að koma á tilteknum aðskilnaði og verkefnaaðgreiningu innan sameinaðs félags í því skyni að vinna gegn því að það geti nýtt sér viðkvæmar viðskiptaupplýsingar um starfsemi Kviku sér til framdráttar. Þá er Rapyd m.a. óheimilt að kaupa aftur hina seldu samninga í 10 ár og óheimilt að keppa um viðskipti við söluaðila í hinum seldu samningum í tiltekinn tíma eftir að tímabundnum þjónustukaupum Kviku af þeim lýkur.

    Til þess að tryggja að úrlausn málsins skili tilætluðum árangri hefur Kvika einnig gert sátt við Samkeppniseftirlitið þar sem félagið skuldbindur sig m.a. til þess að færa áðurnefnd tímabundin þjónustukaup sín fyrir tiltekin tímamörk frá samrunaaðilum til annars þjónustuveitanda sem ekki er umsvifamikill færsluhirðir á íslenska markaðnum. Er þetta mikilvægur liður í því að tryggja varanlegt samkeppnislegt sjálfstæði Kviku frá sameinuðu félagi.