Ákvarðanir
Samruni SalMar ASA og NTS ASA
- Sækja skjal
- Málsnúmer: 29/2022
- Dagsetning: 20/12/2022
-
Fyrirtæki:
- SalMar ASA
- NTS ASA
- NRS ASA
- Arnarlax ehf.
- Arctic Fish ASA
-
Atvinnuvegir:
- Neysluvörur, rekstrarvörur o.fl.
- Sjávarútvegur og fiskvinnsla
-
Málefni:
- Samrunamál
-
Reifun
Með ákvörðun þessari er tekin afstaða til yfirtöku SalMar á NTS, en með slíkum samruna hefðu Arnarlax og Arctic Fish, sem stunda sjókvíaeldi á íslenskum laxi á Vestfjörðum, farið undir sömu yfirráð. Niðurstaða rannsóknarinnar er að ekki séu forsendur til íhlutunar í málinu.
Samrunaaðilar og dótturfyrirtæki þeirra starfa við fiskeldi, að mestu í Noregi en einnig á Íslandi,. Samanlagt ráða fyrirtækin yfir um tæpum helming af framleiðslugetu miðað við útgefin leyfi fyrir sjókvíaeldi á Íslandi.
Samruninn var tilkynntur til Samkeppniseftirlitsins með fullnægjandi hætti þann 22. júlí 2022 . Stuttu síðar var samruninn tilkynntur til framkvæmdarstjórnar ESB, en áður höfðu lengri forviðræður átt sér stað á þeim vettvangi, eftir því sem Samkeppniseftirlitið kemst næst.
Það var niðurstaða bæði rannsóknar framkvæmdastjórnarinnar og rannsóknar Samkeppniseftirlitsins að íslenskur eldislax tilheyri sérstökum vörumarkaði. Hefði samruninn að óbreyttu leitt til umtalsverðrar röskunar á samkeppni með því að sameinað fyrirtæki yrði langstærsti framleiðandi að íslenskum laxi inn á EES-svæðið. Hefði slíkur samruni getað leitt til hærra verðs og minni valmöguleika fyrir viðskipti með íslenskan lax.
Til að bregðast við þeirri samkeppnisröskun bauðst SalMar í viðræðum sínum við framkvæmdarstjórnina til þess að undirgangast skilyrði, m.a. um að selja frá sér starfsemi NTS hér á landi, nánar tiltekið Arctic Fish. Eftir markaðsprófun á slíkri tillögu að skilyrðum og sölu starfseiningar var komist að þeirri niðurstöðu að þau kæmu í veg fyrir röskun á samkeppni vegna samrunans. Framkvæmdarstjórn ESB tók ákvörðun þess efnis í máli nr. M.10699 – SALMAR / NTS.
Samkeppniseftirlitið taldi að skilyrðin kæmu að fullu í veg fyrir þá samkeppnislegu röskun sem af samrunanum hefði annars hlotist hérlendis. Taldi Samkeppniseftirlitið því ekki þörf á íhlutun og þurfti ekki að aðhafast vegna samrunans í kjölfar rannsóknarinnar.