Ákvarðanir
Brot Arion banka gegn banni við uppgreiðslugjöldum á lánum til lítilla fyrirtækja sem bera breytilega vexti
- Sækja skjal
- Málsnúmer: 4/2023
- Dagsetning: 4/4/2023
-
Fyrirtæki:
- Arion banki hf.
-
Atvinnuvegir:
- Fjármálaþjónusta
-
Málefni:
Engin málefni finnast
-
Reifun
Rannsókn sem beindist að framfylgni Arion banka við ákvæði 2. gr. sáttar sem bankinn gerði við Samkeppniseftirlitið árið 2017 hefur lokið með því að Arion banki viðurkennir að hafa brotið gegn banni við uppgreiðslugjöldum á lánum til lítilla fyrirtækja sem bera breytilega vexti í tilteknum afmörkuðum tilvikum. Þá fellst bankinn á að greiða sektir vegna málsins og hefur bankinn gripið til viðeigandi aðgerða til þess að lágmarka áhrif háttseminnar og tryggja traustari framfylgni við ákvæðið framvegis. Jafnframt fellst bankinn á að betur hefði mátt standa að framkvæmd bankans skv. ákvæði 2. gr. sáttarinnar með tilliti til upplýsingagjafar til viðskiptavina sem áttu hagsmuna að gæta í því sambandi.
Ákvæðið sem bankinn braut gegn kemur fram í sátt sem liggur til grundvallar ákvörðun nr. 24/2017, Aðgerðir til að efla samkeppni í almennri viðskiptabankaþjónustu við einstaklinga og lítil fyrirtæki. Með ákvæði 2. gr. sáttarinnar var lagt bann við uppgreiðslugjöldum á lánum til einstaklinga og lítilla fyrirtækja sem bera breytilega vexti.
Landsbankinn og Íslandsbanki gerðu sambærilegar sáttir og Arion banki um aðgerðir til að efla samkeppni í almennri viðskiptabankaþjónustu við einstaklinga og lítil fyrirtæki árið 2017. Rannsókn sú sem nú hefur leitt til framangreindrar sektar tók einvörðungu til Arion banka og beindist eingöngu að framfylgni bankans við 2. gr. sáttarinnar sem felur í sér bann við uppgreiðslugjöldum á lánum einstaklinga og lítilla fyrirtækja sem bera breytilega vexti.