Ákvarðanir
Sennilegt brot Símans hf. gegn samkeppnislögum - ákvörðun til bráðabirgða
- Sækja skjal
- Málsnúmer: 30/2023
- Dagsetning: 28/7/2023
-
Fyrirtæki:
- Síminn hf.
-
Atvinnuvegir:
- Fjarskipti, upplýsingatækni og fjölmiðlun
-
Málefni:
Engin málefni finnast
-
Reifun
Samkeppniseftirlitið hefur í dag tekið ákvörðun 30/2023 til bráðabirgða vegna sennilegs brots Símans á samkeppnislögum með því að synja Nova um heildsölu og dreifingu á Símanum Sport sem inniheldur útsendinginar á ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eða enska boltanum.
Frá því Síminn fékk rétt til sýninga á ensku úrvalsdeildinni árið 2019 hefur Síminn boðið efnið (Símann Sport) í gegnum Heimilispakkann og Sjónvarp Símans Premium. Síminn hefur einnig boðið þjónustuna í stakri áskrift og það hafa Sýn og Nova einnig gert með því að kaupa efnið í heildsölu og bjóða það sínum viðskiptavinum.
Nú bregður svo við að Síminn hefur neitað að gera nýjan dreifingarsamning við Nova um útsendingar á Símanum Sport sem þýðir að viðskiptavinir Nova hafa ekki möguleika á að kaupa áskrift að enska boltanum.
Samkeppniseftirlitið telur að í háttsemi Símans felist sölusynjun fyrirtækis sem býr yfir mikilvægri og vinsælli vöru til endursölu og að það myndi fela í sér skaðleg áhrif fyrir samkeppni á fjarskipta- og sjónvarpsmörkuðum hér á landi ef Nova gæti ekki lengur boðið sínum viðskiptavinum upp á Enska boltann. Þá telur eftirlitið að háttsemi Símans feli í sér mismunun gagnvart keppinautum þar sem Sýn fær áfram að bjóða sínum viðskiptavinum Enska boltann en ekki Nova.
Samkeppniseftirlitið telur að Síminn sé markaðsráðandi á markaði fyrir heildsöludreifingu á Enska boltanum og að þessi háttsemi Símans fari gegn ákvæði samkeppnislaga sem bannar misnotkun á markaðsráðandi stöðu.
Samkeppniseftirlitið telur að umrædd háttsemi grundvallist hvorki á málefnalegum né hlutlægum forsendum. Háttsemi Símans er til þess fallin að skaða samkeppni og keppinautum sem hafa verið þrír (Síminn, Sýn og Nova) fækkar í tvo.
Í bráðabirgðaákvörðuninni er þeim fyrirmælum beint til Símans að láta af háttsemi sinni gagnvart Nova og gera þegar samning við fyrirtækið um heildsölu og dreifingu á Símanum Sport með Enska boltanum. Þá telur eftirlitið að skilyrði til töku ákvörðunar til bráðabirgða séu uppfyllt. Er því sérstaklega mikilvægt að samkeppnisyfirvöld grípi inn í og stöðvi háttsemina án tafar.