Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Kaup Búseta húsnæðissamvinnufélags á íbúðum í eigu Heimstaden ehf

  • Sækja skjal
  • Málsnúmer: 40/2023
  • Dagsetning: 27/10/2023
  • Fyrirtæki:
    • Búseti húsnæðissamvinnufélag
    • Heimstaden ehf.
  • Atvinnuvegir:
    • Neysluvörur, rekstrarvörur o.fl.
  • Málefni:
    • Samrunamál
  • Reifun

    Samkeppniseftirlitið hefur haft til umfjöllunar kaup Búseta á íbúðum í eigu Heimstaden.

    Búseti er húsnæðissamvinnufélag og keypti með kaupsamningum dags. 27. júlí og 31. ágúst 2023 fasteignir af Heimstaden.

    Í samrunaskrá kemur fram að það sé mat tilkynnanda að Búseti og Heimstaden starfi á sama þjónustumarkaði, er lítur að starfsemi dótturfélags Búseta, Leigufélags Búseta. Því sé markaður málsins markaður fyrir leigu á almennum íbúðum. Varðandi landfræðilegan markað málsins telji Búseti ekki þörf á því að skilgreina markaðinn þrengra en a.m.k höfuðborgarsvæðið.

     Samkeppniseftirlitið fellst á að um sé að ræða viðskipti sem feli í sér yfirráðabreytingar og tilkynningarskyldan samruna í skilningi 17. gr. og 17. gr. a samkeppnislaga nr. 44/2005. Samkeppniseftirlitið gerir ekki athugasemdir við markaðsskilgreiningu samrunaaðila í samrunaskrá. Að mati Samkeppniseftirlitsins er ekkert í fyrirliggjandi gögnum sem bendir til þess að staða Leigufélags Búseta hafi breyst umtalsvert.

     Það er því niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að ekkert í fyrirliggjandi gögnum málsins bendi til þess að markaðsráðandi staða skapist eða styrkist á viðkomandi markaði, eða kaupin muni raska samkeppni að öðru leyti með umtalsverðum hætti þannig að íhlutunar sé þörf vegna viðskiptanna. Af þeim sökum telur Samkeppniseftirlitið ekki ástæðu til að hafast frekar að vegna samrunans og lýkur því rannsókn málsins á fyrsta fasa.