Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Samruni Sýnar hf. og Já hf.

  • Sækja skjal
  • Málsnúmer: 42/2023
  • Dagsetning: 27/11/2023
  • Fyrirtæki:
    • Já hf.
    • Sýn hf.
    • Eignarhaldsfélagið Njála ehf.
  • Atvinnuvegir:
    • Fjarskipti, upplýsingatækni og fjölmiðlun
    • Önnur tengd fjarskiptaþjónusta
  • Málefni:
    • Samrunamál
  • Reifun

    Samkeppniseftirlitið hefur tekið afstöðu til kaupa Sýnar hf. („Sýn“) á öllu hlutafé í Eignarhaldsfélaginu Njálu ehf. („Njála“), en dótturfélag þess er Já hf. („Já“). Samruninn var tilkynntur með fullnægjandi hætti þann 28. apríl 2023 og hófust lögbundnir frestir þá að líða. Rannsókninni lauk með sátt við samrunaaðila þann 4. október 2023. 

    Við rannsókn málsins var aflað ítarlegra umsagna frá eftirlitsaðilum og hagaðilum, bæði varðandi almenn áhrif samrunans á samkeppni en einnig varðandi tillögur samrunaaðila að skilyrðum til að draga úr eða eyða skaðlegum áhrifum.

    Samrunaaðilar eru að meginstefnu til fjarskiptafyrirtæki, fjölmiðlaveita og upplýsingaþjónustufyrirtæki. Sýn er þannig öflugt fjarskiptafyrirtæki og fjölmiðlaveita með umtalsverða markaðshlutdeild á viðkomandi mörkuðum. Já er upplýsingaþjónustufyrirtæki sem byggir starfsemi sína að miklu leyti til á gagnagrunni um símanúmer sem á árum áður var eini gagnagrunnurinn af slíkum toga.

    Þeir markaðir sem samruninn mun einkum hafa áhrif á eru markaður fyrir rekstur og heildsöluaðgang að gagnagrunni um símanúmer hér á landi og smásölumarkaðir fyrir þjónustu sem byggir á aðgangi að umræddum gagnagrunni. Í ljósi niðurstöðu þessa máls taldi Samkeppniseftirlitið þó ekki nauðsynlegt að taka afstöðu til endanlegra skilgreininga á mörkuðum málsins.

    Rannsókn Samkeppniseftirlitsins gaf til kynna að staða Já á markaði fyrir aðgengi að gagnagrunni um símanúmer og smásölumarkaði sem byggja á gagnagrunninum, t.d. upplýsingaþjónustu í síma og upplýsingaþjónustu á Internetinu, væri sterk og gæti styrkst með samruna við Sýn. Einnig gaf rannsóknin til kynna að sú staða að Sýn verði eigandi Já, sem er mikilvægur viðskipta- og þjónustuaðili fyrir bæði Já og fyrir helsta keppinaut þess á upplýsingaþjónustumarkaði, gæti haft skaðleg samkeppnisleg áhrif. Jafnframt gaf rannsóknin til kynna að fyrir hendi væru aðstæður fyrir mögulega hagsmunaárekstra, m.a. þar sem viðkvæmum viðskiptaupplýsingum um viðskiptavini annarra fjarskiptafyrirtækja gæti mögulega verið miðlað til Sýnar. Að öllu þessu virtu, og með hliðsjón af samkeppnisbrestum sem til staðar eru á markaðnum, sbr. fyrri úrlausnir Samkeppniseftirlitsins og Fjarskiptastofu, væri hætta á að samkeppni myndi skaðast við samrunann. 

    Í því skyni að koma í veg fyrir skaðleg áhrif samrunans var gerð sátt í málinu sem miðar að því að draga úr og/eða koma veg fyrir framangreind atriði sem rannsóknin gaf til kynna. Þannig er heildsölu Sýnar m.a. skylt að gæta jafnræðis og hlutlægni gagnvart öðrum upplýsingaþjónustufyrirtækjum og óheimilt að greina Já frá trúnaðarupplýsingum um keppinauta eða mögulega keppinauta. Þá er sett bann við að miðla viðkvæmum viðskiptaupplýsingum frá Já til Sýnar og takmörkun á rekjanleika. Einnig samþykkti Sýn að veita öðrum upplýsingaþjónustum, að uppfylltum tilteknum skilyrðum, einhliða einskiptisaðgang að grunnupplýsingum til að jafna aðstöðumun fyrir mikilvæg aðföng við veitingu upplýsingaþjónustu.