Ákvarðanir
Samruni Íslandsbanka hf. og Icelandair Group hf.
- Sækja skjal
- Málsnúmer: 33/2009
- Dagsetning: 5/10/2009
-
Fyrirtæki:
- Icelandair Group hf.
- Íslandsbanki hf.
-
Atvinnuvegir:
- Samgöngur og ferðamál
- Flugþjónusta
-
Málefni:
- Samrunamál
-
Reifun
Samrunatilkynning vegna yfirtöku Íslandsbanka á 42% hlut í Icelandair Group hf. barst Samkeppniseftirlitinu þann 18. maí sl. Þrátt fyrir að samrunaaðilar séu ekki keppinautar í meginstarfsemi sinni taldi Samkeppniseftirlitið að framangreindur samruni gæti að óbreyttu raskað samkeppni með umtalsverðum hætti og farið því gegn 17. gr. c samkeppnislaga.
Mætti það helst leiða af því að við samrunann öðlast Íslandsbanki yfirráð yfir Icelandair Group (IG) og af þeirri ástæðu gæti bankinn að óbreyttu haft áhrif á það við hvaða fyrirtæki IG og dótturfélög þess eiga viðskipti. Skiptir hér máli að dótturfélög IG eru sum hver mjög öflug á sínu sviði og mikilvægir viðskiptavinir ýmissa birgja. Má t.d. nefna að Icelandair er stór kaupandi að flugvélaeldsneyti. Fyrir liggur að Íslandsbanki á umtalsverðan eignarhlut í Skeljungi. Af þessum ástæðum skapast ákveðin hætta á því að Íslandsbanki geti haft veruleg áhrif á samkeppni á mörkuðum sem tengjast starfsemi IG. Sökum þessara hagsmunatengsla getur t.d. verið hætta á því að keppinautar í sölu á flugvélaeldsneyti útilokist frá samkeppni á mikilvægum hluta markaðarins. Jafnframt geta þessi tengsl haft óheppileg áhrif á möguleg viðskipti Skeljungs og fyrirtækja IG sem t.d. getur raskað stöðu keppinauta dótturfélaga IG. Einnig getur það haft skaðleg áhrif á samkeppni ef IG fengi í hendur frá Íslandsbanka viðkvæmar upplýsingar um keppinauta eða viðskiptavini félagsins. Hið sama á við ef keppinautar eða viðskiptavinir fá frá bankanum viðkvæmar upplýsingar um IG.
Með ákvörðun sinni nr. 33/2009 hefur Samkeppniseftirlitið samþykkt framangreindan samruna með skilyrðum sem koma eiga í veg fyrir þau samkeppnislegu vandkvæði sem af samrunanum kunna að hljótast.