Ákvarðanir
Misnotkun Véla og verkfæra á markaðsráðandi stöðu
- Sækja skjal
- Málsnúmer: 14/2009
- Dagsetning: 8/4/2009
-
Fyrirtæki:
- Vélar og verkfæri
-
Atvinnuvegir:
- Neysluvörur, rekstrarvörur o.fl.
- Vélar og tæki
-
Málefni:
- Markaðsyfirráð
-
Reifun
Með ákvörðun sinni komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið Vélar og verkfæri hafi misnotað markaðsráðandi stöðu við sölu á efni til að framleiða höfuðlyklakerfi og þar með brotið gegn ákvæði 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Misnotkun Véla og verkfæra fólst í einkakaupaákvæðum sem gerð voru við þjónustuaðila höfuðlyklakerfa sem keyptu efni til að framleiða höfuðlyklakerfi frá Vélum og verkfærum. Þannig kom fyrirtækið í veg fyrir að þjónustuaðilar höfuðlyklakerfa flyttu inn og seldu höfuðlyklakerfi frá öðrum framleiðendum en ASSA í Svíþjóð og vann ennfremur gegn því að aðrir erlendir framleiðendur næðu fótfestu á íslenskum markaði.
Í ákvörðuninni er komist að þeirri niðurstöðu að markaður fyrir sölu á efnum til að framleiða höfuðlyklakerfi sé sérstakur markaður og nátengur markaði fyrir sölu á höfuðlyklakerfum beint til notenda. Vélar og verkfæri eru í einokunarstöðu á markaði málsins og skópu með einkakaupaákvæðum sínum verulega aðgangshindrun.
Það var niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að brot fyrirtæksins væri alvarlegt og var fyrirtækinu gert að greiða kr. 15.000.000.- í stjórnvaldssekt.