Ákvarðanir
Misnotkun Hf. Eimskipafélags Íslands á markaðsráðandi stöðu sinni
- Sækja skjal
- Málsnúmer: 70/2007
- Dagsetning: 19/12/2007
-
Fyrirtæki:
- Hf. Eimskipafélag Íslands
- Samskip hf.
-
Atvinnuvegir:
- Samgöngur og ferðamál
- Sjóflutningur
-
Málefni:
- Markaðsyfirráð
-
Reifun
Samkeppniseftirlitið hefur komist að þeirri niðurstöðu í nýrri ákvörðun sinni að Eimskip (Hf. Eimskipafélag Íslands) hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína á sjóflutningamarkaði og brotið þannig gegn bannákvæðum samkeppnislaga. Þetta gerði Eimskip annars vegar með aðgerðum sem miðuðu markvisst að því að koma Samskipum út af markaðnum og hins vegar með því að gera fjölmarga sk. einkakaupasamninga við viðskiptavini sína. Með einkakaupum í þessu samhengi er átt við samninga þar sem Eimskip skuldbatt viðskiptavini sína til þess að kaupa flutningaþjónustu einungis af félaginu. Einkakaupasamningar eru ólögmætir þegar markaðsráðandi fyrirtæki á í hlut. Í sumum samninganna var einnig að finna samkeppnishamlandi tryggðarafslætti. Telur Samkeppniseftirlitið að brot Eimskip á 11. gr. samkeppnislaga hafi verið alvarleg og til þess fallin að valda atvinnulífinu og almenningi miklu samkeppnislegu tjóni.
Mál þetta hófst vegna kæru frá Samskipum og var vegna hennar framkvæmd húsleit hjá Eimskipi, sbr. nánar um málsmeðferð hér á eftir.
Í 11. gr. samkeppnislaga er lagt bann við hverskonar misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Til þess að þetta ákvæði eigi við verður að skilgreina samkeppnismarkað í viðkomandi máli og meta stöðu fyrirtækja á honum. Þar sem Eimskip hélt því fram að fyrirtækið væri ekki markaðsráðandi þurfti í málinu að taka þetta atriði til ítarlegrar skoðunar. Samkeppniseftirlitið kemst að þeirri niðurstöðu að markaður þessa máls séu farmflutningar í reglubundnum áætlunarsiglingum milli Íslands og hafna í Evrópu annars vegar og Norður-Ameríku hins vegar. Til áætlunarsiglinga samkvæmt framansögðu telst einnig þjónusta, sem er órjúfanlegur þáttur slíkrar flutningaþjónustu, s.s. vöruafgreiðsla ásamt útskipun og uppskipun. Í málinu var skoðuð markaðshlutdeild Eimskips, Samskipa og Atlantsskipa á þessum markaði á fjögurra ára tímabili. Reyndist Eimskip hafa yfirburði í markaðshlutdeild (70-80% hlutdeild). Í ljósi þessarrar hlutdeildar og með vísan til yfirburða félagsins í flutningaframboði og mikils fjárhagslegs styrkleika er það mat Samkeppniseftirlitsins að Eimskip hafi verið í markaðsráðandi stöðu.
1. Brot Eimskips
Brot Eimskips á samkeppnislögum felast í meginatriðum í eftirfarandi aðgerðun:
Markaðsatlaga
Gögn málsins sýna að haustið 2001 hafi Eimskip beitt sér fyrir verðhækkunum á flutningaþjónustu sinni gagnvart viðskiptavinum sínum og að Samskip hafi nýtt sér þetta til þess að afla sér nýrra viðskiptavina. Olli það óánægju hjá Eimskipi að Samskip nýttu ekki þetta tækifæri til verðhækkunar. Gögn málsins sýna einnig að um áramótin 2001/2002 hafi Eimskip gripið aftur til aðgerða í því skyni að ná fram verðhækkun á flutningaþjónustu fyrirtækisins. Kemur fram í innanhússgögnum Eimskips að þær aðgerðir hafi að hluta til gengið ágætlega. Hins vegar nýttu Samskip sér enn á ný gremju viðskiptavina Eimskips með verðhækkanirnar og buðu þeim betri kjör með þeim afleiðingum að Eimskip missti viðskiptavini yfir til Samskipa. Olli þetta aftur óánægju hjá Eimskipi og var „árás“ eins og það var kallað hjá Eimskipi ákveðin gegn Samskipum
Í kjölfar þessa greip Eimskip til umfangsmikilla aðgerða sem miðuðu að því að ná sem mestu af viðskiptum Samskipa yfir til Eimskips. Aðgerðirnar voru nefndar „markaðsatlaga“ og voru þær skipulagðar af æðstu stjórnendum Eimskips. Ljóst er að umfangsmikil vinna hefur verið sett af stað í að kortleggja markaðinn, s.s. að búa til lista (skrár) með öllum viðskiptavinum Samskipa og skipuleggja sókn. Gögnin sýna jafnframt að ákveðið var að „máttur“ Eimskips yrði nýttur í þessu skyni til þess að tryggja ráðandi stöðu félagsins á markaðnum. Markmið Eimskips með aðgerðunum var að koma í veg fyrir samkeppni eða takmarka hana verulega og gera fyrirtækinu kleift að hækka verð í kjölfar aðgerðanna. Þetta er sérstaklega skýrt þegar haft er í huga umfang aðgerðanna.
Aðgerðirnar fólust aðallega í því að Eimskip sneri sér kerfisbundið til fjölmargra viðskiptavina Samskipa og reyndi með sértækum afslætti eða kjörum að ná þeim af Samskipum. Þessi tilboð fólu í sér undirboð, þ.e. verðið var lægra en það verð sem fram kom í samningi viðkomandi fyrirtækis við Samskip. Einnig var verðið mun lægra en það verð sem fram kom í gjaldskrá Eimskips. Átti að fara með tilboðin til viðskiptavina Samskipa sem trúnaðarmál til þess að upplýsingar um hið lækkaða verð bærust ekki til fyrirtækja sem þegar voru í viðskiptum við Eimskip. Í minnisblaði sem fannst við húsleit hjá Eimskipi kom fram að viðskiptavinir félagsins sem væru sambærilegir þeim viðskiptavinum Samskipa sem Eimskip hafði gert tilboð greiddu mun hærra verð fyrir flutningsþjónustu hjá Eimskipi en fólst í tilboðum Eimskips til viðskiptavina Samskipa.
Verðmæti þeirra viðskipta sem Eimskip sóttist eftir eftir frá Samskipum var a.m.k. þrír milljarðar króna á ársgrundvelli og töldu forsvarsmenn fyrirtækisins að raunhæft væri að ná til félagsins viðskiptum frá Samskipum sem næmu um 800 milljónum kr. Í byrjun maí 2002 kom fram í tölvupósti frá Eimskipi að búið væri að ná viðskiptum fyrir um 200 milljónir króna af Samskipum til Eimskips og að horfur væru á að viðskipti fyrir um 400 milljónir króna til viðbótar myndu nást fljótlega. Gögn málsins gefa til kynna að stjórnendur Eimskips töldu að markaðsatlagan hefði heppnast vel.
Framangreindar aðgerðir fela í sér ólögmætar sértækar verðlækkanir sem höfðu það að markmiði að veikja Samskip sem keppinaut. Ljóst er að hefðu áætlanir Eimskips að fullu náð fram að ganga var veruleg hætta á því að Samskip hefðu hrökklast út af markaðnum.
Einkakaup og samkeppnishamlandi afslættir
Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Eimskip hafi gert ólögmæta samninga við viðskiptavini sína sem fólu í sér einkakaup. Með einkakaupum í þessu samhengi er átt við viðskiptasamninga þar sem Eimskip skuldbatt viðskiptavini sína til þess að kaupa flutningaþjónustu einungis af félaginu. Í slíkum samningum við stóra viðskiptavini beitti Eimskip einnig samkeppnishamlandi afslætti til að tryggja enn frekar að viðskiptavinir myndu ekki eiga viðskipti við keppinauta Eimskips. Beitti félagið m.a. afturvirkum afslætti sem ætlað var að tryggja viðskipti við Eimskip og hindra að viðskiptavinir félagsins færu í viðskipti við keppinauta þess. Kom fyrir að Eimskip gerði athugasemdir við viðskiptavini sína sem að mati félagsins brutu samninga með því að snúa sér til keppinauta Eimskips.
Samningar af þessum toga eru til þess fallnir að hindra að keppinautar markaðsráðandi fyrirtækis nái að vaxa og dafna. Slíkir samningar styrkja því eða viðhalda markaðsráðandi stöðu og raska þar með samkeppni. Er í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins gerð grein fyrir fjölmörgum samningum Eimskips sem Samkeppniseftirlitið telur að hafi farið að þessu leyti gegn 11. gr. samkeppnislaga.
2. Viðurlög
Með vísan til m.a. ásetnings Eimskips til að raska samkeppni, þess að brot félagsins voru skipulögð af æðstu stjórnendum þess og umfangs og eðlis brotanna telur Samkeppniseftirlitið í ákvörðun sinni að sekt að fjárhæð 310 mkr. sé hæfileg.
3. Málsmeðferð tafsöm
Mál þetta hófst með húsleit hjá Eimskipi sem framkvæmd var 4. september 2002. Ýmis atriði hafa tafið rekstur þess.
Málarekstur fyrir dómstólum
Eimskip krafðist þess að ekki væri litið á Samskip sem aðila málsins. Samkeppnisyfirvöld höfnuðu þessu. Eimskip skaut hins vegar þessum þætti málsins fyrst til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og síðar til dómstóla. Staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu samkeppnisyfirvalda að líta bæri á Samskip sem aðila málsins. Einnig kom upp ágreiningur um aðgang Samskipa að tilteknum gögnum málsins og kærði Eimskip ákvörðun Samkeppnisstofnunar þar að lútandi til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Þessi ágreiningur tafði málsmeðferð fram til nóvember 2003.
Tafsöm gagnaöflun
Hefðbundin málsmeðferð þar sem báðir málsaðilar settu fram sjónarmið og tjáðu sig um sjónarmið hvors annars stóð fram á árið 2004. Samhliða þessari málsmeðferð var unnið úr þeim gögnum sem aflað hafði verið með húsleit hjá Eimskipi. Bæði Eimskip og Samskip hafa sett fram mjög ítarleg sjónarmið í málinu og á miðju árinu 2004 krafðist Eimskip þess að samkeppnisyfirvöld tækju saman andmælaskjal þar sem því yrði lýst í hverju ætluð brot félagsins fælust. Málið varðar umfangsmikil brot og flókin álitaefni. Ágreiningur hefur verið um alla helstu meginþætti málsins eins og um skilgreiningu markaðarins, stöðu fyrirtækja á honum, inntak banns við misnotkun á markaðsráðandi stöðu, eðli háttsemi Eimskips og þýðingu skipulagsbreytinga á því fyrirtæki. Hefur þetta kallað á mikla viðbótar gagnaöflun og skoðun á gögnum. Hefur og öflun tiltekinna gagna reynst tafsöm. Stóð þessi gagnaöflun fram á árið 2005. Síðari hluta ársins 2005 hófst ritun ítarlegs andmælaskjals sem lauk í apríl 2006 og var skjalið afhent Eimskipi 2. maí 2006. Athugasemdir Eimskips við andmælaskjalið bárust 8. september 2006.
Stórfelldar breytingar á Eimskipi
Brot þessa máls áttu sér stað í flutningastarfsemi Hf. Eimskipafélags Íslands aðallega á árunum 2001 og 2002. Hf. Eimskipafélag Íslands stofnaði einkahlutafélagið Eimskip ehf. sem tók við flutningastarfsemi móðurfélags síns í ársbyrjun 2003. Á aðalfundi Hf. Eimskipafélags Íslands 19. mars 2004 var ákveðið að breyta heiti beggja félaganna. Var heiti móðurfélagsins, Hf. Eimskipafélags Íslands, breytt í Burðarás hf. og heiti dótturfélagsins, Eimskipa ehf., breytt í Eimskipafélag Íslands ehf. Þann 24. júní 2005 urðu síðan eigendaskipti að Eimskipafélagi Íslands ehf. þegar Burðarás hf. seldi Avion Group hf. allt hlutafé sitt í félaginu. Í kjölfarið var Burðarási hf. á árinu 2005 skipt upp og félagið sameinað annars vegar Landsbanka Íslands hf. og hins vegar Straumi fjárfestingarbanka hf. sem tóku við eignum og skuldum Burðaráss hf. Þann 21. nóvember 2006 var heiti Avion Group hf. síðan breytt í Hf. Eimskipafélag Íslands og þann 26. febrúar 2007 ákvað stjórn þess félags að það yrði sameinað dótturfélagi sínu, Eimskipafélagi Íslands ehf.
Borið við aðildarskorti – nýjar málsvarnir
Í júní 2006 voru fyrst sett fram sjónarmið af hálfu Eimskips um að ábyrgð á framangreindum brotum lægi hjá Landsbanka Íslands og Straumi-Burðarási en ekki hjá því félagi sem nú ræki umrædda sjóflutningastarfsemi. Fram til þess tíma var Samkeppniseftirlitinu með öllu ókunnugt um að ágreiningur væri uppi um þennan þátt málsins. Kallaði þetta á sérstaka gagnaöflun og viðbótarrannsókn. Þurfti m.a. ítrekað að afla sjónarmiða og gagna frá Landsbanka Íslands, Straumi-Burðarási, Avion Group og Eimskipi. Barst síðasta bréf þessu tengt þann 26. mars 2007. Eins og rökstutt er í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins er ekki unnt að fallast á það sjónarmið Eimskips að beina beri sektarákvörðunum að umræddum fjármálastofnunum. Er niðurstaða eftirlitsins sú að Hf. Eimskipafélag Íslands hið yngra hafi tekið við ábyrgð á brotum Hf. Eimskipafélagi Íslands hinu eldra og er ákvörðuninni því beint að því félagi. Var m.a. horft til þess að Hf. Eimskipafélag Íslands hið yngra reki sömu sjóflutningastarfsemi og rekin var í nafni Hf. Eimskipafélags Íslands hins eldra.
Í lok apríl 2007 lagði Eimskip fram álitsgerð hagfræðings þar sem sett eru fram sjónarmið um skilgreiningu markaðarins, stöðu Eimskips á honum og um aðgerðir félagsins á árunum 2001 og 2002.
Óviðunandi tafir – úrbóta von
Með hliðsjón af framangreindu var langur málsmeðferðartími óhjákvæmilegur í ljósi umfangs málsins og þeirra atvika sem upp komu undir rekstri þess. Samkeppniseftirlitið telur almennt séð óviðunandi að mikilvæg samkeppnismál geti tafist vegna aðgerða fyrirtækja. Er það von eftirlitsins að breytingar á samkeppnislögum sem tóku gildi á þessu ári og ætlað er að efla möguleika Samkeppniseftirlitsins við upplýsingaöflun muni hafa jákvæð áhrif á málshraða.
Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins (346 bls.) er að finna á heimasíðu þess, www.samkeppni.is.