Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Álit

Fóðurtollar á fóðurblöndur

  • Sækja skjal
  • Málsnúmer: 1/2008
  • Dagsetning: 4/3/2008
  • Fyrirtæki:

    Engin fyrirtæki finnast

  • Atvinnuvegir:
    • Neysluvörur, rekstrarvörur o.fl.
  • Málefni:

    Engin málefni finnast

  • Reifun

    Í áliti sem Samkeppniseftirlitið hefur birt í dag beinir eftirlitið þeim tilmælum til landbúnaðarráðherra að hann beiti sér fyrir því að afnema tolla á fóðurblöndum.

    Mikil fákeppni ríkir á markaði fyrir framleiðslu og sölu á fóðri fyrir jórturdýr, svín og alifugla á Íslandi. Um árabil hafa einungis verið tvö fyrirtæki á Íslandi sem framleiða og selja fóður. Með innflutningi á fóðurblöndum er unnt að veita innlendum framleiðendum samkeppnislegt aðhald. Samkvæmt reglugerð er hins vegar lagður tollur á innfluttar fóðurblöndur, 3,90 kr. á hvert kg. Vinnur tollur þessi gegn innkomu nýrra keppinauta sem áhuga hefðu á að selja tilbúnar fóðurblöndur á innlendum fóðurmarkaði.

    Í áliti Samkeppniseftirlitsins er vikið að því að fóðurtollar séu til þess fallnir að vernda innlenda fóðurframleiðendur og viðhalda samkeppnishamlandi fákeppni á fóðurmarkaðnum. Fer þessi tollur því gegn markmiðum samkeppnislaga. Að mati Samkeppniseftirlitsins myndi afnám fóðurtollsins stuðla að aukinni samkeppni á fóðurmarkaði, bændum og neytendum til hagsbóta. Að sama skapi myndu framangreindar aðgerðir stuðla að lækkun framleiðslukostnaðar bænda og þar með að lægra verði á matvælum til neytenda.

    Að undanförnu hafa orðið miklar verðhækkanir á fóðri hér á landi og sökum m.a. þessa hafa verið boðaðar verðhækkanir á landbúnaðarafurðum. Í ljósi þessa er athygli landbúnaðarráðherra vakin á því í álitinu að afar mikilvægt sé að afnema umræddan verndartoll hið fyrsta og skapa þannig skilyrði fyrir aukinni samkeppni á íslenskum fóðurmarkaði.

    Aðdragandi álits Samkeppniseftirlitsins Í kjölfar skýrslu norrænna samkeppnisyfirvalda um matvörumarkaði á Norðulöndum, Nordic Food Markets – a taste for competition sem birt var í desember 2005, kynnti Samkeppniseftirlitið sínar eigin áherslur á matvörumarkaði í því skyni að auka virka samkeppni og lækka matvöruverð. Eitt af þeim atriðum sem Samkeppniseftirlitið taldi ástæðu til að gera athugasemdir við og athuga nánar var innflutningsvernd á búvörum og er þetta álit liður í þeirri athugun. Samkeppniseftirlitið hefur til athugunar aðrar innflutningshömlur á þessu sviði.