Álit
Samkeppnishömlur sem stafa af stöðu og háttsemi Ríkisútvarpsins á markaði fyrir sölu auglýsinga í ljósvakamiðlum
- Sækja skjal
- Málsnúmer: 4/2008
- Dagsetning: 14/11/2008
-
Fyrirtæki:
Engin fyrirtæki finnast
-
Atvinnuvegir:
- Fjarskipti, upplýsingatækni og fjölmiðlun
-
Málefni:
Engin málefni finnast
-
Reifun
Með lögum nr. 6/2007 um Ríkisútvarpið ohf. voru gerðar ýmsar breytingar á rekstrarfyrirkomulagi og starfsemi Ríkisútvarpsins (RÚV). Tilgangurinn með breytingunum var samkvæmt athugasemdum með frumvarpi til laganna að breyta rekstrarformi RÚV og færa rekstur þess í félagsform með takmarkaðri ábyrgð ríkisins þannig að sveigjanleiki fengist í rekstri sem á að fylgja því að breytast úr ríkisstofnun í hlutafélag.
Hlutverk og skyldur RÚV eru skilgreindar nánar í lögunum en gert var í áður gildandi lögum. Aðalstarfsemi félagsins er skilgreind sem útvarp í almannaþágu og er gerður greinarmunur á þeirri þjónustu og annarri starfsemi. Í 2. mgr. 3. gr. laganna er talið upp í 13 töluliðum hvað útvarpsþjónusta í almannaþágu feli í sér. Um er að ræða mjög víðtæka þjónustu sem nær til flestrar þeirrar starfsemi sem rekstur sjónvarps- og útvarpsstöðvar felur í sér, hvort sem það er fréttaþjónusta, framleiðsla á afþreyingarefni, rækt við íslenska arfleifð eða flutningur annars konar efnis. Meðal skyldna RÚV sem taldar eru upp í umræddu ákvæði er að flytja fjölbreytt skemmtiefni við hæfi fólks á öllum aldri.
Mælt er fyrir um fjárhagslegan aðskilnað á fjárreiðum reksturs sem fellur undir útvarp í almannaþágu, eins og það er skilgreint í 3. gr. laganna, og alls annars reksturs sem ekki fellur undir þá skilgreiningu, þar á meðal samkeppnisreksturs, sbr. 5. gr.