Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Skýrslur

Bankar og endurskipulagning fyrirtækja - stefnumörkun

  • Sækja skjal
  • Málsnúmer: 2/2009
  • Dagsetning: 8/12/2009
  • Fyrirtæki:

    Engin fyrirtæki finnast

  • Atvinnuvegir:
    • Fjármálaþjónusta
  • Málefni:

    Engin málefni finnast

  • Reifun

    Samkeppniseftirlitið birtir drög að stefnumörkun og leitar sjónarmiða

    Það er neytendum og atvinnulífinu til hagsbóta að bankar afskrifi eða minnki skuldir rekstrarhæfra fyrirtækja sem eiga í greiðsluerfiðleikum. Bankar verða hins vegar að gera skýra arðsemiskröfu til endurskipulagðra fyrirtækja og gæta að samkeppnissjónarmiðum.

    Þetta kemur m.a. fram í umræðuskjali um banka og fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja sem Samkeppniseftirlitið birtir í dag. Leitar eftirlitið umsagnar hjá hagsmunaaðilum og almenningi um þá stefnumörkun sem kynnt er í skjalinu.

    Í umræðuskjalinu er fjallað um skuldavanda íslenskra fyrirtækja og samkeppnisleg álitaefni tengd honum. Er viðfangsefni þetta afar mikilvægt og getur haft veruleg áhrif á þróun og uppbyggingu íslensks atvinnulífs.

    Samkeppniseftirlitið setur fram, í 17 tölusettum liðum, kjarnasjónarmið sem það telur að hafa eigi að leiðarljósi við endurskipulagningu atvinnufyrirtækja. Dreginn er lærdómur af reynslu annarra ríkja af áþekkum álitaefnum. Jafnframt er gefið yfirlit yfir það hvernig framangreind þátttaka bankanna á samkeppnismörkuðum horfir við samkeppnislögunum, hvernig ríkisstyrkjareglur tengjast viðfangsefninu og hvernig brugðist hefur verið við málum að þessu tagi hingað til.

    Umræðuskjalinu er m.a. ætlað að draga fram hversu mikilvægt það er að hagsmunir neytenda og samfélagsins af virkri samkeppni séu hafðir að leiðarljósi umfram sérhagsmuni tiltekinna fyrirtækja. Í opinberri umfjöllun um endurskipulagningu fyrirtækja hefur nær einhliða verið fjallað um stöðu einstakra fyrirtækja sem nú sjá fram á samkeppni við fjárhagslega endurskipulögð fyrirtæki. Sjónarmið þeirra skipta vissulega máli þegar endurskipulagning fer fram, en mega ekki vera ráðandi. Einkum þarf að líta til hagsmuna samfélagsins og neytenda af virkri samkeppni.

    Á meðal þeirra 17 kjarnasjónarmiða sem fram koma í skjalinu (2. kafla) má nefna eftirfarandi:

    • Einungis á að koma þeim fyrirtækjum til aðstoðar, sem eiga sér eðlilegar rekstrarlegar forsendur en forðast ber að endurreisa eða halda gangandi óhagkvæmum fyrirtækjum.
    • Það er neytendum og atvinnulífinu til hagsbóta að bankar afskrifi skuldir eða á annan hátt dragi úr skuldabyrði rekstrarhæfra fyrirtækja. Beiting samkeppnislaga á ekki að vinna gegn þessu.
    • Bankar verða að gera skýra arðsemiskröfu til endurskipulagðra fyrirtækja og gæta verður fyllsta aðhalds um arðsemi.
    • Draga þarf úr hættunni á því að of mikil skuldabyrði fyrirtækja sé sótt í vasa neytenda í formi hærra verðs.
    • ankar eiga að selja endurskipulögð fyrirtæki við svo fljótt sem auðið er í gagnsæju ferli, eftir því sem kostur er. Skráning í kauphöll er vænlegur kostur.
    • Samkeppnislögin veita næga vernd að því undanskildu að í þeim skortir heimildir til að skipta upp fyrirtækjum.

    Áherslur við endurskipulagningu fyrirtækja skipta sköpum við endurreisnina.
    Stór hluti fyrirtækja í mörgum atvinnugreinum stendur höllum fæti. Mikilvægt er því að taka vandamál sem þessi föstum tökum. Nýta má reynslu annarra ríkja af fyrri kreppum. Í skýrslunni eru rakin mismunandi viðbrögð Asíuþjóða við kreppuástandi á síðasta áratug. Horfa ætti til reynslu Suður Kóreu en forðast þær aðferðir sem beitt var í Japan og höfðu slæmar afleiðingar á efnahagsbata, sbr. nánar 3. kafla í skýrslunni.

    Samkeppniseftirlitið óskar eftir því að sjónarmið og athugasemdir við umræðuskjalið berist eigi síðar en 8. janúar nk.
    Umræðuskjalið er sent fjölmörgum aðilum til umsagnar, auk þess sem öllum áhugasömum gefst kostur á að koma sjónarmiðum á framfæri. Mun eftirlitið í framhaldinu vinna úr framkomnum athugasemdum, og m.a. miðla þeim til banka og stjórnvalda og með því stuðla að skýrri stefnumörkun við endurreisn fyrirtækja almenningi og atvinnulífinu til hagsbóta. Umræðuskjalið kann að leiða til breytinga á áliti Samkeppniseftirlitsins nr. 3/2008, Ákvarðanir banka og stjórnvalda um framtíð fyrirtækja á samkeppnismörkuðum, og að öðru leyti hafa áhrif á beitingu samkeppnislaga.

    Nánari upplýsingar veitir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.

Tengt efni

Fréttir og tilkynningar