Úrskurðir áfrýjunarnefndar
Hreyfill svf. gegn Samkeppniseftirlitinu
- Sækja skjal
- Málsnúmer: 6/2023
- Dagsetning: 17/11/2023
-
Fyrirtæki:
Engin fyrirtæki finnast
-
Atvinnuvegir:
Enginn atvinnuvegur finnst
-
Málefni:
Engin málefni finnast
-
Reifun
Með kæru, dags. 14. ágúst 2023, hefur Hreyfill svf., hér eftir nefnt áfrýjandi, kært til áfrýjunarnefndar samkeppnismála, bráðabirgðaákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá 20. júlí 2023, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að áfrýjandi hafi sennilega brotið gegn 10. gr., sbr. 12. gr. og 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 með því að banna með fortakslausum hætti leigubifreiðastjórum sem eru í þjónustu hjá áfrýjanda að nýta sér þjónustu annarra leigubifreiðastöðva.
Var áfrýjanda gert að láta tafarlaust af framangreindri háttsemi og gera nauðsynlegar breytingar á reglum og samþykktum félagsins sem banna eða hamla því að leigubifreiðastjórar sem eru í þjónustu hjá áfrýjanda nýti sér jafnframt þjónustu annarra aðila. Þá var áfrýjanda gert að gefa út formlega tilkynningu til leigubifreiðastjóra sem nýta sér þjónustu félagsins þar sem upplýst yrði um bráðabirgðaákvörðunina og að leigubifreiðastjórum væri frjálst að nýta sér jafnframt þjónustu annarra aðila kjósi þeir það. Gildir hin kærða bráðabirgðaákvörðun til 31. janúar 2024.
Áfrýjunarnefnd taldi vafa leika á því hvort umrædd bráðabirgðaákvörðun væri kæranleg skv. 9. gr. samkeppnislaga og var það álitaefni tekið til úrskurðar sérstaklega.
Áfrýjandi krefst þess að hin kærða bráðabirgðaákvörðun Samkeppniseftirlitsins verði tekin til efnismeðferðar hjá áfrýjunarnefnd samkeppnismála og felld úr gildi. Samkeppniseftirlitið krefst þess að kæru áfrýjanda verði vísað frá áfrýjunarnefnd samkeppnismála.Það er niðurstaða áfrýjunarnefndar samkeppnismála að fella beri úr í gildi þann hluta hinnar kærðu ákvörðunar er snýr að skyldu áfrýjanda til að gera tilgreindar breytingar á reglum og samþykktum áfrýjanda. Að öðru leyti er málinu vísað frá áfrýjunarnefnd samkeppnismála.
Felldur er úr gildi sá hluti hinnar kærðu bráðabirgðaákvörðunar Samkeppniseftirlitsins nr. 28/2013 frá 20. júlí 2023 er snýr að skyldu áfrýjanda til að gera breytingar á reglum og samþykktum sínum.
Að öðru leyti er kæru áfrýjanda, Hreyfils svf., vísað frá áfrýjunarnefnd samkeppnismála.