Eftirlit með sáttum og skipun kunnáttumanns
Pistill nr. 4/2020
Í ritstjórnargrein Viðskiptablaðsins (Óðni) í þessari viku er gerð að umtalsefni aðkoma Samkeppniseftirlitsins að skipan og störfum kunnáttumanns sem starfar samkvæmt sátt N1/Festi við Samkeppniseftirlitið vegna samruna fyrirtækjanna á árinu 2018. Í greininni er vísað til umfjöllunar í Markaði Fréttablaðsins um málið dagana 25. mars og 1. apríl síðastliðinn.
Ritsjórnargreinin ber titilinn „Hjörtun í Namibíu og Borgartúni“. Þar er kostnaður af störfum kunnáttumanns gerður að umtalsefni og jafnframt látið í veðri vaka að Lúðvík Bergvinsson lögmaður hafi fengið verkefnið sakir vinskapar síns við aðstoðarforstjóra Samkeppniseftirlitsins. Þannig hafi lögmaðurinn verið valinn til verksins umfram aðra tvo hæfa nafngreinda menn sem forstjóri N1/Festi hefði tilnefnt.
Er þetta lagt að jöfnu við mál sem Kveikur fjallaði um síðasta haust um ætlaðar mútugreiðslur til embættismanna í Namibíu. Lýkur greininni á hugleiðingum um fégræðgi og spillingu auk þess sem birt er erindi úr Passíusálmum Hallgríms Péturssonar, þar sem hann orti eftirminnilega um árgirnd fjárplógsmanna.
Ástæða er til að hvetja alla áhugamenn um íslenskt atvinnulíf og íslenska stjórnsýslu til þess að lesa ritstjórnargreinina. Hún er óvenju skýrt dæmi um þá heiftúðugu orðræðu sem stofnanir sem gæta hagsmuna almennings þurfa stundum að búa við af hendi þeirra sem gefa sig út fyrir að vera að berjast fyrir hagsmunum íslenskra atvinnufyrirtækja.
Nú er Samkeppniseftirlitið að sjálfsögðu ekki hafið yfir gagnrýni. Eðlilegt er því að spurt sé hvort eitthvað geti verið til í þeim alvarlegu ásökunum og/eða dylgjum sem í þessari umfjöllun felast. Í þágu upplýstrar umræðu er mér bæði ljúft og skylt að upplýsa um aðkomu Samkeppniseftirlitsins að skipan og störfum kunnáttumanns í þessu tilviki. Í því skyni er sjálfsagt að rekja eftirfarandi:
1. Af hverju kunnáttumaður?
Þegar N1 varð ljóst síðla vetrar 2018 að kaup þess á Festi yrðu ekki samþykkt vegna alvarlegra samkeppnishindrana freistaði fyrirtækið þess að leggja til skilyrði fyrir samrunanum sem ryðja myndu samkeppnishindrunum úr vegi. Þannig lagði fyrirtækið m.a. til sölu á tilteknum rekstri og töluverðar breytingar á fyrirkomulagi heildsölu á eldsneyti. Þá skuldbatt fyrirtækið sig til þess að tilnefna sérstakan eftirlitsaðila (kunnáttumann) til að fylgja skilyrðunum eftir. Að afloknum viðræðum um þessi skilyrði gerðu N1 og Samkeppniseftirlitið sátt sem lá til grundvallar samþykki fyrir samrunanum.
Starf kunnáttumanns er þekkt í alþjóðlegum samkeppnisrétti (á ensku nefnt Trustee). Hann er alla jafna tilnefndur af hlutaðeigandi fyrirtæki og starfsemi hans er hluti af innra skipulagi fyrirtækisins. Líkja má þessu við það þegar fyrirtæki fær utanaðkomandi aðila til að sinna innri endurskoðun. Kunnáttumaður er því ekki hluti af starfi Samkeppniseftirlitsins, heldur viðkomandi fyrirtækis.
2. Valdi Samkeppniseftirlitið kunnáttumanninn?
Nei, N1/Festi valdi kunnáttumanninn. Forstjóri N1/Festi tilnefndi þrjá einstaklinga sem hann taldi hæfa til starfsins og var tilbúinn að ganga til samninga við um að gegna starfinu. Þetta kom skýrt fram í frétt sem birtist í lok ágúst 2018 á Nasdaq Iceland – Kauphöll.
Það er hins vegar hlutverk Samkeppniseftirlitsins að skipa kunnáttumanninn formlega, sbr. 30. gr. sáttarinnar (sbr. bls. 361 í ákvörðun nr. 8/2019). Verkefni Samkeppniseftirlitsins er nánar tiltekið að kanna hvort kunnáttumaðurinn sé óháður gagnvart félaginu og þeim verkefnum sem hann á að sinna og hvort hann búi yfir þekkingu og reynslu sem nýtist í umrædd verkefni. Á þeim grunni getur Samkeppniseftirlitið hafnað tilnefningu og þarf N1/Festi þá að tilnefna nýjan. Til þess að komast hjá töfum í ferlinu varð það úr að forstjórinn tilnefndi þrjá í einu sem hann taldi hæfa.
3. Af hverju skipaði Samkeppniseftirlitið ekki annan hinna tveggja sem tilnefndir voru?
Forstjóri N1/Festi tilnefndi þrjá mögulega kunnáttumenn, eins og áður segir. Í grein Viðskiptablaðsins kemur fram að þessir einstaklingar hafi verið Eyjólfur Árni Rafnsson, fyrrum forstjóri Mannvits og formaður Samtaka atvinnulífsins, Ólafur Þór Jóhannesson endurskoðandi, og umræddur Lúðvík Bergvinsson, lögmaður. Allt eru þetta mætir menn með víðtæka reynslu á ýmsum sviðum.
Samkeppniseftirlitið tók allar þrjár tilnefningarnar til nánari skoðunar og kallaði Ólaf Þór og Lúðvík til viðtals. Eyjólfur Árni var ekki kallaður til viðtals, enda sinnti N1 ekki beiðni eftirlitsins um að koma á framfæri upplýsingum um starfsferil hans. Þá blasti við að Eyjólfur Árni var og er formaður stjórnar Eikar fasteignafélags hf. Hlutverk kunnáttumanns hjá N1/Festi er m.a. að fylgja eftir skilyrðum um sölu rekstrar á dagvöru og eldsneytismarkaði og lá fyrir að Eik gæti haft hagsmuni af þeim ráðstöfunum. Þá var Eyjólfur Árni formaður Samtaka atvinnulífsins og fór því með hagsmunagæslu á þeim vettvangi sem hefði getað skarast við verkefni hans sem kunnáttumanns.
Ólafur Þór Jóhannesson var á þessum tíma nýhættur sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs Basko og staðgengill forstjóra fyrirtækisins. Átti hann ennfremur hlut í félaginu. Basko rak á þessum tíma verslanir Iceland og 10-11. Við blasti að Basko gat haft talsverða hagsmuni af því hvernig söluskilyrði í sátt N1 og Samkeppniseftirlitsins yrðu framkvæmd. Því kom Ólafur ekki til álita sem kunnáttumaður. Hins vegar bjó hann yfir reynslu sem Samkeppniseftirlitið sá fyrir sér að gæti nýst í afmörkuðum verkefnum kunnáttumanns og kom þeim skilaboðum á framfæri að til greina kæmi að kunnáttumaður leitaði til Ólafs á þessum forsendum. Þá má bæta því við að hann tók við starfi framkvæmdastjóra fjármálasviðs Skeljungs á árinu 2019, en félagið er keppinautur Festis.
Við athugun á hæfi Lúðvíks komu ekki í ljós nein tengsl við dagvöru- eða eldsneytismarkað sem gáfu tilefni til að ætla hann ætti erfitt með að sinna starfinu, líkt og raunin var um hina tvo. Þá lá fyrir að Lúðvík hafði þekkingu og reynslu á eldsneytismarkaðnum, þar sem hann hafði m.a. komið að framkvæmd útboðs vegna eldsneytiskaupa sjávarútvegsfyrirtækja. Samkeppniseftirlitið hafði því ekki ástæðu eða forsendur til að gera athugasemdir við tilnefningu forstjóra N1/Festi á honum og staðfesti tilnefninguna.
Af framangreindu er ljóst að val á Lúðvíki var á forræði og á ábyrgð forstjóra N1/Festi og voru stjórnendur eða starfsmenn Samkeppniseftirlitsins því ekki í aðstöðu til þess að tryggja mögulegum kunningjum sínum eða vinum fjárhagslegan ávinning í tengslum við skipun kunnáttumanns, líkt og höfundar ritstjórnargreinar Viðskiptablaðsins eða umfjöllunar Fréttablaðsins láta í veðri vaka.
4. Hver ber kostnað og sinnir kostnaðaraðhaldi vegna kunnáttumanns?
Eins og áður sagði er litið svo á að starf kunnáttumanns/eftirlitsaðila sé hluti af innra skipulagi viðkomandi fyrirtækis. Af því leiðir af fyrirtækið ber ábyrgð á því að semja um greiðslur vegna starfsins. Það ræðst af eðli sátta hvað verkefni kunnáttumanns/eftirlitsaðila eru umfangsmikil. Í 30. gr. sáttarinnar við N1/Festi (bls. 361 í ákvörðun nr. 8/2019) er verkefnum kunnáttumanns lýst og er ljóst að þau eru talsvert víðtæk.
Samkeppniseftirlitið hefur beint því til fyrirtækja sem hafa skuldbundið sig til að lúta eftirliti af þessu tagi að gera formlega verksamninga og e.a. áætlanir. Ekki er óeðlilegt að kunnáttumaður útskýri fyrir fyrirtækinu veruleg frávik frá verkáætlun, auk þess sem að eðlilegt er að fyrirtækið kalli eftir tímaskýrslum og sinni öðru eftirliti með þessum kostnaði sem lið í hefðbundnu innra eftirliti eða innri endurskoðun viðkomandi fyrirtækis. Nánari leiðbeiningum um þetta hefur verið beint til hlutaðeigandi fyrirtækja, þar á meðal N1/Festi.
Líkt og í tilviki annarrar aðkeyptrar þjónustu er því ekkert því til fyrirstöðu að fyrirtæki sinni virku kostnaðaraðhaldi, án þess að þrengt sé að sjálfstæði kunnáttumannsins eða komið í veg fyrir að hann ráðist í nauðsynlegar rannsóknir. Eins og áður segir má líkja þessu við aðkeypta vinnu við innri endurskoðun fyrirtækis.
Samkeppniseftirlitið hefur því ekki milligöngu um gjaldtöku kunnáttumanns. Komi upp vafamál við túlkun sáttar geta kunnáttumaður eða viðkomandi fyrirtæki hins vegar leitað til eftirlitsins. Eins getur eftirlitið gripið inní ef það telur að ákvæði sáttar séu brotin eða gengið gegn markmiði þeirra. Séu viðkomandi fyrirtæki ósátt við niðurstöður eftirlitsins að þessu leyti er hægt að bera þær undir áfrýjunarnefnd samkeppnismála, sbr. t.d. nýlegan úrskurð í máli nr. 5/2019, Festi gegn Samkeppniseftirlitinu.
Af framangreindu leiðir að kunnáttumenn/eftirlitsaðilar geta ekki óáreittir stundað sjálftöku í störfum sínum, eins og dylgjað er um í umfjöllun Viðskiptablaðsins og Fréttablaðsins um þessi mál.
5. Hefur N1/Festi gert athugasemdir vegna gjaldtöku kunnáttumanns?
Ljóst er því að fyrirtæki sem hefur skuldbundið sig til að lúta eftirliti kunnáttumanns/eftirlitsaðila getur gripið til ýmissa úrræða ef gjaldtaka er ósamrýmanleg umfangi starfssins. Þannig getur fyrirtækið t.d. gert athugasemdir við viðkomandi kunnáttumann/eftirlitsaðila eða gert fyrirvara við greiðslur.
Í tilefni af þessari umfjöllun óskaði Samkeppniseftirlitið eftir upplýsingum um hvort Festi hefði gert athugasemdir við gjaldtöku Lúðvíks Bergvinssonar sem kunnáttumanns. Staðfest hefur verið að Festi hefur ekki gert neinar athugasemdir við kunnáttumann vegna greiðslna til hans.
Þá hefur N1/Festi ekki heldur óskað eftir því að Samkeppniseftirlitið grípi inní vegna gjaldtökunnar.
Hvað gengur mönnum þá til?
Það er því enginn fótur fyrir þeim alvarlegu dylgjum og ásökunum í garð Samkeppniseftirlitsins og starfsmanna þess sem fram hafa komið í umfjöllun Viðskiptablaðsins og Fréttablaðsins um þessi málefni. Athyglisvert er í því sambandi að hvorki Fréttablaðið né Viðskiptablaðið óskuðu skýringa eða viðbragða frá Samkeppniseftirlitinu í tengslum við umfjöllun sína. Þá er einnig umhugsunarvert að Fréttablaðið hafnaði beiðni um leiðréttingu á því sem rangt var farið með í umfjöllun blaðsins.
Eftir stendur því spurningin um það hvað mönnum gengur til með svona málflutningi. Nærtækt er að álykta að umfjölluninni sé ætlað að veikja eftirlitið og draga úr trúverðugleika þess. Jafnframt má lesa út úr umfjöllun Viðskiptablaðsins óþol í garð þess að fyrirtækjum séu sett mörk og þeim fylgt eftir.
Sem betur fer endurspegla þessi viðhorf ekki almennt viðhorf stjórnenda íslenskra fyrirtækja. Þvert á móti er það reynsla Samkeppniseftirlitsins að flestir stjórnendur fyrirtækja skynji mikilvægi eftirlits, virði settar reglur og vilji eiga í greiðum og góðum samskiptum við eftirlitsstofnanir.
Þess vegna má fullyrða að þessi málflutningur er hvorki til hagsbóta fyrir né þóknanlegur þorra íslenskra fyrirtækja, sem vilja ekki bara virða lög og reglur heldur eiga, líkt og neytendur, heimtingu á því að virk samkeppni ríki á mörkuðum. Mörkuðum sem oft eru erfiðir og óaðgengilegir í litlu hagkerfi eins og okkar.
Þetta er ekki síst aðkallandi nú um stundir þar sem smærri fyrirtæki, sem oft koma inn á markaði með ferska vinda nýsköpunar, eiga á hættu að hverfa af markaði vegna efnahagsþrenginga af völdum COVID-19.
Hagsmunagæslan sem birtist í umfjöllun Viðskiptablaðsins og Fréttablaðsins um þessi mál er því komin á villigötur.
Páll Gunnar Pálsson
forstjóri Samkeppniseftirlitsins
[Pistill þessi birtist sem grein í Kjarnanum í apríl 2020]