Erlend fjárfesting?
Pistill nr. 1/2022
Pistillinn birtist fyrst sem grein í Fréttablaðinu 23. september 2022.
Öðru hvoru er því haldið fram að eftirlit með samkeppni hér á landi hindri erlenda fjárfestingu. Þessarar orðræðu varð m.a. vart nú í sumar vegna rannsóknar Samkeppniseftirlitsins á kaupum franska fjárfestingarsjóðsins Ardian á innviðafyrirtækinu Mílu. Rannsókninni lauk með sátt í síðustu viku, þar sem aðilar féllust á verulegar breytingar á viðskiptaskilmálum og skilyrði í starfsemi Mílu, með það að markmiði að vernda samkeppni.
Undir rannsókn málsins var því haldið fram í íslenskum viðskiptamiðli að samrunaeftirlit hér á landi væri „fjandsamlegt fyrir erlendar fjárfestingar, sem fyrir sé þungt í vöfum.“
Til svars við þessu er rétt að benda á að ákvæði íslenskra samkeppnislaga eiga sér beinar fyrirmyndir í nágrannalöndum og eru að meginstefnu til samhljóða samkeppnisreglum EES-samningsins. Sama á við um beitingu Samkeppniseftirlitsins á samkeppnisreglum, eins og nýleg skýrsla um stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar varpar ágætu ljósi á. Nefna má til dæmis að fyrir rúmu ári ógiltu frönsk samkeppnisyfirvöld kaup Ardian á fyrirtæki sem rekur orkuinnviði í Frakklandi.
Staðreyndin er nefnilega sú að samkeppnisreglur og eftirlit er til þess fallið að styðja við erlenda fjárfestingu, en ekki öfugt. Samkeppnisreglur ESB og EES, ásamt beitingu þeirra, eru mikilvægur grundvöllur þess að opna markaði. Um leið er fjárfestum gert auðveldara að fjárfesta yfir landamæri og þeim veitt ákveðin vissa um það regluumhverfi sem þeir stíga inn í.
Á sama hátt skiptir máli fyrir neytendur hér á landi að erlend fjárfesting styðji við almannahagsmuni. Fyrir nokkrum árum var virtur breskur fræðimaður spurður um það, á fundi um samkeppnismál í Reykjavík, hvort ekki væri hætta á því að samkeppnisreglur og eftirlit hér á landi ynni gegn erlendri fjárfestingu. Glöggt er gests augað og hann svaraði með annarri spurningu sem var eitthvað á þessa leið:
„Vilja Íslendingar erlenda fjárfestingu sem grundvallast á því að hinn erlendi fjárfestir hagnist af samkeppnishindrunum eða einokun, á kostnað neytenda?“
Páll Gunnar Pálsson,
forstjóri Samkeppniseftirlitsins