Hollráð um heilbrigða samkeppni
Pistill nr. 1/2018
Í gær stóðu Viðskiptaráð Íslands og fleiri aðilar fyrir kynningu á nýjum leiðbeiningum til fyrirtækja um samkeppnisrétt, undir yfirskriftinni Hollráð um heilbrigða samkeppni. Var mér boðið, ásamt nokkrum aðilum úr atvinnulífinu, að flytja hugvekju um samkeppnismál. Megininntak minnar hugvekju fer hér á eftir.
1. Útgáfa leiðbeininganna fagnaðarefni
Útgáfa leiðbeininga til fyrirtækja um samkeppnisrétt er mikið fagnaðarefni. Þær eru til vitnis um vilja þeirra sem að leiðbeiningunum standa til þess að styrkja samkeppni á mörkuðum, draga úr samkeppnishindrunum og fækka brotum á samkeppnislögum.
Þetta framtak stuðlar því að aukinni þekkingu á samkeppnisreglum, skapar starfandi fyrirtækjum jákvætt aðhald og forðar því þannig almenningi, fyrirtækjunum sjálfum og efnahagslífinu frá búsifjum sem stafað geta af samkeppnishindrunum og samkeppnislagabrotum. Best er að um þetta stóra verkefni takist gott samstarf stjórnvalda og atvinnulífs. Með útgáfu leiðbeininganna hefur atvinnulífið sýnt mikilvægt frumkvæði í þessa veru.
2. Nokkur verkefni sem tengjast samspili Samkeppniseftirlitsins og atvinnulífs
Af hálfu okkar í Samkeppniseftirlitinu er fullur vilji til þess að stuðla að heilbrigðu samspili atvinnulífs og stjórnvalda í þágu virkrar samkeppni. Ég vil hér nefna nokkur verkefni sem skipta máli í þessu sambandi:
- Fyrst er auðvitað að nefna þá frumskyldu Samkeppniseftirlitsins að beita samkeppnislögunum með því að greina og rannsaka samkeppnishindranir og grípa til aðgerða til þess að stöðva slíkar hindranir og taka á brotum á samkeppnislögum. Oftar en ekki eru það einmitt fyrirtæki á viðkomandi mörkuðum sem koma fyrst auga á hindranirnar og vekja athygli eftirlitsins á þeim. Þessi samskipti atvinnulífsins og eftirlitsins eru því mjög mikilvæg.
Með þessari framkvæmd samkeppnislaga mótast samkeppnisrétturinn smátt og smátt og það fæst skýrari mynd af þeim réttindum og skyldum sem fyrirtæki búa við. Það er líka mikilvægt að Samkeppniseftirlitið hafi vakandi auga með þeim breytingum sem kunna að verða á mörkuðum og noti á hverjum tíma þær aðferðir sem þykja bestar til þess að greina þær breytingar.
Hér býr eftirlitið vel að því að vera hluti af stærra neti evrópskra samkeppniseftirlita og njóta m.a. aðhalds frá Eftirlitsstofnun EFTA o.fl. Þannig byggir Samkeppniseftirlitið ályktanir sínar að ýmsu leyti á fordæmum og leiðbeiningum sem gefnar eru út í evrópskri framkvæmd. Í því sambandi má benda á heimasíðu Eftirlitsstofnunar EFTA, en þar er að finna greinargóðar leiðbeiningar á íslensku um ýmis atriði er varðar beitingu samkeppnisreglna á evrópska efnahagssvæðinu.
- Í annan stað vill Samkeppniseftirlitið haga starfi sínu þannig að úrlausnir þess verði til gagns fyrir fyrirtæki og hafi helst fyrirbyggjandi áhrif. Mikilvægur þáttur í þessu er að miðla upplýsingum og leiðbeiningum til markaða.
a. Með þetta í huga er eftirlitið að vinna að breytingum á heimasíðu sinni og hefur í hyggju að styrkja upplýsingamiðlun á samfélagsmiðlum.
b. Eftirlitið er að vinna sérstakt kynningarefni sem nýst getur bæði starfsmönnum fyrirtækja, en ekki síður almenningi, enda er mikilvægt að virkja líka það aðhald sem almenningur getur veitt að þessu leyti.
c. Samkeppniseftirlitið hyggst halda áfram svokölluðu Samtali um samkeppni, en undir þeirri yfirskrift hefur eftirlitið stofnað til samtals við bæði atvinnulíf og stjórnvöld um samkeppnismál, í sérstakri fundarröð.
- Við úrlausn mála á sl. misserum hefur Samkeppniseftirlitið einnig í auknum mæli lokið málum með leiðbeiningum til aðila, þegar ekki hafa verið taldar forsendur til ítarlegra rannsókna.
3. Fyrirtækjum auðveldað að stíga út úr samráði – Nýleg norsk könnun
Á þessum nótum er rétt að undirstrika hversu brýnt það er að auðvelda fyrirtækjum og stjórnendum fyrirtækja sem eru aðilar að ólögmætu samráði að stíga út úr því. Hér er vísað til svokallaðra vægðarreglna, sem á ensku eru kenndar við leniency.
Það er athyglisvert í þessu sambandi að nýlega gekkst norska samkeppniseftirlitið fyrir umfangsmikilli könnun á meðal þarlendra stjórnenda fyrirtækja, sem leiddi m.a. í ljós að þriðjungur aðspurðra stjórnenda taldi að ólögmætt samráð væri til staðar á þeim markaði sem þeir störfuðu. Virk úrræði til þess að stíga út úr slíku samráði eru því gríðarlega mikilvæg.
4. Ryðja þarf úr vegi opinberum samkeppnishindrunum
Að síðustu er rétt að undirstrika nauðsyn þess að stjórnvöld komi á breiðum grundvelli að því að tryggja heilbrigðar samkeppnisaðstæður á mörkuðum. Um þetta hefur atvinnulífið, samtök þeirra og Samkeppniseftirlitið oftast talað einum rómi. Stjórnvöld eru nefnilega oft í aðstöðu til þess að greiða fyrir samkeppni með því að taka skynsamlegar ákvarðanir um umgjörð atvinnustarfsemi.
Eitt af stóru verkefnunum í þessu efni er að draga úr óþarfa reglubyrði, en Samkeppniseftirlitið leitast einmitt við að beita heimildum sínum til að ryðja slíkum hindrunum úr vegi.
5. Virkt samkeppnisumhverfi býr í haginn fyrir breytingar framtíðarinnar
Eins og við öll vitum þá leiðir virk samkeppni að jafnaði til lægra verðs og bættrar þjónustu. Hún er líka mikilvægur jarðvegur nýsköpunar og kraftar samkeppninnar knýja stjórnendur fyrirtækja til þess að stýra fyrirtækjum sínum betur og með hagkvæmari hætti. Það leiðir af þessu að fyrirtæki sem starfa í virku samkeppnisumhverfi eru líklegri til þess að þróast og standast þær áskoranir sem íslenskt atvinnulíf á ýmsum sviðum stendur frammi fyrir á komandi árum, samfara tækniþróun og opnun markaða sem af henni getur leitt.
Með útgáfu leiðbeininganna hefur skapast góður hljómgrunnur fyrir samstarfi atvinnulífs og stjórnvalda um virkari samkeppni á mörkuðum. Það er von Samkeppniseftirlitsins að sem flest fyrirtæki kynni sér þessar leiðbeiningar, sem og þær upplýsingar og fræðsluefni sem hægt er að nálgast á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins, www.samkeppni.is.
Páll Gunnar Pálsson
forstjóri Samkeppniseftirlitsins