Nokkrar staðreyndir um samkeppnisreglur og landbúnað
Pistill 1/2023
Í Morgunblaðinu laugardaginn 28. janúar sl. er birt grein undir yfirskriftinni, „Íslensk samkeppnislöggjöf strangari en þekkist erlendis“, eftir Sigurjón Rafnsson, aðstoðar-kaupfélagsstjóra Kaupfélags Skagfirðinga og formann Samtaka fyrirtækja í landbúnaði. Í sama blaði er viðtal við Sigurjón um sama efni.
Í greininni og viðtalinu er brugðist við ákvörðun matvælaráðherra, sem birt var þann 25. janúar sl., um að falla frá því að leggja fram frumvarp um undanþágur frá samkeppnislögum til handa afurðastöðvum í kjötiðnaði. Drög að þessu frumvarpi voru kynnt til umsagnar á Samráðsgátt stjórnvalda í nóvember síðastliðnum.
Af þessu tilefni er rétt að vekja athygli á eftirfarandi, í þágu upplýstrar umræðu:
1) Undanþágur ganga lengra en erlendis
Í Noregi og innan ESB snúa undanþágur frá almennum samkeppnisreglum að bændum og afurðastöðvum sem eru í eigu bænda. Meginmarkmiðið er þannig að bæta samningsstöðu bænda sjálfra og gera þeim kleift að stýra hagsmunum sínum.
Núgildandi undanþágur íslenskra laga um mjólkurafurðastöðvar og tillögur frumvarpsdraganna um undanþágu til handa kjötafurðastöðvum gera hins vegar engan greinarmun á því hvort þær eru í eigu bænda eða ekki. Eins og rakið er ítarlega í umsögn Samkeppniseftirlitsins við frumvarpsdrögum matvælaráðherra eru kjötafurðastöðvar ekki í eigu bænda nema að hluta til. Undanþágur í Noregi og ESB myndu því koma íslenskum kjötafurðastöðvum að litlu gagni.
Í Noregi og innan ESB gilda samrunareglur samkeppnislaga um afurðastöðvar í landbúnaði og fjölmörg dæmi eru um að þeim hafi verið beitt til að verja hagsmuni bænda og neytenda. Dæmi um þetta eru rakin í viðauka við umsögn eftirlitsins um frumvarpsdrögin.
Núgildandi undanþágur íslenskra laga til mjólkurafurðastöðva víkja aftur á móti til hliðar samrunareglum samkeppnislaga. Einnig mátti skilja frumvarpsdrögin um kjötafurðastöðvar svo að með heimild til stofnunar sameiginlegs afurðafélags keppinauta yrði vikið til hliðar heimildum Samkeppniseftirlitsins til að rannsaka stofnun félagsins á grundvelli samrunaákvæða samkeppnislaga.
Undanþáguheimildir til íslenskra mjólkurafurðastöðva og frumvarpsdrögin ganga því mun lengra en í Noregi og innan ESB.
2) Íslensk lög girða ekki fyrir hagræðingu
Samkeppnislög hér á landi heimila fyrirtækjum að starfa saman, m.a. til þess að ná fram hagræðingu og draga úr rekstrarkostnaði, að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Þau skilyrði lúta í meginatriðum að því að tryggja að ábati sem samstarf hefur í för með sér komi ekki einvörðungu í hlut samstarfsfyrirtækjanna og eigenda þeirra, heldur að viðskiptavinir fái sanngjarna hlutdeild í ábatanum.
Núgildandi lög heimila því samstarf afurðastöðva, en tryggja um leið að bændur og neytendur njóti ábata sem af því hlýst. Afurðastöðvar í landbúnaði hafa hins vegar ekki látið reyna á ákvæði núgildandi laga að þessu leyti.
Samrunareglur gera einnig ráð fyrir því að horft sé til sambærilegra sjónarmiða. Samkeppniseftirlitið heimilaði nýlega samruna Norðlenska, Kjarnafæðis og SAH afurða með skilyrðum sem m.a. miðuðu að því að verja hagsmuni bænda.
Fullyrðingar um að framkvæmd íslenskra samkeppnislaga girði fyrir hagræðingu á meðal kjötafurðastöðva eru því rangar.
3) Hagsmunir bænda
Hagsmunir og áherslur bænda og kjötafurðastöðva geta í ýmsu farið saman. Sé eigendaaðhald eða samkeppnislegt aðhald hins vegar ekki til staðar getur orðið vík milli vina. Afurðastöð í yfirburðastöðu hefur t.d. minni hvata til þess að gera vel við viðskiptavini sína, tryggja virkt kostnaðaraðhald í rekstri og vinna að nýsköpun, í samanburði við fyrirtæki sem starfa í umhverfi virkrar samkeppni og njóta eigendaaðhalds.
Viðhorf bænda sjálfra leiða þetta ágætlega í ljós. Við rannsókn á samruna Norðlenska, Kjarnafæðis og SAH afurða lét Samkeppniseftirlitið framkvæma viðhorfskannanir á meðal bænda til þess að draga betur fram sjónarmið þeirra. M.a. voru bændur spurðir hversu sterk eða veik samningsstaða þeirra væri gagnvart afurðastöðvum. Svör bárust frá tæplega 900 bændum, en um 90% þeirra töldu samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum vera veika eða enga.
Niðurlag
Mikilvægt er að leita áhrifaríkra leiða til þess að treysta stöðu íslenskra bænda, til sóknar í stað varnar. Í því sambandi hefur Samkeppniseftirlitið bent á að til greina komi að veita bændum og fyrirtækjum í þeirra eigu undanþágur frá samkeppnisreglum sem miða að því að styrkja stöðu þeirra, meðal annars gagnvart kjötafurðastöðvum. Um leið þarf að taka tillit til hagsmuna neytenda.
Ítarlega umsögn um frumvarpsdrög matvælaráðherra má nálgast á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins. Með umsögninni var eftirlitið að sinna því lögbundna hlutverki sínu að „gæta þess að aðgerðir opinberra aðila takmarki ekki samkeppni og benda stjórnvöldum á leiðir til að gera samkeppni virkari“, eins og segir í 8. gr. samkeppnislaga.
Páll Gunnar Pálsson
Höfundur er forstjóri Samkeppniseftirlitsins
Pistill þessi birtist sem grein í Morgunblaðinu þann 2. febrúar sl.