Samkeppniseftirlitið, málshraði og endurreisnin
Pistill nr. 2/2012
Heimildir Samkeppniseftirlitsins til íhlutunar í samruna fyrirtækja hafa reynst heilladrjúgt tæki til þess að setja yfirráðum bankanna á fyrirtækjum skorður og flýta með því endurreisn atvinnulífsins. Stundum er Samkeppniseftirlitið hins vegar gagnrýnt fyrir að taka langan tíma í rannsóknir samrunamála. Fjallað var um þetta í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins.
Ljúft og skylt er að setja fram sjónarmið og upplýsingar sem gagnlegar eru í þessari umræðu.
Fyrst ber að nefna að meðferð samrunamála lýtur lögbundnum tímafrestum. Að þeim liðnum er Samkeppniseftirlitinu ekki heimilt að aðhafast. Þeir eru því settir með hagsmuni samrunaaðila í huga.
Tímafrestur byrjar hins vegar ekki að líða fyrr en Samkeppniseftirlitinu hefur borist fullnægjandi samrunatilkynning, en hún á að geyma nauðsynlegar upplýsingar til þess að meta samkeppnisleg áhrif samrunans. Alltof algengt er að samrunaaðilar vandi upplýsingagjöf ekki nægilega. Haldlítið er fyrir þá að gagnrýna Samkeppniseftirlitið fyrir seinagang, þegar skýringanna er að leita í lélegum undirbúningi þeirra sjálfra. Ástæða er til að hvetja stjórnendur fyrirtækja og lögmenn þeirra til að huga vel að þessu.
Helmingur samruna eftir hrun er samkeppnishamlandi
Á þriggja ára tímabili eftir hrun, eða árin 2009-2011, tók Samkeppniseftirlitið tæplega 80 ákvarðanir í samrunamálum. Vel flestar vörðuðu endurskipulagningu atvinnulífsins, beint eða óbeint. Rúmlega helmingur þeirra fjallaði beinlínis um yfirtöku banka á fyrirtækjum.
Um þriðjungur ákvarðananna var afgreiddur innan 25 daga, en það er sá frestur sem Samkeppniseftirlitið hefur til að tilkynna aðilum hvort samruninn þarfnist frekari rannsóknar. Nefnt hefur verið Samkeppniseftirlitinu til hnjóðs að miklu hærra hlutfall samrunamála sé afgreitt innan sambærilegs frests innan Evrópusambandsins.
Það er rétt, en skýringin er augljós: Hvergi þurfa samkeppnisyfirvöld að grípa inn í jafn marga samruna og hér á landi. Á fyrrgreindu þriggja ára tímabili hefur Samkeppniseftirlitið gripið inn í helming allra samrunamála, þar af hafa 35 samrunum verið sett skilyrði og fimm verið ógiltir. Augljóst er að meðferð skaðlegra samruna tekur lengri tíma en hinna skaðlausu.
Að liðnum fyrrgreindum 25 daga fresti hefur Samkeppniseftiriltið 70 virka daga til frekari rannsóknar. Sá frestur var virkjaður í rúmlega 50 af 80 málum á tímabilinu. Í 20 þeirra nýtti Samkeppniseftirlitið færri en 50 daga af umræddum 70 daga fresti. Það er því ekki svo að lögmæltur frestur sé alltaf nýttur til fulls.
Hér má bæta við að Samkeppniseftirlitið hefur í mörgum tilvikum veitt undanþágu frá banni við því að framkvæma samruna á meðan á athugun stendur. Í þeim tilvikum verður bið eftir ákvörðun ekki eins íþyngjandi.
Sparnaður í fjárveitingum getur verið dýrkeyptur
Samkeppniseftirlitið telur því að meðferð samrunamála sé almennt í eðlilegu horfi, þótt auðvitað megi alltaf gera betur. Vegna hinna lögbundnu tímafresta í samrunamálum er hins vegar miklu meiri hætta á að önnur verkefni Samkeppniseftirlitsins fái ekki næga athygli. Þar skiptir máli að frá árinu 2008 hafa fjárveitingar til eftirlitsins lækkað um 8% að raungildi á meðan málum hefur fjölgað um 80%. Vegna ófullnægjandi fjárheimilda hefur Samkeppniseftirlitið því þurft að forgangsraða verkefnum í miklum mæli.
Augljóst er að með niðurskurði í fjárveitingum til samkeppniseftirlits hafa stjórnvöld orðið af tækifæri til þess að flýta enn frekar endurreisn atvinnulífsins og efnahagsbata.
Páll Gunnar Pálsson
Forstjóri Samkeppniseftirlitsins
[Pistill þessi var birtur sem grein í Viðskiptablaðinu þann 8. mars sl.]