Samkeppnin er besta vinkona hagræðingarinnar
Samkeppni og hagræðing á fjármálamarkaði
1. Eru breytingar framundan í fjármálaþjónustu? – Hvað mun ráða þeirri þróun?
Útibúin eru hins vegar þarna áfram og í mörgum tilfellum hefur þeim jafnvel fjölgað fremur en fækkað vítt um lönd. Allt fram undir þetta hafa útibú í nærumhverfinu verið forsenda þess að ná í og halda viðskiptavinum. Staðsetning og dreifing útibúa hefur þannig verið ein meginforsenda markaðssóknar á fjármálamarkaði. Til merkis um þetta má nefna að JPMorgan Chase, stærsti banki Bandaríkjanna, opnaði 200 útibú á síðasta ári.
Ýmsir spá því að biðin eftir að upplýsingatækni gjörbylti útibúahugsun í viðskiptabankaþjónustu sé að styttast. Í maí á þessu ári fjallaði tímaritið „The Economist“ sérstaklega um framtíð fjármálaþjónustu. Þar var því spáð að nú kynni að hafa skapast jarðvegur fyrir miklar breytingar. Þrennt var nefnt í þessu sambandi: Í fyrsta lagi hafi fjármálakreppan leitt til minnkandi arðsemi í smásölustarfsemi viðskiptabanka og því standi þeir frammi fyrir því að þurfa að draga úr kostnaði með fækkun útibúa, verkefni sem þeir hafa almennt látið hjá líða að sinna í betra árferði. Í öðru lagi muni bylting í notkunarmöguleikum farsíma leiða til þess að viðskiptavinir sæki útibúin sín síður. Þannig er því spáð að þessi tæknivæðing muni breyta hegðun viðskiptavina banka með róttækari hætti en t.d. net- og hraðbankavæðing hingað til. Í þriðja lagi sé fólk orðið vanara því en áður að eiga viðskipti á netinu, s.s. við pöntun flugfarmiða, skattskil o.fl.
Enginn veit með vissu hvað verður í þessu efni. Eitt er þó víst: Það eru þarfir viðskiptavinarins og viðleitni fjármálafyrirtækja til þess að uppfylla þær sem munu ráða úrslitum um þróunina. Hér kemur samkeppnin til sögunnar. Sagan segir okkur nefnilega að þróun fjármálamarkaðar verður ekki handstýrt nema að litlu leyti, hvorki af stjórnvöldum, stjórnendum fjármálafyrirtækja, eða eigendum upplýsingatæknifyrirtækja eins og Bill Gates. Þróun fjármálamarkaðar snýst um þá viðleitni fjármálafyrirtækja að afla sér og halda viðskiptavinum. Það gera þau með því að finna hagkvæmustu leiðir til að ynna fjármálaþjónustu af hendi á þann hátt sem hentar viðskiptavininum best. Fjármálafyrirtæki sem stendur sig best í þessu, er samkeppnishæfast.
2. Lögmál samkeppninnar á fjármálamarkaði – eiga þau vel við?
Hér gilda þau almennu lögmál að samkeppni í viðskiptum sé nauðsynleg þar sem hún eykur velferð neytenda og stuðlar að hagkvæmni í atvinnulífinu. Nánar tiltekið stuðlar hún að eftirfarandi:
- Að neytendur fái vörur og þjónustu á sem lægstu verði.
- Að auknu vöruframboði og betri þjónustu og vörum.
- Agi hennar knýr fyrirtæki til að hagræða í rekstri og vinnur gegn sóun.
- Að nýsköpun og framförum í atvinnurekstri.
- Að þjóðhagslegri hagkvæmni í efnahagslífinu.
Í efnahagsþrengingum vex þýðing þess að efla samkeppni. Reynsla flestra þjóða af efnahagskreppum sýnir að aðgerðir sem efla samkeppni stuðla að hraðari endurreisn atvinnulífsins.
Allt þetta skiptir höfuðmáli fyrir framþróun fjármálamarkaðar. Almennt er of miklum tíma eytt í rökræður um það hvernig fjármálamarkaður eigi að þróast, hversu mörg fjármálafyrirtæki við komumst af með og hvert stefna skuli. Þeim tíma væri betur varið í umræður og aðgerðir sem beinast að því að skapa sem besta umgjörð fyrir samkeppni, tryggja að fjármálafyrirtæki geti á grundvelli samkeppni um viðskiptavini boðið þeim góða þjónustu á sem hagkvæmastan hátt. Og þar á meðal skapa aðstæður þar sem kraftar samkeppninnar knýja fjármálafyrirtæki til þess að hagræða í rekstri sínum.
Sérstaða fjármálamarkaðar
Skýrsla OECD
Vickers-skýrslan
Af svipuðum meiði voru niðurstöður breskrar bankanefndar, sem kennd er við formann hennar, Sir John Vickers, en hún skilaði niðurstöðum sínum í september í fyrra. Skýrslan fjallar um fjármálamarkaðinn á breiðum grunni og leggur til fjölþættar úrbætur. Nefndin leggur mikla áherslu á samkeppnismál. Hún leggur m.a. til að bresk stjórnvöld tryggi í samningum við stærsta banka landsins, Lloyds Banking Group, að sala hluta eigna bankans leiði til styrkingar á samkeppnislegri stöðu keppinauta og styrki þar með samkeppni á markaði. Þá telur nefndin að aðgangshindranir inn á bankamarkaðinn og kostnaður neytenda við að skipta um banka séu verulega hamlandi fyrir samkeppni á bankamarkaði. Nefndin leggur til að skiptakostnaður verði lækkaður með því að krefja banka um að flutningur viðskiptavina á milli banka gangi hratt og greiðlega fyrir sig.
Ákvarðanir ESA um ríkisaðstoð við íslensku bankana
Í þessu sambandi eru ákvarðanir Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um ríkisaðstoð við hina íslensku endurreistu viðskiptabanka athyglisverðar. Ákvarðanirnar voru birtar fyrr í þessum mánuði. Í þeim fjallar ESA í samfellu um rekstrarhorfur og öryggi bankanna eftir ríkisaðstoð annars vegar og áhrif ríkisaðstoðarinnar á samkeppni hins vegar. Einnig leggur stofnunin mat á hvort þörf sé sérstakra aðgerða til að tryggja að ríkisaðstoðin skaði ekki samkeppni.
3. Brýnt að hagræða á fjármálamarkaði
Upplýsingatæknikostnaður er einn af stærstu kostnaðarliðum í bankastarfsemi. Samkvæmt þeim upplýsingum sem Samkeppniseftirlitið aflaði sér við gerð umræðuskjals um samkeppni á bankamarkaði á síðasta ári nam kostnaður við upplýsingatækni, þ.m.t. laun, um fjórðungi rekstrarkostnaðar Arion banka, Íslandsbanka og Landsbanka. Samkvæmt upplýsingum bankanna benti fátt til að þessi kostnaður myndi lækka á komandi árum.
Hagræðingu í fjármálakerfinu má ná fram með ýmsum hætti. Í skýrslu efnahags- og viðskiptaráðherra um framtíðarskipan fjármálakerfisins, sem ég nefndi hér áðan, eru nokkrar leiðir nefndar; s.s. tæknilegar umbætur, aukin sjálfvirkni, betri nýting mannauðs, endurskoðun útibúanets banka og sparisjóða og aukin samvinna milli hinna síðast nefndu. Ýmislegt hefur gerst á því sviði að undanförnu, m.a. með fækkun útibúa.
Reiknistofu bankanna sköpuð umgjörð sem styður við hagræðingu
Samkeppniseftirlitið hefur fengist við ýmis mál sem þessu tengjast á undanförnum misserum. Þess er skemmst að minnast að eftirlitið lauk nú í sumar tveimur rannsóknum er varða Reiknistofu bankanna. Önnur átti sér langan aðdraganda og varðaði athugun á því samstarfi keppinauta sem felst í sameiginlegu eignarhaldi fjármálafyrirtækja á Reiknistofunni. Hin rannsóknin snérist um kaup Reiknistofunnar á Teris, sameiginlegu upplýsingatæknifyrirtæki sparisjóðanna. Báðum þessum rannsóknum lauk með einni og sömu ákvörðun, nr. 14/2012.
Í ákvörðuninni er komist að þeirri niðurstöðu að samstarf keppinauta sem í RB felst og kaup RB á Teris gæti að óbreyttu skaðað samkeppni. Hins vegar voru RB og eigendur hennar reiðubúnir til þess að lúta skilyrðum til þess að tryggja samkeppni. Með skilyrðunum á eftirfarandi að vera tryggt:
- Í fyrsta lagi eiga ný og smærri fjármálafyrirtæki fullan aðgang að öllum kerfum og þjónustu Reiknistofunnar á sömu forsendum og eigendur hennar. Þetta er tryggt með skilyrðum um aðgangsreglur, verðskrá, bann við ómálefnalegum hindrunum eða mismunun og trúnað í umsóknarferli.
- Í öðru lagi er girt fyrir að samkeppnishamlandi samstarf keppinauta á fjármálamarkaði geti átt sér stað á vettvangi Reiknistofunnar. Þannig mega starfsmenn mismunandi fjármálafyrirtækja ekki sitja saman í stjórn og sameiginlegir notendahópar keppinauta á vettvangi Reiknistofunnar eru lagðir af. Þá er núverandi hluthöfum gert að bjóða eignarhluti í Reiknistofunni reglulega til sölu í því skyni að stuðla að því að Reiknistofan sé ekki einungis í eigu keppinauta á fjármálamarkaði.
- Í þriðja lagi er áskilið að Reiknistofan sé rekin sem sjálfstætt fyrirtæki á eðlilegum arðsemisgrundvelli. Þannig eiga keppinautar á fjármálamarkaði að geta treyst því að sértækir hagsmunir eigenda Reiknistofunnar skapi ekki aðgangshindranir. Um leið eiga keppinautar Reiknistofunnar á upplýsingatæknimarkaði að geta treyst því að Reiknistofan keppi á eðlilegum rekstrarforsendum.
- Í fjórða lagi er upplýsingatæknifyrirtækjum opnuð gátt til þess að keppa við Reiknistofuna um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Þetta er gert með því að skylda fjármálafyrirtæki sem eru hluthafar í Reiknistofunni til þess að framkvæma ávallt útboð eða verðkönnun þar sem leitað er hagstæðustu kjara við kaup á upplýsingatækniþjónustu. Þetta skilyrði ætti að styðja vel við það markmið bankanna að hagræða í rekstri sínum með því að leita ávallt bestu kjara.
- Í fimmta lagi er komið í veg fyrir að mismunandi skattaleg meðferð á upplýsingatækni-þjónustu hafi áhrif á það hverjir geti keppt um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Þannig skal verkkaupi, þ.e. fjármálafyrirtæki í hluthafahópi Reiknistofunnar, skilgreina strax í upphafi hvernig meðferð virðisaukaskatts af þjónustunni skuli háttað, óháð því hver verkseljandinn er.
Annað mál af líkum toga varðaði kaup Landsbankans í Arion verðbréfavörslu, sem nú ber nafnið Verdis. Þessi samruni kom til rannsóknar á árinu 2011. Eftirlitið taldi að sameiginleg yfirráð tveggja stórra viðskiptabanka á mikilvægu þjónustufyrirtæki hefði í för með sér samkeppnisröskun. Eftirlitið gaf aðilum kost á að setja fram hugmyndir að skilyrðum sem rutt gætu þessari röskun úr vegi. Á þeim tíma voru aðilar málsins ekki reiðubúnir til að ganga eins langt í þeim efnum og eftirlitið taldi nauðsynlegt. Þannig voru þeir t.d. ekki reiðubúnir að undirgangast skilyrði af þeim toga sem nú hafa verið sett vegna RB.
Aðilar málsins kærðu ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Fyrir nefndinni komu kærendur fram með víðtækari tillögur að skilyrðum, en þeir höfðu áður gert. Á þeirri forsendu felldi áfrýjunarnefnd ákvörðun eftirlitsins úr gildi og lagði fyrir það að taka að nýju til athugunar hvort unnt væri að setja kaupunum skilyrði. Í samræmi við úrskurðinn tók eftirlitið málið til skoðunar að nýju. En þegar sú athugun var á lokastigi féll Landsbankinn frá kaupunum.
Samrunar viðskiptabanka – sýnd veiði en ekki gefin
Hagræðing á fjármálamarkaði er sjaldan rædd án þess að talið berist að samrunum fjármálafyrirtækja. Eftir hrun hafa jafnvel heyrst raddir um að nauðsynlegri hagræðingu verði ekki náð öðruvísi en með samrunum tveggja af stóru bönkunum þremur. Samkeppniseftirlitið hefur almennt varað við slíkum hugmyndum vegna þeirrar miklu samþjöppunar sem myndi fylgja slíkum samruna.
Hér er rétt að árétta að við mat á lögmæti samruna ber eftirlitinu að horfa til hagræðingar að því tilskyldu að hún komi neytendum beint til góða og hindri ekki samkeppni. Það er hins vegar svo að á liðnum árum hefur Samkeppniseftirlitið ítrekað komist að þeirri niðurstöðu að kaup viðskiptabanka á sparisjóðum hindri samkeppni. [Nefna má í þessu sambandi ákvörðun um yfirtöku Kaupþings á SPRON og Sparissjóði Mýrarsýslu rétt fyrir hrun og ákvörðun um yfirtöku Íslandsbanka á Byr. Þá færði eftirlitið ítarleg rök fyrir því að hið sama ætti við um yfirtöku Landsbankans á Sparisjóði Svarfdæla.] Í þremur af fjórum þessara tilfella féllst Samkeppniseftirlitið hins vegar á að fjárhagsstaða viðkomandi sparisjóða væri slík að samkeppnishamlandi breyting á markaðnum væri hvort sem er óhjákvæmileg.
Það er því ljóst af þessum málum að Samkeppniseftirlitið hefur á liðinni tíð talið að frekari samrunar á fjármálamarkaði fælu í sér samkeppnishindranir. Þar við bætist að alþjóðlegar rannsóknir sýna að hagræðing sem oft er stefnt að með samrunum banka er sýnd veiði en ekki gefin. Í skýrslu eftirlitsins um samkeppni á bankamarkaði eru þessar rannsóknir raktar. Einnig er fjallað um þær í skýrslu efnahags- og viðskiptaráðherra um framtíðarskipan fjármálakerfisins.
Augljóst er að samrunar sem hindra samkeppni eru enn síður líklegir til þess að skila hagræðingu. Í slíkum samruna felst í raun öfugmæli því samruni sem skapar aðilum hans vernd frá samkeppni, rænir þá um leið mikilvægum hvata til hagræðingar. Nefnilega þeim að gera betur en keppinautarnir.
4. Styrking samkeppni styður við hagræðingu – nokkur brýn úrlausnarefni
Boðskapur Samkeppniseftirlitsins á fjármálamarkaði er einfaldur: Hagræðing á fjármálamarkaði er mikilvægur þáttur í mótun hans til framtíðar. Besta leiðin til að ná hagræðingu er að styrkja samkeppni, því hún örvar og hvetur til góðra verka. Aðgerðir sem hamla samkeppni eru líklegar til að hafa þveröfug áhrif. Ég vil hér í lokin víkja að nokkrum viðfangsefnum sem varða samkeppni á fjármálamarkaði og þar með framtíð hans miklu. Þessi viðfangsefni tengjast því meginþema að ryðja úr vegi aðgangshindrunum á fjármálamarkaði, auðvelda með því nýjum og smærri fyrirtækjum að hasla sér völl, bæta þannig samkeppnislegt aðhald með stóru keppinautunum og stuðla um leið að hagræðingu.
Vanda þarf skipulag fjármálamarkaðar
Í fyrsta lagi þarf að huga vel að skipulagi fjármálamarkaðar. Þannig þarf fyrirkomulag greiðslumiðlunar, greiðslukerfa og annarra undirstöðukerfa fjármálamarkaðar að vera með þeim hætti að innkoma og vöxtur nýrra og smærri fjármálafyrirtækja verði ekki hindruð af þeim sem eru fyrir á markaðnum.
Því miður höfum við dæmi um slíkar hindranir á liðinni tíð. Þannig má nefna að í kjölfar húsleita hjá greiðslukortafyrirtækjum og Fjölgreiðslumiðlun á árunum 2006 og 2007 voru fyrirtækin sektuð um rúmar 700 m.kr. fyrir það að hindra nýjan keppinaut í því að hasla sér völl á markaðnum. Þetta mál leiddi af sér víðtækar breytingar á fyrirkomulagi greiðslukortastarfsemi á Íslandi. Þá hvarf Fjölgreiðslumiðlun úr eigu fjármálafyrirtækja auk þess sem núverandi eignarhald Seðlabankans á Greiðsluveitunni, eins og fyrirtækið heitir nú, voru sett ítarleg skilyrði, sem miða eiga að því að tryggja nýjum og smærri fjármálafyrirtækjum aðgang að íslenskum fjármálamarkaði.
Þessum breytingum tengist ákvörðun sú sem ég rakti í löngu máli hér að framan og varðar Reiknistofu bankanna. Fleiri mál eru og hafa verið til meðferðar sem tengjast skipulagi greiðslukortamarkaðar.
Fylgjast þarf vel með samkeppnisháttum stóru bankanna
Í öðru lagi er mikilvægt að fylgjast vel með samkeppnisháttum stóru bankanna þriggja og setja þeim skorður í samræmi við samkeppnislög þegar við á. Í þeim samrunamálum sem ég nefndi hér áðan færði Samkeppniseftirlitið rök fyrir því að bankarnir þrír væru í sameiginlegri markaðsráðandi stöðu. Eftirlitið er nú með til rannsóknar hvort bankarnir þrír hafi misnotað hugsanlega sameiginlega markaðsráðandi stöðu með því að binda tiltekin lánakjör þeim skilyrðum að önnur fjármálaþjónusta til viðskiptamanns sé á hendi sama banka, þ.e. samtvinna mismunandi þjónustu. Niðurstaða í þessu máli er líkleg til þess að varpa nánara ljósi á það hvaða skorður bönkunum kunna að vera settar þegar kemur að samkeppni við minni keppinauta.
Setja þarf eignarhaldi bankanna á atvinnufyrirtækjum skorður
Í þriðja lagi er nauðsynlegt fyrir eðlilegar samkeppnisaðstæður á fjármálamarkaði að eignarhaldi bankanna á atvinnufyrirtækjum séu settar skorður og endurskipulagningu og sölu slíkra fyrirtæka sé hraðað eins og nokkur kostur er. Samkeppniseftirlitið hefur látið sig þessi mál mikið varða, sbr. ýmsar skýrslur sem gefnar hafa verið út um málefnið, auk fjölda ákvarðana þar sem eignarhaldi banka á fyrirtækjum hafa verið sett skilyrði. Það er augljóst að víðtæk ítök og eignarhald bankanna í atvinnulífinu er ekki heilbrigt fyrir samkeppni fjármálafyrirtækja.
Setja þarf öllu samstarfi bankanna stífar skorður
Í fjórða lagi leggur Samkeppniseftirlitið áherslu á að tryggja að ekki sé til staðar ólögmætt samstarf fjármálafyrirtækja, en slíkt samstarf skerðir eðli máls samkvæmt möguleika nýrri og smærri fyrirtækja til þess að keppa. Af þessum sökum hefur Samkeppniseftirlitið m.a. leitast við að setja hvers konar nauðsynlegu samstarfi um greiðsluvanda heimila og fyrirtækja eðlilegar skorður, þannig að samstarf sem ætlað er að koma viðskiptavinum til góða þróist ekki upp í andhverfu sína.
Draga þarf úr kostnaði og fyrirhöfn við að skipta um banka
Í fimmta lagi þurfa stjórnvöld og fjármálafyrirtæki að leggjast á eitt í því að skapa umhverfi þar sem viðskiptamanni er gert eins auðvelt og kostur er að skipta um fjármálafyrirtæki. Það er brýnt að slík skipti séu auðveld og gangi hratt fyrir sig, flutningur innlána og annarra viðskiptasamninga séu án erfiðleika og gagnsæi tryggt. Samkeppniseftirlitið hefur ítrekað mælst til þess að gripið verði til aðgerða vegna þessa. Eins og ég nefndi fyrr í ræðu minni hefur málið loks komist á rekspöl með því að stjórnvöld og viðskiptabankarnir þrír hafa nú skuldbundið sig til að draga úr aðgangshindrunum af þessu tagi.
Öll þessi viðfangsefni hafa þýðingu fyrir hagræðingu og mótun fjármálamarkaðar til framtíðar.
Lokaorð
Samkeppnin er besta vinkona hagræðingar. Það besta sem við getum gert fyrir banka framtíðarinnar er að leyfa þessum vinkonum að starfa saman í sátt og samlyndi og egna þeim ekki hvorri gegn annarri.
Og gleymum því ekki að stjórnvöld og þeir sem starfa á fjármálamarkaði ráða ekki einir för þegar kemur að mótun fjármálastarfsemi. Viðskiptavinurinn og venjur hans munu ráða þar miklu.
Páll Gunnar Pálsson
Forstjóri Samkeppniseftirlitsins