Velferð, samkeppni og beittar tennur
Pistill nr. 1/2014
Miðvikudaginn 5. febrúar sat ég áhugaverðan fund Félags atvinnurekenda um framtíðarhorfur í íslensku efnahagslífi. Yfirskriftin var; „Hlúum að viðskiptum og velferð“. Á fundinum var rætt um starfsumhverfi fyrirtækja og samkeppnismál út frá ýmsum ólíkum sjónarhornum. Sjónarhorn smærri fyrirtækja var ráðandi á fundinum, en allt of oft eru það hagsmunir stærstu fyrirtækjanna sem ráða umræðu um samkeppnismál. Þessi fundur var góð tilbreyting frá því.
Umræðan var öll á uppbyggilegum nótum og gefur fyrirheit um að áhersla atvinnulífsins á mikilvægi virkrar samkeppni sé sífellt að styrkjast. Frá hruni hefur Samkeppniseftirlitið talað fyrir því að virk samkeppni sé skilvirkasta tækið til að flýta endurreisn atvinnulífs og auka framleiðni í innlendu atvinnulífi. Átak Félags atvinnurekenda undir einkunnarorðunum „falda aflið“ byggir á sömu hugsun og er dæmi um það hvernig atvinnulífið getur skapað stjórnvöldum jákvætt aðhald.
Engin velferð án samkeppni
Einn ræðumanna, Ásdís Halla Bragadóttir, stjórnarformaður EVU og Sinnum, fjallaði um hvernig samkeppnishugsun í heilbrigðisþjónustu getur snúið margra ára vörn í sókn. Sókn sem koma mun samfélaginu öllu til góða.
Að mati Samkeppniseftirlitsins er þetta eitt brýnasta verkefnið sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir. Án samkeppnishvata í heilbrigðisþjónustu og öðrum opinberum rekstri mun okkur ekki takast að standa vörð um velferðakerfið til framtíðar. Nágrannar okkar á hinum Norðurlöndunum eru búnir að átta sig á þessu og hafa verið að innleiða samkeppnishugsun í opinberan rekstur á ýmsum sviðum. Hér á landi má ekki minnast á þetta án þess að hið hræðilega orð „einkavæðing“ gleypi alla umræðuna.
Málshraðinn og Ólafur apótekari
Annar ræðumaður, Ólafur Adolfsson apótekari, fjallaði um samkeppnislöggjöf frá sjónarhóli minni fyrirtækja. Kvartanir hans leiddu til þess að Samkeppniseftirlitið sektaði Lyf og heilsu um 130 m.kr. fyrir misnotkun á markaðsráðandi stöðu árið 2010. Hæstiréttur staðfesti að lokum brotin og 100 m.kr. sekt. Ákvörðunin (nr. 4/2010) og meðferð málsins fyrir áfrýjunarnefnd og dómstólum gefur góða mynd af þeim átökum sem eiga sér stað um samkeppnismál á Íslandi í dag.
Löng bið eftir úrlausnum Samkeppniseftirlitsins var Ólafi hugstæð. Ég deili með honum þeim áhyggjum. Við sem þar vinnum erum sífellt að leita að leiðum til að koma í veg fyrir tafir af völdum fyrirtækja sem sæta rannsókn. Einnig leitum við aðferða til að hraða málum hjá okkur að öðru leyti. Dæmi um það er að mjög mörg mál sem við höfum skoðað frá hruni hefjast á forathugun. Slík forathugun gefur okkur færi á að leggja fyrsta mat á málið og forgangsraða því áður en lengri málsmeðferð hefst. Í mörgum tilvikum enda mál eftir forathugun með tilmælum eða viðvörunum til fyrirtækja sem kvartað er yfir.
Barnið og brunnurinn
Við í Samkeppniseftirlitinu deilum líka áhuga á fyrirbyggjandi leiðbeiningum með iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Ragnheiður Elín Árnadóttir vék að þessu hlutverki Samkeppniseftirlitsins í sínu ávarpi. Eftirlitið hefur síðustu ár lagt sig eftir þessu með ýmsum hætti. Heimasíðan, fésbókin, tvítið, ráðstefnur, leiðbeiningarfundir og stuttmyndagerð eru dæmi um þetta. Síðustu mánuði hefur Samkeppniseftirlitið boðið stjórnendum fyrirtækja á námskeið um bannreglur samkeppnislaga. Ákvarðanir og álit fela líka í sér mikla leiðbeiningu. En betur má ef duga skal og á næstunni mun eftirlitið setja fram aðgerðaráætlun um þetta.
Að ausa Atlantshafið
Vandinn er sá að aðgerðir á þessu sviði líkjast pínulítið því að ausa Atlantshafið, einkum þegar horft er til fjárveitinga í málaflokkinn. Mér er til efs að margir geri sér grein fyrir því hversu mikil eftirspurn er eftir afnámi samkeppnishindrana á Íslandi í dag. Þess vegna munum við, þessar 24 manneskjur sem störfum í Samkeppniseftirlitinu, aldrei standa undir ýtrustu væntingum ykkar hinna, þótt ýmsu verði komið í verk. Verkefnið er einfaldlega það stórt í samanburði við fjárveitingarnar.
Beittar tennur
Umræðan á vettvangi Félags atvinnurekenda gefur vonir um að samtök í atvinnulífinu, Samkeppniseftirlitið og önnur stjórnvöld geti tekið höndum saman með það að markmiði að efla samkeppni á Íslandi. Þar geta allir lagt hönd á plóg. Samtök í atvinnulífinu geta skapað aga á sínum vettvangi með því að líða ekki samkeppnislagabrot í sínum röðum og stjórnvöld geta innleitt hugarfar samkeppni sín á meðal.
Og Samkeppniseftirlitið á að vera fljótt, leiðbeinandi og vel tennt. Mikilvægasta skylda þess er að skapa varnaðaráhrif með því að uppræta brot fyrirtækja og hindranir opinberra aðila með sektum og annarri íhlutun. Brot á samkeppnislögum er m.a. aðferð fyrirtækja til þess að koma tjóni hrunsins yfir á viðskiptavini sína og þar með neytendur. Við megum aldrei falla í þá gryfju að sýna slíkri rányrkju skilning eða linkind. Hrunið kenndi okkur öllum að eftirlitsstofnanir eiga að hafa beittar tennur og nota þær. Annars hlustar enginn og allt fellur í sama farið.
Páll Gunnar Pálsson
forstjóri Samkeppniseftirlitsins
[Pistill þessi er birtur sem grein í Morgunblaðinu þann 7. febrúar 2014.]