Er erfitt að fara að samkeppnislögum?
Pistill nr. 5/2014
Í umræðu um samkeppnismál er því oft haldið á lofti að samkeppnislög séu torskilin og að erfitt sé fyrir fyrirtæki að fara að lögunum. Heiðrún Lind Marteinsdóttir, lögmaður á LEX lögmannsstofu, slær þennan tón í grein í Morgunblaðinu þann 23. október sl.
Af greininni má helst ráða að bann laganna við misnotkun á markaðsráðandi stöðu sé óskiljanlegt og að samkeppnisyfirvöld þverskallist við að leiðbeina fyrirtækjum.
En er svona flókið að fara að þeim reglum sem gilt hafa hér á landi og víðast hvar erlendis um langa hríð? Til svars við því ætla ég að reifa hér nokkur kjarnaatriði sem hafa þarf í huga ef forðast á misnotkun á markaðsráðandi stöðu.
Á hvaða markaði starfar fyrirtækið?
Allir stjórnendur vita hvaða vöru eða þjónustu fyrirtæki þeirra býður. Þeir vita líka nokkurn veginn við hvaða vöru eða þjónustu þeir eru að keppa.
Þá hafa stjórnendur einnig tilfinningu fyrir því á hvaða landsvæði fyrirtækið keppir. Algengt er að markaðurinn spanni Ísland, en hann nær sjaldan út fyrir landsteinana. Á neytendamörkuðum, eins og t.d. dagvörumarkaði, má oft gera ráð fyrir því að markaðurinn sé þrengra svæði, t.d. byggðarlag.
Hér geta vissulega komið upp álitaefni, sem leysa þyrfti endanlega úr fyrir dómstólum. Ef fyrirtæki er í vafa er skynsamlegt að gefa sér varfærnari kostinn, þ.e. að markaðurinn sé þrengri fremur en víðari.
Er fyrirtækið markaðsráðandi?
Við mat á því hvort fyrirtæki er markaðsráðandi skiptir markaðshlutdeild miklu máli. Enda þótt fyrirtæki hafi ekki alltaf aðgang að nákvæmum upplýsingum um þetta geta þau oft stuðst við opinberar tölur. Flest fyrirtæki eiga því auðvelt með að áætla hlutdeildina á ákveðnu bili.
Ef markaðshlutdeild er undir 30% er markaðsráðandi staða mjög ólíkleg. Ef hún er yfir 50% er markaðsráðandi staða hins vegar líkleg. Á gráa svæðinu, þ.e. 30-50%, þarf sérstaklega að huga að fleiri atriðum, s.s. fjárhagslegum styrkleika samanborið við keppinautana og hvort fyrirtækið njóti sterkrar stöðu á tengdum mörkuðum.
Er fyrirtækið að misnota markaðsráðandi stöðu sína?
Það er ekkert rangt við það að fyrirtæki sé markaðsráðandi. Það leggur hins vegar ákveðnar varfærnisskyldur á fyrirtækið og stjórnendur þess. Markaðsráðandi fyrirtæki má mæta samkeppni, en ekki útrýma henni. Fyrirtækið á að keppa á grundvelli rekstrarlegrar frammistöðu, en má ekki leggja í fórnarkostnað til að koma smærri keppinauti illa.
Fjölmargar úrlausnir samkeppnisyfirvalda og dómstóla sýna að markaðsráðandi fyrirtæki ættu t.d. að forðast að verðleggja vöru undir kostnaðarverði, mismuna viðskiptavinum eða binda þá í viðskipti til lengri tíma með tryggðarhvetjandi samningum eða afsláttum.
Stjórnandi öflugs fyrirtækis er alltaf á villigötum ef hann grípur til aðgerða sem hann sjálfur telur að geti orðið minni keppinauti að falli. Í fyrri ákvörðunum Samkeppniseftirlitsins má finna allt of mörg tilvik þar sem gögn sýna að stjórnendum fyrirtækja var kunnugt um hina markaðsráðandi stöðu, en settu samt fram áætlanir um hvað þyrfti til svo skaða mætti keppinaut. Og framkvæmdu áætlanirnar.
Stór bíll eða lítill?
Líkingin við stóra bílinn á hér vel við. Bílstjórar vöruflutningabifreiða bera t.d. ríka ábyrgð í umferðinni, sem m.a. sést af því að þeir þurfa að hafa sérstök réttindi til aksturs.
Í umferðinni er tiltekinn hámarkshraði, en jafnframt gildir sú matskennda regla að „ökuhraða skal jafnan miða við aðstæður með sérstöku tilliti til öryggis annarra“.
Vöruflutningabílstjóri sem keyrir niður Kambana á leyfilegum hámarkshraða í þoku og fljúgandi hálku, án tillits til stærðar bílsins, stefnir að líkindum öðrum vegfarendum í stórkostlega hættu. Ekki síst smærri bifreiðum sem koma úr gagnstæðri átt. Með því brýtur hann gegn hinni matskenndu varfærnisreglu umferðarlaga og getur sætt viðurlögum hljótist tjón af.
Á sama hátt ber markaðsráðandi fyrirtæki sérstaka ábyrgð og þarf að axla hana.
Gleymum ekki hagsmunum almennings
Hér á landi og erlendis hafa dómstólar ítrekað staðfest að bannið við misnotkun á markaðsráðandi stöðu sé nógu skýrt til að beita fyrirtæki viðurlögum. Hafa ber í huga að á þeim tíma sem bannið hefur gilt hefur mörgum álitaefnum um beitingu þess verið svarað af áfrýjunarnefnd samkeppnismála og dómstólum.
Í umræðu um samkeppnismál má ekki gleyma að samkeppnisreglur eru settar vegna þess að reynslan sýnir að fyrirtæki geta skaðað almannahagsmuni með háttsemi sinni. Samráð fyrirtækja eða misnotkun á markaðsráðandi stöðu leiðir til þess að viðskiptavinir og neytendur skaðast og keppinautar hrökklast út af markaði.
Reynslan sýnir líka að stjórnendur smærri fyrirtækja eru mjög meðvitaðir um inntak samkeppnislaga. Það sýna fjölmargar kvartanir sem Samkeppniseftirlitinu berast.
Það er því mikilvægt fyrir samfélagið að stjórnendur markaðsráðandi fyrirtækja virði reglurnar. Og þegar álitaefni koma upp er Samkeppniseftirlitið boðið og búið að leiðbeina um inntak samkeppnislaga. Um það ætla ég að fjalla í annarri grein innan tíðar.