13.2.2015 Páll Gunnar Pálsson

Samkeppni er lausn, ekki vandi

Pistill nr. 2/2015

Í Viðskiptablaðinu í síðustu viku er að finna athyglisverða grein eftir Bergþóru Halldórsdóttur, lögfræðing hjá Samtökum atvinnulífsins. Í greininni, sem ber yfirskriftina „Samkeppni og óhagkvæmni smæðarinnar“ er réttilega bent á að íslenskt rekstrarumhverfi stendur frammi fyrir ýmsum erfiðum áskorunum vegna smæðar sinnar.

Af greininni verður hins vegar ekki betur séð en að höfundur telji að í þessu efni séu samkeppnislögin og beiting þeirra hluti af vandanum. Þannig er í greininni t.d. látið að því liggja að samkeppnislöggjöf og eftirlit á grundvelli hennar sé framkvæmt án tillits til aðstæðna hér á landi. Umfjöllun um séríslenskar aðstæður hafi vikið fyrir hálfgerðri ein-stærð-passar-öllum lausn. Ómögulegt er að fallast á þessa túlkun.

Sambærilegt eftirlit – aukin samkeppnishæfni

Það er rétt að íslensk samkeppnislög hafa í meginatriðum að geyma sömu efnisreglur og í öðrum löndum Evrópu. Í samkeppnislögunum er þannig að finna bann við ólögmætu samráði og misnotkun á markaðsráðandi stöðu og heimild til íhlutunar vegna samruna fyrirtækja sem skaða samkeppni. Sömu efnisreglur eru einnig á meðal kjarnareglna EES-samningsins.

Um þessar efnisreglur getur varla verið neinn ágreiningur. Við sem samfélag getum ekki liðið að fyrirtæki brjóti gegn viðskiptavinum sínum og neytendum með því að viðhafa ólögmætt samráð eða misnota markaðsráðandi stöðu. Og við getum heldur ekki horft í hina áttina þegar við blasir að samrunar fyrirtækja skaði hagsmuni samfélagsins.

Það er líka rétt að mat á grundvelli samkeppnislaga hér á landi byggir á sambærilegum aðferðum og annars staðar í Evrópu. Í úrlausnum sínum horfir Samkeppniseftirlitið oft til fordæma erlendis frá, eins og ákvarðanir þess bera með sér.

Þetta tvennt, sambærilegar samkeppnisreglur og sambærilegar aðferðir við eftirlit, hefur mikla þýðingu fyrir samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Þetta er ein meginforsenda þess að ný fyrirtæki treysti sér til að hefja starfsemi hér á landi og jafnframt forsenda þess að okkur takist að laða að fjárfestingu og m.a. bæta lánshæfi á erlendum mörkuðum.

Niðurstöður miðast við aðstæður hér á landi

Það er hins vegar mikill misskilningur að halda því fram að samkeppnislögin séu framkvæmd án tillits til aðstæðna hér á landi. Það liggur einmitt í eðli og efni þeirra ákvæða sem ég nefndi hér að ofan að matið á grundvelli þeirra byggir á aðstæðum í hverju máli.

Þegar heimasíða Samkeppniseftirlitsins er skoðuð kemur í ljós að eftirlitið horfir í úrlausnum sínum til séraðstæðna okkar litla samfélags. Í mörgum tilvikum hafa samkeppnisyfirvöld t.d. heimilað samstarf fyrirtækja, sem ella teldist ólögmætt, í því skyni að skapa svigrúm fyrir stærðarhagkvæmni eða leysa úr ýmsum öðrum brýnum úrlausnarefnum. Við mat á þessu er horft til aðstæðna í viðkomandi tilviki á grundvelli viðurkenndra aðferða.

Jafnvægið milli samkeppni og stærðarhagkvæmni

Í tillögum verkefnisstjórnar samráðsvettvangs stjórnvalda og atvinnulífs um aukna hagsæld, sem birtar voru í maí 2013, er fjallað sérstaklega um samspil samkeppni og stærðarhagkvæmni (sjá www.samradsvettvangur.is ). Þar er bent á mikilvægi stærðarhagkvæmni til þess að auka framleiðni efnahagslífsins. Vegna smæðar markaða eigi fyrirtæki oft erfitt með að nýta stærðarhagkvæmni. Hins vegar sé samkeppni veigamesti einstaki þátturinn til að stuðla að aukinni framleiðni. Samkeppni dragi úr sóun og leiði til minni framleiðslukostnaðar. Til að stuðla að hámarks framleiðni þurfi að finna rétt jafnvægi milli samkeppni og stærðarhagkvæmni. Verkefnisstjórnin bendir sérstaklega á að ábati neytenda af stærðarhagkvæmni aukist ekki nema stærðarhagkvæmninni fylgi samkeppni.

Samkeppniseftirlitið hefur haft sömu hugsun að leiðarljósi í úrlausnum sínum. Dæmi um það er ákvörðun nr. 14/2012, Undanþágubeiðni vegna starfsemi Reiknistofu bankanna hf. og samruni við Teris. Með sérstakri sátt við aðila málsins skuldbundu þeir sig til að hlíta tilteknum reglum, sem ætlað er að veita fjármálafyrirtækjum svigrúm til að nýta stærðarhagkvæmni í upplýsingatækni. Samhliða því er leitast við að tryggja samkeppnislegt aðhald á viðkomandi mörkuðum í því skyni að tryggja að stærðarhagkvæmnin nýtist öllum, ekki bara eigendum Reiknistofunnar.

Lokaorð

Það dylst engum að við stöndum frammi fyrir ýmsum áskorunum vegna smæðar hagkerfisins. Í því efni eru samkeppnislögin og framkvæmd þeirra hluti af lausninni, ekki vandanum.

Það að víkja samkeppnislögum til hliðar eða horfa í gegnum nögl sér við framkvæmd þeirra er oft liður í verndarstefnu, sem skaðar efnahag og íbúa viðkomandi landa.

Almenn og alþjóðleg samstaða er um það að efling samkeppni sé ódýrasta og einfaldasta aðferð sem þjóðum stendur til boða til þess að auka framleiðni. Áherslur Samkeppniseftirlitsins nú um stundir beinast einkum að því að nýta samkeppnislögin til að auka framleiðni í innlenda þjónustugeiranum (e. domestic services), en framleiðni í þeim geira stendur verr en t.d. á hinum Norðurlöndunum.

[Pistill þessi var birtur sem grein í Viðskiptablaðinu þann 12. febrúar 2015.]