Sektir vegna samkeppnislagabrota vernda samkeppnina
Pistill nr. 3/2015
Ari Edwald skrifaði grein í Viðskiptablaðið fyrir tveimur vikum undir heitinu „Samkeppnissektir sem hlutfall af veltu“. Heldur hann því fram að viðurlög við samkeppnislagabrotum séu mun þyngri hér á landi en annars staðar, ef miðað er við sama hlutfall af veltu. Þetta rekur hann m.a. til þess að afkoma af íslenskum atvinnurreksti í heild sé af ýmsum kerfislægum ástæðum mun lakari en í þeim löndum sem við berum okkur saman við.
Næg varnaðaráhrif?
Við mat á sektum verður að hafa í huga að tilgangur þeirra er að skapa varnaðaráhrif sem stuðla að því að samkeppnislögum sé fylgt og auka þar með samkeppni, almenningi og atvinnulífi til hagsbóta. Við ákvörðun sekta ber samkvæmt lögunum að hafa hliðsjón af eðli og umfangi brotanna og hvað þau hafa staðið lengi. Einnig skal horfa til þess hvort um ítrekað brot sé að ræða. Það eru þessi atriði sem öðru fremur ráða fjárhæð sekta.
Í samkeppnislögum er kveðið á um að sektir geti hæst numið 10% af veltu næstliðins árs. Þetta viðmið er að öðru leyti ekki ákvarðandi um fjárhæð sekta, heldur þjónar það fyrst og fremst þeim tilgangi að tryggja að ekki séu lagðar sektir á fyrirtæki sem þau geta almennt ekki staðið undir.
Íslensk samkeppnisyfirvöld hafa almennt haldið sig mjög langt undir lögbundnum hámarks veltumörkum við ákvörðun viðurlaga vegna samkeppnislagabrota. Fyrir það hafa þau einmitt sætt nokkurri gagnrýni. Þannig hafa ýmsir sem telja sig hafa orðið fyrir tjóni af brotum gagnrýnt Samkeppniseftirlitið fyrir að beita ekki nógu háum sektum. Nefnt hefur verið að oft sé sektin miklu lægri en ávinningur hinna brotlegu af brotunum. Varnaðaráhrifin séu ekki nægileg.
Hver er reynslan?
Þessir gagnrýnendur kunna að hafa eitthvað til síns máls. Af 16 fyrirtækjum sem sektuð hafa verið fyrir brot á bannákvæðum samkeppnislaga frá árinu 2011, er um ítrekuð brot að ræða hjá 6 fyrirtækjum, eða í rúmlega þriðjungi tilvika.
Þetta þýðir með öðrum orðum að fyrirtæki hafa ekki látið sér segjast í allt of mörgum tilvikum, þrátt fyrir beitingu samkeppnislaga og þau varnaðaráhrif sem sektir á fyrirtæki eiga að hafa.
Lausnin blasir við
Ýmsar leiðir eru færar til að bregðast við þessari reynslu. Til dæmis má styrkja varnaðaráhrif með hærri stjórnvaldssektum. Ýmis lönd hafa einnig heimilað samkeppnisyfirvöldum að krefjast þess fyrir dómstólum að stjórnendum brotlegra fyrirtækja sé bannað að stýra fyrirtækjum í tiltekinn tíma. Fá lönd hafa hins vegar farið þá leið að beina refsingum einvörðungu að stjórnendum fyrirtækja. Stjórnvaldssektir gagnvart fyrirtækjum eru enn taldar áhrifarík aðferð til að taka á samkeppnislagabrotum og skapa varnaðaráhrif.
Viðurkennt er að brot á samkeppnislögum geta verið sérstaklega skaðleg í litlu hagkerfi. Þau draga úr samkeppnishæfni fyrirtækja og valda neytendum tjóni. Í stað þess að hafa áhyggjur af því hvort sektir samkeppnisyfirvalda leggist þyngra á fyrirtæki hér á landi en annars staðar, ættu fyrirtæki einfaldlega að kappkosta að fara að samkeppnislögum, almenningi og atvinnulífi til hagsbóta. Með því væri vandinn leystur.