Nokkrar tölur um meðferð samrunamála
Pistill nr. 1/2016
Sonja Bjarnadóttir, sviðsstjóri samrunamála hjá Samkeppniseftirlitinu skrifar:
Stundum er gagnrýnt að meðferð samrunamála hjá Samkeppniseftirlitinu taki óþarflega langan tíma. Í því ljósi er gagnlegt að skoða nokkrar tölur um meðferð samrunamála, sem eru upplýsandi um þetta.
Almennt er lagt til grundvallar að virk samkeppni sé afar æskileg þar sem hún auki velferð neytenda og stuðli að hagkvæmni í atvinnulífinu. Samrunareglur samkeppnislaga gegna þannig mikilvægu hlutverki við að koma í veg fyrir að samkeppnislegri gerð markaða sé breytt, með samruna eða yfirtöku, á þann hátt að samkeppni hverfi eða skerðist.
Málsmeðferð samrunamála
Í samkeppnislögum eru settar fram ítarlegar reglur um málsmeðferð og málsmeðferðartíma í samrunamálum. Þannig hefur löggjafinn sett slíkum málum skýran ramma og þröng tímamörk. Réttur samrunaaðila til að fá greiða úrlausn sinna mála er því mun meiri en almennt tíðkast í hefðbundnum stjórnsýslumálum. Við vinnslu samrunamála er Samkeppniseftirlitið jafnframt eðli máls samkvæmt bundið af ákvæðum stjórnsýslulaga, svo sem að taka ákvörðun í stjórnsýslumálum svo fljótt sem unnt er og að málið sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Auk þess mega ákvarðanir ekki vera meira íþyngjandi en þörf er á. Má því í reynd segja að miklar kröfur séu gerðar til málsmeðferðar í samrunamálum.
Samkeppniseftirlitið hefur 25 virka daga til fyrstu athugunar á samkeppnislegum áhrifum samruna eftir að tilkynnt hefur verið um hann með fullnægjandi hætti (fasi I). Frá byrjun árs 2012 hefur eftirlitið haft 106 samrunamál til meðferðar. Af þeim lauk 45% málanna á fasa I. Við móttöku samrunatilkynningar eru fyrstu skref eftirlitsins að yfirfara viðkomandi tilkynningu og sé hún ekki fullnægjandi byrja frestir samkeppnislaga ekki að líða. Þegar fullnægjandi tilkynning hefur borist hefst rannsókn málsins og eftir atvikum frekari gagnaöflun. Í flestum samrunamálum þarf að kalla eftir frekari gögnum sem nauðsynleg geta talist við mat á áhrifum samruna, s.s. frá keppinautum, enda hafa samrunaaðilar eðli máls samkvæmt ekki yfir að ráða slíkum upplýsingum.
Mál ekki færð á fasa II af ástæðulausu
Telji Samkeppniseftirlitið ástæðu til frekari rannsóknar á samkeppnislegum áhrifum samruna að liðnum fasa I hefur það heimild til þess að færa málið á fasa II og hefur þá 70 virka daga til viðbótar til þess að taka ákvörðun um það hvort ógilda skuli samrunann eða setja honum skilyrði. Athugun á fasa I þarf því að hafa leitt í ljós að færa þurfi málið á fasa II. Við mat á því hvort tilefni sé til frekari rannsóknar notast Samkeppniseftirlitið meðal annars við leiðbeiningarreglur framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Rúmlega helmingur samrunamála sem voru til meðferðar frá 2012 til dagsins í dag hafa verið færð á fasa II. Þrátt fyrir að fyrir liggi að vinnsla mála af þessu tagi sé með líkum hætti og tíðkast í nágrannalöndum má gera ráð fyrir að fasi II sé virkjaður í hlutfallslega fleiri samrunamálum í löndum þar sem mikil fákeppni ríkir, líkt og hér á landi, samanborið við stærri efnahagssvæði þar sem minni samþjöppun er á mörkuðum. Á fasa II fer fram frekari gagnaöflun, úrvinnsla og greining. Eðli máls samkvæmt tekur þessi vinna mislangan tíma, s.s. eftir umfangi máls og fjölda aðila sem afla þarf gagna frá o.s.frv.
Af þeim málum sem færð eru á fasa II leiðir rannsókn Samkeppniseftirlitsins til íhlutunar í formi skilyrða eða ógildingar í 46% tilvika. Af þessu hlutfalli má ráða að mikilsverðir almannahagsmunir búa almennt að baki því að mál séu færð á fasa II.
Styttri tilkynningar klárist á fasa I
Heimilt er að skila inn styttri tilkynningu ef uppfyllt eru tiltekin skilyrði svo sem ef markaðir þar sem áhrifa samrunans gætir eru ekki tengdir eða markaðshlutdeild samrunaaðila er minni en 20% á viðkomandi markaði. Hefur Samkeppniseftirlitið þannig skipt samrunamálum í vinnslu eftir því hvort um lengri eða styttri tilkynningar er að ræða. Af þeim 106 málum sem hafa verið til meðferðar frá byrjun árs 2012 hafa 70 samrunar verið tilkynntir með styttri tilkynningu og 36 með lengri.
Í báðum tilvikum þarf að rannsaka hvort samruninn leiði til þess að virk samkeppni sé hindruð, en í styttri tilkynningunum er oft um minni samruna að ræða sem þurfa ekki jafn ítarlegrar rannsóknar við og því líklegra að unnt sé að ljúka þeim á fyrsta fasa. Hefur þannig rúmlega 60% styttri tilkynninga lokið á fasa I. Af þeim 27 samrunamálum þar sem skilað hefur verið inn styttri tilkynningu og málið verið fært á fasa II, hefur verið gripið til íhlutunar í tæplega 40% mála. Þá hefur verið gripið til íhlutunar í um 60% þeirra mála sem tilkynnt hafa verið með lengri tilkynningu og verið færð á fasa II. Aftur er þessi tölfræði til stuðnings því að samrunamál séu ekki færð á II. fasa að ástæðulausu.
Samkeppniseftirlitið keppir sífellt að því að gera úrlausn samrunamála eins skilvirka og kostur er miðað við það rekstrarsvigrúm sem það hefur. Í því skyni reynir eftirlitið að læra af reynslunni og fylgist með tölfræði af því tagi sem hér er rakin. Allar málefnalegar ábendingar um vinnslu þessara mála eru því hér eftir sem hingað til velkomnar.
Þessi pistill birtist einnig í Kjarnanum. Sjá nánar um samrunamál hér.