Til hvers eru markaðsrannsóknir Samkeppniseftirlitsins?
Pistill 3/2016
Þann 20. september stóð Samkeppniseftirlitið fyrir opnum fundi um samkeppnisaðstæður á íslenska eldsneytismarkaðnum. Fundurinn var liður í svokallaðri markaðsrannsókn sem nú stendur yfir, en með honum er kallað eftir umræðu um eldsneytismarkaðinn, hvað megi betur fara og hvort eða hvaða úrræði séu í boði.
Til grundvallar umræðunni liggur annars vegar frummat Samkeppniseftirlitsins sem birt var í sérstakri frummatsskýrslu í desember á síðasta ári. Hins vegar byggir umræðan á sjónarmiðum hagsmunaaðila sem aflað var í framhaldi af útgáfu skýrslunnar.
Fundurinn var vel sóttur og spunnust á honum gagnlegar umræður. Á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins er hægt að nálgast upptökur af fundinum, myndbönd sem sýnd voru á fundinum, frummatsskýrsluna sjálfa, sjónarmið sem borist hafa og annað ítarefni.
Til þess að markaðir virki sem best fyrir samfélagið
Markaðsrannsóknin á eldsneytismarkaðnum er sú fyrsta sem Samkeppniseftirlitið framkvæmir, en hún byggir á nýlegri lagaheimild. Lagaheimildin gerir Samkeppniseftirlitinu kleift að grípa til aðgerða gegn aðstæðum eða háttsemi sem kemur í veg fyrir, takmarkar eða raskar samkeppni, jafnvel þótt fyrirtækin sem starfa á markaðnum hafi ekki orðið uppvís að lagabrotum.
Þetta úrræði er mikilvægt, því augljóst er að samkeppnishindranir geta stafað af margs konar aðstæðum á markaði, öðrum en lögbrotum. Ýmsar aðstæður sem tengjast eiginleikum viðkomandi markaðar, skipulagi hans eða uppbyggingu fyrirtækja, geta hindrað samkeppni og þar með skaðað skilvirkni á markaðnum og hagsmuni samfélagsins.
Með lagaheimildinni setti löggjafinn hagsmuni almennings í forgrunn. Almenningur eigi rétt á því að markaðir virki sem best fyrir samfélagið.