Samkeppni í matvælaframleiðslu styður við fæðuöryggi þróaðra landa
Pistill nr. 6/2021
Samkeppni í matvælaframleiðslu styður við fæðuöryggi þróaðra landa
Í grein Ernu Bjarnadóttur, hagfræðings og verkefnastjóra hjá Mjólkursamsölunni, á vef Fréttablaðsins 19. mars sl. sem rituð er í tilefni af grein sem birtist eftir undirritaðan í Fréttablaðinu 17. mars sl., gagnrýnir hún helst tvö atriði.
Í fyrsta lagi að tilvísun í skýrslu á vegum Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2016 hafi verið villandi þar sem ekki hafi verið tekið fram að hún hafi verið rituð af Steve McCorriston, prófessor við Exeter, í ritröð á vegum Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2016, Competition and food security. Það skal tekið fram að undirritaður hefur þegar uppfært upphaflegu greinina til þess að engin velkist í vafa um til hvaða heimildar er vísað til.
Í annan stað gagnrýnir Erna að þær reynslurannsóknir sem vísað sé til í framangreindri skýrslu byggi á rannsóknum í þróunarlöndum og því sé „Engin ástæða er til að ætla að niðurstaða [Steve McCorriston, prófessor við Exeter], svo langt sem hún nær, eigi við um hinn mjög svo iðnvædda landbúnað vesturlanda.” Það er rétt að í umfjöllun prófessorsins er að mestu vísað í reynslurannsóknir sem framkvæmdar hafa verið í þróunarlöndum enda er í skýrslunni lögð áhersla á að vandamál tengd samkeppni eigi ekki síður við í vanþróuðum ríkjum en í þróuðum ríkjum sbr. : „Despite the recent focus of much research on competition in food markets in developed countries, arguably there is reason to suggest that concerns about competition in the food sector are likely to be more prevalent in developing countries.“
Hér er einnig tækifæri til þess að greina frá tveimur nýlegum fræðigreinum sem rannsaka samspil samkeppni og fæðuöryggis í hinum iðnvædda vestræna heimi. Önnur þeirra byggir eingöngu á gögnum frá 41 Evrópulandi á meðan hin nýtir gögn frá 151 þróuðum og vanþróuðum ríkjum. Í stuttu máli er niðurstaða fræðimannanna sú að aukin samkeppni leiði til aukins fæðuöryggis.
Í grein Fusco, Coluccia og De Leo (2020), Effect of Trade Openness on Food Security in the EU: A Dynamic Panel Analysis, sem birtist í International Journal of Environmental Research and Public Health, nýta höfundar gögn frá 41 Evrópulandi til þess að meta áhrif þess á fæðuöryggi hversu opin viðkomandi hagkerfi eru. Niðurstaða höfunda er sú að opnun markaða (e. commercial opening) hafi, að meðaltali, tölfræðilega marktæk jákvæð áhrif á fæðuöryggi. Til viðbótar benda niðurstöðurnar til þess að þróunarstig hagkerfa, ásamt mikilvægi landbúnaðarins, geti stuðlað að auknu fæðuöryggi. Í grein Dithmer og Abdulai (2017), Does trade openness contribute to food security? A dynamic panel analysis, sem birtist í Food Policy, rannsaka höfundar einnig áhrif þess á fæðuöryggi hversu opin viðkomandi hagkerfi eru fyrir viðskiptum (e. trade openness) með því að greina langsniðsgögn 151 lands fyrir árin 1980-2007. Niðurstaða höfunda er sú opnun hagkerfa fyrir viðskiptum hafi tölfræðilega marktæk jákvæð áhrif á fæðuöryggi auk þess sem hagvöxtur og framleiðniaukning í landbúnaði auki fæðuöryggi.
Jafnframt gagnrýnir Erna undirritaðan fyrir að hafa ekki fjallað um landbúnaðarstefnu ESB og Noregs og fæðuöryggi auk þess sem hún leggur til annað niðurlag í greininni. Samkeppniseftirlitið hefur í öðrum greinaskrifum fjallað um þetta og m.a. bent á að undanþágur frá samkeppnislögum í Noregi og ESB ganga miklu skemur en þær undanþágur sem gilda hér á landi í mjólkuriðnaði. Í þessum löndum er lögð áhersla á mikilvægi samkeppni til þess að standa vörð um hagsmuni bænda og neytenda.
Valur Þráinsson, aðalhagfræðingur Samkeppniseftirlitsins
Pistillinn birtist á vef Fréttablaðsins 24. mars 2021
Smella má á greinina hér