Samkeppniseftirlit og samrunar
Pistill nr. 2/2018
Um þessar mundir er talsvert fjallað um samkeppni og samkeppnisaðstæður í íslensku atvinnulífi. Í þeirri umræðu fá langmest vægi sjónarmið þeirra aðila í atvinnulífinu sem telja að samkeppnislögin og framkvæmd laganna þrengi um of að starfsemi sinni. Að undanförnu hefur þessi umræða ekki síst tengst samrunum fyrirtækja.
Í þessu sambandi hefur verið haft á orði að Samkeppniseftirlitið skynji ekki þær breytingar sem séu að verða á ýmsum sviðum atvinnulífsins, taki ekki nægilegt mið af mikilvægi hagræðingar í tengslum við samruna, eftirlitið sé ósveigjanlegt, veiti ekki nægar leiðbeiningar og meðferð samrunamála taki of langan tíma. Sum þessara kvörtunarefna voru gerð að umtalsefni í leiðara Viðskiptablaðsins í síðustu viku.
Af þessu tilefni, og í þágu upplýstrar umræðu um samkeppnismál, er ástæða til að reifa í stuttu máli meðferð samrunamála hjá Samkeppniseftirlitinu.
Rannsókn tekur mið af eðli samrunans
Langflestir samrunar ná fram að ganga án athugasemda Samkeppniseftirlitsins og hljóta skjóta afgreiðslu. Tæplega 70% samruna eru tilkynntir með svokallaðri styttri tilkynningu. Þetta form tilkynningar á t.d. við þegar fyrirtækin sem eru að renna saman starfa á ótengdum mörkuðum eða aðrar aðstæður samrunans gera það ólíklegra en ella að samruninn feli í sér samkeppnishindranir.
Samruni þarfnast að jafnaði nánari skoðunar þegar hlutaðeigandi fyrirtæki starfa á sama markaði eða tengdum mörkuðum, hafa sterka stöðu á markaði eða samþjöppun er mikil. Þegar um er að ræða markaði sem eru mikilvægir fyrir almenning eða efnahagslíf er sérstök ástæða til að gaumgæfa áhrif samruna.
Að ýmsu er að hyggja þegar afstaða er tekin til samruna: Á hvaða markaði hefur samruninn áhrif? Er markaðurinn að breytast, t.d. vegna tækniþróunar? Hver er staða samrunafyrirtækjanna á markaði? Eru fyrirtækin mikilvægir keppinautar? Er markaðsráðandi staða að myndast eða styrkjast? Hvaða áhrif hefur samruninn á samkeppni að öðru leyti?
Oft er samrunum ætlað að leiða til hagræðingar og aukinnar stærðarhagkvæmni. Gefst samrunaðilum þá kostur á að sýna fram á að áformin séu raunhæf og að viðskiptavinir, þ. á m. neytendur, muni njóta ábatans af hagræðingunni.
Fótfesta í erlendu samstarfi
Við mat á samrunum býr Samkeppniseftirlitið að því að vera þátttakandi í neti erlendra samkeppniseftirlita sem standa frammi fyrir sambærilegum áskorunum, starfa saman og læra hvert af öðru.
Við vinnslu og meðferð mála byggir Samkeppniseftirlitið ályktanir sínar m.a. á leiðbeiningum sem gefnar hafa verið út á Evrópska efnahagssvæðinu og aðgengilegar eru fyrirtækjum hér á landi. Sömuleiðis byggir eftirlitið á fordæmum úr innlendri sem og evrópskri réttarframkvæmd.
Fyrst og síðast byggir Samkeppniseftirlitið ályktanir sínar á bestu fáanlegu upplýsingum um markaði og samkeppnisaðstæður á þeim. Er þessara upplýsinga m.a. aflað frá keppinautum og öðrum sem starfa og eiga viðskipti á viðkomandi mörkuðum.
Framvinda rannsóknar ræðst einkum af afstöðu samrunaaðila
Samrunaaðilar ráða miklu um það hvernig rannsókn Samkeppniseftirlitsins vindur fram. Það auðveldar meðferð máls ef þeir hafa lagt raunsætt mat á áhrif samrunans og komið auga á leiðir til að fyrirbyggja mögulega samkeppnisröskun. Ítarlegar og réttar upplýsingar sem lagðar eru fram í upphafi máls flýta rannsókninni.
Þegar undirbúningur samrunaaðila er góður getur oft komist á uppbyggilegt samtal milli þeirra og Samkeppniseftirlitsins um áhrif samrunans og e.a. mögulegar aðgerðir til þess að koma í veg fyrir skaða sem af honum getur hlotist.
Sé það frummat Samkeppniseftirlitsins að samruni sé samkeppnishamlandi, birtir eftirlitið aðilum samrunans frummat sitt, svokallað andmælaskjal, þar sem forsendum frummatsins er lýst ítarlega og aðilum gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Þannig er samrunafyrirtækjum veittur ríkari andmælaréttur en leiðir af stjórnsýslulögum.
Á öllum stigum máls eiga samrunaaðilar þess kost að óska eftir viðræðum um sátt í málinu. Í sáttarviðræðum er mikilvægt að fyrirtækin sjálf leggi fram tillögur um aðgerðir sem sátt getur grundvallast á. Ástæðan er sú að hlutaðeigandi fyrirtæki eru best til þess fallin að meta hvaða aðgerðir samræmast markmiðum samrunans.
Samkeppniseftirlitið mælir hins vegar gegn því að gengið sé til sáttarviðræðna ef samrunaaðilar eru í grundvallaratriðum ósammála því að samruninn raski samkeppni. Í slíkum tilvikum er hyggilegra að samrunaaðilar haldi fram sjónarmiðum sínum og láti reyna á endanlega ákvörðun Samkeppniseftirlitsins fyrir áfrýjunarnefnd og dómstólum, geti þeir ekki fellt sig við hana.
Miklir hagsmunir fyrir neytendur og samfélagið
Um leið og skynsamlegir vel útfærðir samrunar geta leitt til ábata fyrir samfélagið, geta samkeppnishamlandi samrunar haft alvarlegar og óafturkræfar afleiðingar. Birtast þær t.d. í minni nýsköpun, minna vöruúrvali eða hærra verði, sem bitnar á neytendum og samkeppnishæfni viðkomandi fyrirtækja.
Í sumum tilvikum getur samkeppnishamlandi samruni skapað samrunafyrirtækjum aðstæður þar sem neytendur borga í raun fyrir óarðbærar fjárfestingar eða mistök í rekstri, í gegnum hærra verð.
Samrunaeftirlit hefur því mikla þýðingu fyrir almannahagsmuni og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.
Páll Gunnar Pálsson,
forstjóri Samkeppniseftirlitsins
[Pistill þessi birtist sem grein í Viðskiptablaðinu þann 6. september sl.]