Samrunar í ferðaþjónustu
Pistill nr.3/2020
Í tengslum við umfjöllun Fréttablaðisins (Markaðnum) í síðustu viku um samruna í ferðaþjónustu tók Samkeppniseftirlitið saman upplýsingar um meðferð samrunamála á þessu sviði.
Í úttekt Fréttablaðsins var Samkeppniseftirlitið harðlega gagnrýnt fyrir að vera steinn í götu áforma um samruna í ferðaþjónustu. Var þessi gagnrýni höfð eftir Hrönn Greipsdóttur framkvæmdastjóra Eldeyjar fjárfestingarfélags. Fram kom að Samkeppniseftirlitið hafi verið „býsna strangt í skilgreiningum sínum á markaðnum og jafnvel skilgreint samkeppni innan landsfjórðunga.“ Samrununum í greininni hafi fylgt íþyngjandi skilyrði sem hefðu fælt aðra fyrirtækjaeigendur frá því að ríða á vaðið. Þá var fullyrt að tíminn sem eftirlitið taki í skoðun sína tæki engri átt. Var því haldið fram að fyrirtækjunum blæddi á meðan þau biðu eftir afgreiðslu.
Samkeppniseftirlitinu er falið það verkefni að rannsaka hvort samrunar fyrirtækja valdi viðskiptavinum þeirra eða samfélaginu öllu tjóni. Þegar rýnt er nánar í meðferð Samkeppniseftirlitsins á samrunamálum í ferðaþjónustu, frá upphafi árs 2017 til þessa dags, kemur eftirfarandi í ljós.:
- Frá byrjun árs 2017 hefur Samkeppniseftirlitið fengið 18 samruna til skoðunar þar sem ferðaþjónustufyrirtæki eru á meðal samrunaaðila.
- Af framangreindum 18 málum lauk 11 málum innan 25 virkra daga. Stysta meðferð máls var 13 virkir dagar. Lengsta málsmeðferð allra málanna var 90 virkir dagar og næstlengsta 60 virkir dagar. Meðaltal málsmeðferðartíma var 33 virkir dagar (u.þ.b. 1,6 mánuður að meðtöldum virkum dögum) og miðgildi 22 virkir dagar (u.þ.b. 1 mánuður). Helmingi málanna lauk því á innan við mánuði. Ekki er því með góðu móti hægt að halda því fram að fyrirtækjum hafi „blætt út“ vegna langs málsmeðferðartíma.
Til þess að rannsaka samruna veita samkeppnislög tiltekin frest. Getur hann lengst orðið 115 virkir dagar eftir fyrirtæki hafa tilkynnt um samruna með fullnægjandi hætti. Þessi frestur er settur til tryggja að samrunamál taki ekki of langan tíma og er því samrunafyrirtækjum til hagsbóta.
- Í engum þessara samrunamála greip Samkeppniseftirlitið til íhlutunar vegna aðstæðna á ferðaþjónustumarkaði. Hins vegar voru í fimm þessara mála sett skilyrði sem lutu að eignartengslum við fjármálastofnanir. Í einu þessara tilvika var yfirtöku fjármálafyrirtækis sett skilyrði til að flýta sölu og tryggja jafnræði og sjálfstæði ferðaþjónustufyrirtækja. Í hinum fjórum voru sett skilyrði til þess að sporna við skaðlegum hagsmunatengslum og öðrum hindrunum sem stafað geta af eignarhaldi fjárfestingarsjóða sem eru í stýringu dótturfélaga viðskiptabanka.
Það er því ekki rétt að eftirlitið hafi sett íþyngjandi skilyrði sem séu til þess fallin að fæla ferðaþjónustufyrirtæki frá samrunum. Þvert á móti eru þau skilyrði sem sett hafa verið til hagsbóta fyrir þá sem starfa í greininni.
- Við skilgreiningu markaða fylgir Samkeppniseftirlitið fordæmum í EES-samkeppnisrétti. Við greininguna er því beitt sömu aðferðum og við hliðstæð mál annars staðar á hinu evrópska efnahagssvæði. Sú aðferðafræði leiðir oft til þess að horft er á allt landið sem markað, en í nokkrum tilvikum hafa Samkeppniseftirlitið og samrunaaðilar verið sammála því að horfa þrengra á landfræðilega afmörkun, s.s. þegar um samruna hótela er að ræða.
Sjaldgæft er að ágreiningur hafi verið um skilgreiningu markaða í þessum málum enda liggja fyrir þekkt viðmið í samkeppnisrétti. Ekki er því ljóst hvað átt er við með þeirri fullyrðingu að eftirlitið hafi verið strangt í skilgreiningum sínum. Ekki er heldur ljóst hvaða neikvæðu afleiðingar það hefur haft fyrir ferðaþjónustuna.
Að síðustu er rétt að taka fram að það er hlutverk Samkeppniseftirlitsins að gæta hagsmuna viðskiptavina ferðaþjónustufyrirtækja af virkri samkeppni. Samkeppnishæf verð og þjónusta eru forsenda þess að ferðaþjónusta hér á landi verði alþjóðlega samkeppnishæf til framtíðar. Samkeppniseftirlitið væri ekki að sinna hlutverki sínu af það slakaði á eftirliti með það að markmiði að skapa svigrúm fyrir minni samkeppni og hækkun verðs í ferðaþjónustu.
Páll Gunnar Pálsson,
forstjóri Samkeppniseftirlitsins
[Meginefni þessa pistils birtist í viðtali í Fréttablaðinu þann 5. mars sl.]