20.11.2024 Atli Rúnar Kristinsson Valur Þráinsson

Skilar samkeppniseftirlit ávinningi?

Pistill 7/2024

Pistillinn birtist fyrst í Viðskiptablaðinu miðvikudaginn 20. nóvember 2024             

Á liðnum mánuðum hefur í opinberri umræðu verið fjallað um þann kostnað sem óumdeilanlega leiðir af eftirliti hér á landi með ýmissi starfsemi. Eðlilegt og hollt er að fjallað sé um að kostnaður vegna eftirlits fari ekki úr hófi fram. Í slíkri umræðu er hins vegar mikilvægt að gleyma ekki hinni hliðinni á peningnum sem er sú að samfélagslegur ávinningur er fólginn í því að eftirlit sé til staðar og lögum og reglum samfélagsins sé fylgt. Oft er þó flóknara að leggja mat á þann ávinning heldur en kostnað vegna slíks eftirlits sem kann að skýra litla umfjöllun um samfélagslegan ávinning af eftirliti.

Í þágu upplýstrar umræðu eru hér reifaðar niðurstöður um mat á ávinningi af samkeppniseftirliti hér á landi frá árinu 2005, sbr. nýjustu skýrslu Samkeppniseftirlitsins nr. 4/2024, Reiknaður ábati vegna íhlutunar Samkeppniseftirlitsins 2014-2023. Hafa erlendar systurstofnanir, t.a.m. samkeppnisdeild framkvæmdastjórnar ESB og bresk og hollensk samkeppnisyfirvöld unnið slíkar greiningar á sl. árum.

Mat á reiknuðum ábata af samkeppniseftirliti

Greining Samkeppniseftirlitsins miðar að því að meta reiknaðan ábata vegna íhlutunar eftirlitsins á grundvelli samkeppnislaga og styðst við aðferðafræði sem lýst er í leiðbeiningum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) frá 2014 sem nefnast Guide for helping competition authorities assess the expected impact of their activities. Greiningin og aðferðafræði hennar er rýnd af óháðum sérfræðingum.

Grunnforsenda leiðbeininga OECD er sú að brot fyrirtækja á samkeppnislögum, sem felast t.a.m. í samráði eða misnotkun á markaðsráðandi stöðu, eða samrunar sem raska samkeppni, leiði að jafnaði til hærra verðs og lakari gæða á viðkomandi markaði heldur en á markaði þar sem samkeppni nýtur við. Með íhlutun sinni koma samkeppnisyfirvöld því í veg fyrir að hærra verð og lakari gæði til viðskiptavina á viðkomandi markaði sé viðvarandi.

Reiknaður ábati er því mat á þeim skaða sem viðskiptavinir hefðu orðið fyrir ef ekki hefði komið til íhlutunar samkeppnisyfirvalda. Viðskiptavinir geta hvort sem er verið neytendur eða önnur fyrirtæki. Greiningin miðar þó ekki að því að leggja heildarmat á þjóðhagslegan ávinning af samkeppniseftirliti. Ekki er tekið tillit til margvíslegra jákvæðra áhrifa sem virk samkeppni getur haft, t.a.m. aukinnar nýsköpunar og aukinnar þjóðhagslegrar hagkvæmni efnahagslífs. Þá er ekki horft til taps fyrirtækja sem verða af viðbótartekjum vegna þess að háttsemi sem fer gegn samkeppnislögum er stöðvuð.

Rannsóknir á áhrifum samkeppnislagabrota benda til þess að þær forsendur sem stuðst er við séu varfærnar, en nánar er fjallað um það í skýrslu Samkeppniseftirlitsins nr. 3/2024.

Reiknaður ábati nemur margföldum fjárframlögum til stofnunarinnar

Niðurstöður greiningar fyrir íhlutun Samkeppniseftirlitsins til og með ársloka 2023 voru birtar í september sl. en greining Samkeppniseftirlitsins nær aftur til ársins 2005 þegar Samkeppniseftirlitið hóf starfsemi í núverandi mynd. Niðurstöðurnar eru birtar sem meðaltal yfir 10 ára tímabil til að jafna út sveiflur milli ára.

Reiknaður ábati vegna íhlutunar Samkeppniseftirlitsins á tíu ára tímabilinu 2014-2023 samsvaraði 17-29-földum fjárframlögum til stofnunarinnar yfir tímabilið, eða um 10,7-17,7 ma.kr. á ári hverju að meðaltali á verðlagi ársins 2023.

Sjá má af mynd 1 að 10 ára meðaltal reiknaðs ábata hefur haldist tiltölulega stöðugt. Árlegt meðaltal reiknaðs ábata vegna íhlutunar Samkeppniseftirlitsins var lægst á tímabilinu 2011-2020 þegar reiknaður ábati nam um 15-26-földum fjárframlögum ríkisins til stofnunarinnar eða um 8,8-15,1 ma.kr. á ári hverju að meðaltali. Reiknaður ábati var hæstur á tímabilinu 2008-2017 þegar hann nam um 20-36-földum fjárframlögum eða um 10,9-19,5 ma.kr. á ári hverju að meðaltali. Fjárhæðir eru á verðlagi ársins 2023.

Að lokum

Í umræðu um eftirlit hér á landi er mikilvægt er að horfa til þess ávinnings sem opinbert eftirlit skilar, ekki síður en til þess kostnaðar sem af því hlýst. Í tilviki eftirlits með því að samkeppnislögum sé fylgt er ávinningur samfélagsins margfaldur á við kostnaðinn en reiknaður ábati vegna íhlutunar Samkeppniseftirlitsins á tíu ára tímabilinu 2014-2023 samsvaraði 17-29-földum fjárframlögum til stofnunarinnar, eða um 10,7-17,7 ma.kr. á ári hverju að meðaltali. Rétt forgangsröðun á opinberu fé er mikilvæg en gæta þarf að því að spara ekki eyrinn og kasta um leið krónunni.

Atli Rúnar Kristinsson er hagfræðingur hjá Samkeppniseftirlitinu. 

 Valur Þráinsson er aðalhagfræðingur hjá Samkeppniseftirlitinu.