Skýrsla OECD um samkeppnismat á umgjörð ferðaþjónustu og byggingariðnaðar
Pistill nr. 7/2020
Ræða Páls Gunnars Pálssonar, forstjóra Samkeppniseftirlitsins, á fundi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis í Hörpu.
Ágætu ráðherrar og aðrir fundargestir, hér og á netinu,
Hér í dag eru kynntar niðurstöður ítarlegrar greiningarvinnu þar sem stjórnvöld og hagsmunaaðilar hafa, undir styrkri leiðsögn OECD, komið auga á leiðir til þess að skapa ferðaþjónustu og byggingariðnaði betri umgjörð sem er til þess fallin að efla þessar greinar til framtíðar, til hagsbóta fyrir neytendur og almenning, til hagsbóta fyrir atvinnulífið og til hagsbóta fyrir íslenskt efnahagslíf í heild sinni.
Aðferðin er einföld: Nefnilega að setja sig í spor ungs pars sem hefur hug á því að koma sér splunkunýju þaki yfir höfuðið. Fylgja þeim eftir þegar þau finna sér lóð, átta sig á því hvernig má nýta hana, láta teikna húsið, fá síðan fjölmargar ólíkar starfsstéttir til liðs við sig við bygginguna, með tilheyrandi eftirliti, standsetja húsið og flytja inn.
Og setja sig í spor ferðamannsins, sem ákveður að fara til Íslands, lendir á Keflavíkurflugvelli, velur sér ferðamáta á áfangastað eða staði, bókar sig inn á hótel, fær sér að borða og skoðar sig um og hverfur síðan á braut.
Og spurningin sem við erum að spyrja okkur er þessi: Hvernig getum við gert líf þessa fólks auðveldara og hagkvæmara? Ekki bara fyrir þau. Það er nefnilega þannig að ef okkur tekst að gera líf þessa fólks auðveldara og hagkvæmara þá munu þau ekki bara njóta þess, heldur munu fyrirtækin sem starfa í samkeppnishæfara umhverfi njóta þess, starfsmenn þeirra munu njóta þess, byggingarkostnaður verður lægri, umgjörð ferðaþjónustu verður sterkari, kaupmáttur mun aukast og efnahagslífið verður öflugra.
Ef við höfum einhvern tímann þurft á þessu að halda þá er það NÚNA! Við þurfum eitthvað spes, eitthvað extra, til þess að koma okkur á flug núna, eftir allar COVID hremmingarnar. Við þurfum að búa til okkar X-faktor. Og við vitum að svona aðgerðir virka. Ástralía hefur síðustu áratugi staðið framarlega í öllum efnahagslegum samanburði, vegna þess að þar var löggjöf og reglur í atvinnulífinu hreinsaðar af öllum óþarfa samkeppnishindrunum og búnar til betri reglur sem stóðu samt áfram vörð um ólíka almannahagsmuni, hvort sem það er öryggi, umhverfisvernd eða annað.
Með því að setja saman þessa skýrslu og kynna hana er mikilvægum áfanga náð, en sigurinn er ekki unninn. Það þarf að koma tillögunum í framkvæmd. Það er stóra áskorunin sem við stöndum frammi fyrir. Ekki bara fyrir stjórnvöld, heldur líka hagsmunaaðila. Það er nefnilega ekki víst að þeir séu allir hrifnir af öllum tillögunum. Það er hins vegar mikilvægt að allir horfi á stóru myndina, fremur en einstaklingsbundna hagsmuni. Þá mun þetta ganga vel.
Og svo þarf að halda áfram. Nýta þetta verklag, samkeppnismatið, við undirbúning allra nýrra laga og reglna. Og taka taka núgildandi reglur í öðrum atvinnugreinum til skoðunar.
Ef við mörkum þessa braut þá höfum við stigið mikilvægt framfaraskref fyrir neytendur, atvinnulíf og efnahagslífið í heild.
Ég vil ljúka þessu með því að færa ríkisstjórninni og Þórdís Kolbrúnu sérstaklega þakkir fyrir þá framsýni að ráðast í þetta verkefni. Ég þakka Efnahags- og framfarastofnuninni og starfsmönnum hennar fyrir árangursríkt og skemmtilegt samstarf. Og ég færi öllum sem hafa tekið þátt í verkefninu kærar þakkir fyrir samstarfið. Og við í Samkeppniseftirlitinu hlökkum til að taka þátt í vinnunni sem er fram undan.
Áfram gakk.