Skýrslur
Samkeppniseftirlitið gefur út ársritið: Breytt umhverfi - öflugra eftirlit
- Sækja skjal
- Málsnúmer: 1/2007
- Dagsetning: 30/8/2007
-
Fyrirtæki:
- Samkeppniseftirlitið
-
Atvinnuvegir:
Enginn atvinnuvegur finnst
-
Málefni:
Engin málefni finnast
-
Reifun
Ársrit Samkeppniseftirlitsins, sem kom út í dag, fimmtudaginn 30. ágúst, ber heitið Breytt umhverfi – öflugra eftirlit. Í tengslum við útgáfu ritsins var nýtt húsnæði Samkeppniseftirlitsins í Borgartúni 26 formlega tekið í notkun þar sem viðskiptaráðherra ávarpaði viðstadda.
Í ritinu er fjallað um áherslur Samkeppniseftirlitsins og hvernig þeim hefur verið fylgt eftir. Þar eru einnig raktar nýlegar breytingar á samkeppnislögum sem ætlað er að styrkja framkvæmd þeirra. Breytingum á skipulagi og reglum um málsmeðferð er lýst, en breytingarnar miða að markvissari vinnubrögðum eftirlitsins, fjallað er um málhraða hjá eftirlitinu og fleira.
Helstu atriði ársritsins eru:
* Samkeppniseftirlitið hefur varið um 20 % af ráðstöfunartíma sínum í málefni sem tengjast matvörumarkaði, frá miðju ári 2006 til miðs þessa árs. Á því tímabili hafa um 30 stjórnsýslumál verið til meðferðar sem tengjast matvörumarkaði.
* Mjög mikilvægt er að virk samkeppni ríki í almennri bankaþjónustu. Þess vegna er fjármálastarfsemi á meðal þeirra þátta atvinnulífsins sem Samkeppniseftirlitið leggur megináherslu á í starfsemi sinni.
* Samkeppniseftirlitið getur samkvæmt nýju lögunum ákveðið að kæra ekki til lögreglu brot einstaklinga sem upplýsa um samkeppnisbrot og liðsinna við rannsókn þeirra.
* Á árinu 2006 lauk Samkeppniseftirlitið 104 stjórnsýslumálum, en tók upp 106 ný mál til skoðunar. Aldurssamsetning mála er að færast í betra horf en hlutfallslega færri mál eru eins og hálfs árs eða eldri nú en fyrir ári og hlutfall yngri mála að sama skapi hærra.
Í aðfararorðum Gylfa Magnússonar, stjórnarformanns Samkeppniseftirlitsins, að ársrirtinu segir:
„Þótt Samkeppniseftirlitið fylgist fyrst og fremst með starfsemi innlendra fyrirtækja þá liggur í hlutarins eðli að stofnuninni ber jafnframt að gera það sem í hennar valdi stendur til að samkeppni erlendra aðila hérlendis komi íslenskum neytendum til góða”.
Í inngangi Páls Gunnars Pálssonar forstjóra segir:
“Miklu skiptir að fyrirtæki, stjórnvöld og neytendur setji heilbrigt samkeppnisumhverfi á oddinn í þeim umbreytingum sem nú eiga sér stað í íslensku atvinnulífi. Þar hafa allir hlutverki að gegna.”
Nánari upplýsingar veitir:
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, sími 585 0700.